04.02.1960
Neðri deild: 22. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1101 í B-deild Alþingistíðinda. (2091)

40. mál, útsvör

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Ég vil aðeins taka það fram, eins og ég raunar gerði við 1. umr. þessa máls, að ég get vel fallizt á, að heimildin til þess að fresta útsvarsálagningu fram yfir áramót verði bundin við þetta eina og sérstaka tilfelli, en ekki höfð almenn, sem mér þó, þegar brbl. voru út gefin, fannst einfaldast. En það getur vel verið og ég get alveg á það fallizt, að það sé ekki vert að hafa þessa heimild rýmri en svo, að hún taki aðeins til þessa einstaka tilfellis, sem hér er um að ræða nú.

Ég get fallizt á það, að meðferð þessara mála er í mörgum hreppsfélögum og raunar bæjarfélögum líka, eins og hv. frsm. n. tók fram, þannig, að það nálgast mjög, að óviðunandi sé, þar sem þessum framkvæmdastörfum hreppsnefnda og bæjarstjórna hefur víða seinkað langt umfram það tímatakmark, sem lögin ákveða, og oftast nær, held ég, án þess að nokkurrar heimildar hafi verið um það leitað til rn. — Ég sem sagt fyrir mitt leyti get fallizt á, að þessi breyting verði gerð.