29.02.1960
Efri deild: 34. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 11 í C-deild Alþingistíðinda. (2134)

63. mál, meðferð drykkjumanna

Flm. (Alfreð Gíslason læknir):

Herra forseti. Í grg., sem fylgir þessu frv. til laga um meðferð drykkjumanna, er skýrt frá efni þess almennt og í einstökum atriðum. Frv. er byggt á gildandi lögum um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra, en víkur þó frá þeim efnislega í nokkrum veigamiklum atriðum.

Það mun einróma álit þeirra, sem til þekkja, að ráðstafanir ríkisins til hjálpar drykkjumönnum séu mjög í molum og að því valdi ekki hvað sízt vissir ágallar í gildandi löggjöf. Tilfinnanlegast er, að fé og orku er drepið á dreif um of með þeirri afleiðingu, að árangur verður miklu lakari en vera þyrfti. Það, sem vantar, er að einbeita kröftum betur og samræma aðgerðir. Mér er kunnugt um, að Vilmundur Jónsson fyrrv. landlæknir er meðal þeirra, sem þetta er ljóst. Hann telur ráðstafanir ríkisins til aðhlynningar og lækninga drykkjusjúku fólki vera í molum og breyt. á gildandi lögum nauðsynlegar til úrbóta. Mér er einnig kunnugt um, að það sérmenntað fólk, sem með höndum hefur meðferð drykkjumanna, er óánægt með þá skipulagslegu galla, sem á þessum málum eru, og telur starfsárangur verða lakari fyrir þá.

Ég minnist þess, að fyrir mörgum árum stakk dr. Gunnlaugur Claessen upp á því í tímariti sínu, Heilbrigðu lífi, að skipaður yrði sérstakur áfengisyfirlæknir, sem fengi það hlutverk að stjórna baráttunni við drykkjuskap, líkt og berklayfirlækni væri falin forstaða fyrir berklavörnum landsins. Þessari hugmynd tóku margir vel, bæði þá og síðar, þótt hún því miður ætti ekki hljómgrunn hjá þeirri n., sem fyrir rúmum áratug undirbjó löggjöfina um meðferð drykkjusjúkra manna. Sú reynsla, sem síðar er fengin, bendir til þess, að betur hefði að þessu ráði verið horfið, einum ábyrgum sérfróðum manni falin umsjón og yfirstjórn allrar þeirrar ríkisstarfsemi, sem um ræðir.

Ég tel mér skylt að láta þess getið hér, að ákvæði frv., sem hér liggur fyrir, um yfirlækni áfengisvarna ríkisins er að formi til fengið frá fyrrv. landlækni, Vilmundi Jónssyni.

Mér þykir hlýða að fara örfáum orðum um þær stofnanir, sem hér koma við sögu, og skal þá fyrst getið áfengisvarnadeildar Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur. Við þá stofnun starfa tveir læknar 5 klst. í viku samanlagt, einn sálfræðingur jafnlangan tíma og ein heilsuverndarhjúkrunarkona hálfan starfsdag. Deildin hefur starfað í sjö ár og veitt viðtöku 1303 einstaklingum eða sem svarar 186 nýjum skjólstæðingum ár hvert. S.l. ár leituðu 474 drykkjumenn sér meðferðar á þessari hjálparstöð, og voru heimsóknir þeirra þangað samanlagt 8306 það árið. Starfsemin er eingöngu bundin við það, að menn geti sjálfir mætt til meðferðar, og deildin hefur engan greiðan aðgang að sjúkrahúsi eða hælum né neina teljandi samvinnu við aðra aðila, sem að drykkjumannahjálp vinna. Árlegur rekstrarkostnaður þessarar deildar mun vera nálægt 300 þús. kr.

