12.02.1960
Efri deild: 21. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1103 í B-deild Alþingistíðinda. (2098)

40. mál, útsvör

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Hæstv. ráðh. hefur hér gert grein fyrir máli þessu. En eitt fannst mér þó ekki koma nógu skýrt fram í ræðu hæstv. ráðh., og ég vildi gjarnan, að hann svaraði því betur.

Hann tók þannig til orða, að rn. hefði borizt vitneskja um, að útsvör hefðu ekki verið lögð á í Ólafsvíkurhreppi fyrir árið sem leið. En frá hverjum barst rn. þessi vitneskja? Var það frá hreppsnefndinni, eða var það frá einhverjum öðrum aðila eða bara á skotspónum? Og svo í öðru lagi: Hver var aðalástæðan fyrir því, að hreppsnefnd Ólafsvíkurhrepps gat ekki á 12 mánuðum jafnað niður útsvörum? Hver var aðalástæðan fyrir því? Þetta kom hvergi fram í ræðu ráðh. Ég geri ráð fyrir, að það hafi kannske ekki mikið að segja fyrir afdrif þessa máls, en hins vegar væri mjög fróðlegt að fá upplýsingar um það. Og í þriðja lagi, þar sem ráðh. gat um það, að ef ekki væri búið að jafna niður útsvörum í einu hreppsfélagi eða bæjarfélagi í maílok, þá bæri að sækja um leyfi til að jafna niður síðar á árinu. Var slíkt aldrei gert af hendi Ólafsvíkurhrepps á árinu 1959?

Þetta eru aðeins nokkrar upplýsingar, sem ég vænti að hæstv. ráðh. geti svarað. En um málið almennt verð ég að segja það, að ég felli mig miklu betur við frv. eins og það liggur nú fyrir og er afgreitt af hálfu Nd. heldur en þá almennu heimild, sem brbl. fólu í sér, útgefin af ráðuneytinu og forseta Íslands.