Í Gunnarsholti hefur drykkjumannahæli verið rekið á vegum ríkisins nokkur ár, og mun það eina stofnunin, sem reist hefur verið samkv. ákvæðum laga um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra. Hefur geðveikrahælið á Kleppi umsjón með gæzlu sjúklinga þar. Á hælinu er rúm fyrir um 30 vistmenn, og árið 1958 dvöldust þar að meðaltali 18 menn á dag, en samtals nutu vistar þar 95 manns á því ári. Árlegur rekstrarkostnaður þessa hælis hygg ég að sé eitthvað á 2. millj. kr., en nálægt 240 einstaklingar munu hafa dvalizt þar frá stofnun hælisins 1954.

Bláa bandið í Rvík er rekið af AA-samtökunum með styrk úr gæzluvistarsjóði, og hefur þetta hjúkrunar- og hressingarheimili nú starfað í liðlega fjögur ár. Rúm er þar fyrir 30 vistmenn og að staðaldri fullskipað. Höfðu á s.l. hausti notið vistar á þessu heimili frá byrjun 857 einstaklingar, og voru 192 úr þeim hópi búsettir utan Reykjavíkur, menn frá svo að segja öllum sýslum og kaupstöðum landsins. Heildarrekstrarkostnaður Bláa bandsins nam á árinu 1959 um hálfri annarri millj. kr. Ég vil geta þess enn fremur hér, að auk rekstrar Bláa bandsins hafa AA-samtökin með höndum mikla og mikilsverða félagslega starfsemi og að þau hafa nýlega hafið rekstur hælis í Víðinesi á Kjalarnesi, þar sem nú dveljast 7 vistmenn.

Þessir eru þá þrír helztu aðilarnir að drykkjumannalækningum í landinu, heilsuverndarstöðin, ríkið og AA-samtökin. Það, sem tilfinnanlega á skortir, eru náin tengsl samvinnu á milli þeirra. Þótt ekkert annað væri gert en að hnýta þau, væri mikið fengið, enda mundi þá starfið verða léttara og árangursbetra. Í þá átt að einbeita kröftum og samræma aðgerðir stefnir frv. það, sem hér liggur nú fyrir.

Þetta frv. er undirbúið af fólki, sem árum saman hefur starfað að drykkjumannalækningum og fundið, hvar skórinn kreppir. Eru ákvæði þess miðuð við þær aðferðir, sem beztar teljast nú hér og erlendis. Tel ég rétt að fara nokkrum orðum um tilhögun þessarar starfsemi, eins og henni verður nú bezt fyrir komið.

Er þá fyrst til að taka þá staðreynd, að drykkjuskapur eða ofdrykkja er sjúklegt fyrirbrigði og heyrir því undir læknisfræðina, nánar tiltekið geðlæknisfræðina. Þetta er vert að undirstrika. Ofdrykkja er ekki viðfangsefni leikmanna, heldur sérfróðra lækna. Hún er rannsóknarefni sálsýkifræðinnar, og meðferð hennar er í verkahring geðlækna. Annar skilningur á stöðu drykkjuskapar en þessi er rangur og leiðir óhjákvæmilega til rangra aðgerða, sem enda í blindgötum. Ofdrykkja á sammerkt öðrum sjúkdómum í því að vera félagslegt vandamál, og hún er meira að segja flestum öðrum sjúkdómum alvarlegra vandamál í nútímaþjóðfélagi. Eru ástæður fyrir því þær, að drykkjumenn eru margir talsins og of lítið hefur verið hirt um meðferð þeirra hingað til. Þegar menn eru geðveikir í þrengri merkingu þess orðs, verða vitfirrtir, er þeim strax leitað lækninga. Takist ekki að lækna þá tiltölulega fljótt, eru þeir vistaðir á geðveikrahælum og það því fyrr, sem þeir valda meiri erfiðleikum í samfélaginu. Ef við hugsum okkur, að öllum geðveiklingum yrði sleppt úr spítölum og hælum, mundi brátt blasa við á sviði þeirra mála félagslegt vandamál ekki óáþekkt því, sem drykkjuskapur nú veldur.

Á þetta verður aldrei of þung áherzla lögð, að ofdrykkja er læknisfræðilegt viðfangsefni. Á grundvelli þeirrar staðreyndar og á honum einum verður sérhver sú ráðstöfun að byggjast, sem gerð er til lausnar vandanum. Meðferð drykkjumanna annast sérfróðir læknar með aðstoð sérmenntaðs fólks. Annað er kák og kukl. Félagslega hjálp veita síðan ýmsir aðilar, eftir því sem á stendur, og þá ætíð í samráði við þá, sem læknismeðferðina hafa með höndum. Nánustu samstarfsmenn lækna á sviði drykkjumannalækninga eru sálfræðingar og sérmenntaðir ármenn.

Ytri tilhögun meðferðarinnar er nú á tímum talin bezt sú, sem ég nú skal greina frá í stórum dráttum: Fyrst er drykkjumaðurinn tekinn til athugunar á hjálparstöð eða heilsuverndarstöð, og að henni lokinni hefst meðferð hans þar. Er meðferð hagað eftir hinum ýmsu aðferðum geðlæknisfræðinnar. Í fyrstu mætir sjúklingurinn nærri daglega til meðferðar, síðar sjaldnar, og er þannig haldið áfram í langan tíma, oft missirum saman. Er lögð á það áherzla, að drykkjumennirnir geti þrátt fyrir læknismeðferðina stundað daglega vinnu sína og gegnt á annan hátt samfélagslegum skyldum sinum. Frávik frá þessari reglu meðferðarinnar eru ekki fátíð. T.d. getur það reynzt nauðsynlegt þegar í byrjun að vista drykkjumann í sjúkrahúsi til rannsóknar eða meðferðar. Getur grunur um líkamlegan eða andlegan sjúkdóm óskyldan drykkjuskapnum gert slíka vistun æskilega, og oft getur reynzt auðveldara að byrja rannsókn og meðferð innan veggja spítala en utan. En þess háttar sjúkrahúsvistun stendur ætíð skamman tíma, og síðan er meðferð haldið áfram á faraldsfæti um langt skeið.

Þessari meðferð, að reyna lækningu utan hæla og úti í lífinu, er nú hvarvetna beitt í vaxandi mæli. Hún þykir ekki síður árangursrík en hælismeðferðin og er auk þess þægilegri og stórum kostnaðarminni. Hún hefur gefið góða raun, þar sem vel er í haginn búið fyrir starfslið, þótt fullan árangur gefi hún vitanlega ekki. Viss hluti drykkjumanna, þeir geðveilustu, heldur áfram drykkjuskap þrátt fyrir viðleitni hjálparstöðvanna. Þá er reynt að vista þessa menn á hælum til langs tíma, marga mánuði eða nokkur ár eða ótiltekið fram í tímann. Stöðvarnar eru grunnurinn undir allri þessari starfsemi. Þær þurfa að hafa aðgang að hressingarheimilum og hælum, sem þurfa að vera fleiri en einnar tegundar, þannig að unnt sé að flokka menn í þau nokkuð eftir ástandi og batahorfum. Síðasta stig drykkjumannahælis yrði þá lokað hæli handa þeim, sem áralöng læknismeðferð hefur ekkert gagnað og orðnir eru utan allra gátta í þjóðfélaginu vegna drykkjuskapar. Þessi tilhögun á meðferð drykkjumanna virðist þeim sérfræðingum heppilegust, sem mest fjalla um þessi mál á erlendum vettvangi. Þeir líta á hjálparstöðina sem grunneiningu og til hennar og frá eigi síðan allir þræðir að liggja. Hvar sem sjúklingarnir dveljast, eru tengsl þeirra við grunninn, hjálparstöðina, aldrei rofin. Starfsliðstöðvanna fylgist með þeim og hefur hönd í bagga með, hvort sem þeir dveljast innan veggja stofnana eða utan. Það er þetta samhengi í tilhögun, sem vantar gersamlega hér á landi enn.

Ég læt nú máli mínu senn lokið, en get þó ekki stillt mig um að eyða nokkrum orðum í það, sem nú er brýnasta þörfin á sviði drykkjumannalækninga, en það er, að komið verði á fót lokuðu hæli. Hér í Reykjavík og á við og dreif úti um landið eru drykkjumenn, sem eru svo langt leiddir, að þeir mega heita ósjálfbjarga. Þeir vinna ekki, en betla sér fyrir áfengi. Andlega og líkamlega eru þeir af sér gengnir vegna langvarandi drykkjuskapar. Ekkert heimili getur haft þá, og þeir eiga sér ekkert húsaskjól, en skríða um nætur þar inn, sem þeir komast. Þetta eru utangarðsmennirnir í þjóðfélaginu. Yfirframfærslufulltrúinn í Reykjavík hefur nýlega sent yfirboðurum sínum grg, um þetta utangarðsfólk í höfuðstaðnum. Hefur hann leyft mér að vitna í þá grg., en þar segir svo m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Allt er fólk þetta áfengissjúklingar, heimilislaust og umhirðulaust langtímum saman, er segja má að leggist til hvíldar í ofurölvun sinni í hverju því afdrepi, sem það getur fundið, einkum hér við höfnina. Svo sjúkt er það og stundum sökum næringarskorts og drykkju ýmiss konar mengaðra drykkja, hárvatns, brennsluspíritus o.s.frv., að það kastar upp, þar sem það liggur, og atar sig svo út í þessum óþverra. Eru þess og dæmi, að það ber merki þess á höndum og fatnaði að hafa lagzt niður í og káfað í saur sínum eða annarra. Ber klæðnaður þess oft og tíðum vitni um þetta, bæði í sjón og raun. Þegar svo þessir vesalingar vakna að morgni, má geta nærri, hvernig líðan þeirra er, eftir að hafa legið í eða undir einhverju afdrepi, sem og oft undir berum himni regnkaldar nætur. Það er í sjálfu sér ekki að undra, þó að það leiti til verkamannaskýlisins, um leið og það er opnað, til þess að fá sér hita og venjulega með betli um eitthvað heitt að drekka.“

Þannig farast yfirframfærslufulltrúanum orð, og hann hefur það eftir lögreglustjóranum í Reykjavík, að s.l. haust hafi hér í bænum eigi verið færri en 30 karlar, sem telja verði til þessa flokks drykkjumanna, en konur mun færri. Niðurstaða fulltrúans er sú, að stofnsetja beri svokallað lokað hæli, þar sem menn þessir geti dvalizt um langan tíma, allt að 3–4 árum, undir læknismeðferð og við hæfileg störf. Um skoðun lögreglustjórans í þessu efni segir framfærslufulltrúinn á þessa leið:

„Í viðtali mínu við lögreglustjórann gat hann þess, að það, sem mestum erfiðleikum ylli í sambandi við drykkjuskapinn hér í bænum, væri einmitt vöntun á lokuðu hæli fyrir þessa vonlausu tegund ofdrykkjumanna. Var það hans skoðun, að ef til væri lokað hæli, mundi áhrifanna gæta langt inn í raðir þeirra, sem nú eru á leið til að verða vonlausir ofdrykkjumenn og munu verða það, sé ekkert að gert.“

Ég þarf ekki að taka fram, að ég er fyllilega sammála því, sem fram kemur í þessari skýrslugerð, bæði hvað ástand snertir og ráð til úrbóta.

Forstöðumaður Bláa bandsins, Guðmundur Jóhannsson, hefur tjáð mér nýlega, að af þeim 857 einstaklingum, sem þar höfðu dvalizt á fyrstu fjórum árum hælisins, hafi eftirgrennslan farið fram varðandi afdrif 463 manna, sem náð var til. Af þeim hópi reyndust 15.6% eða 76 menn svo langt leiddir þrátt fyrir undangengna meðferð, að vistun á lokuðu hæli var talin eina úrræðið. Þessi forstöðumaður hikaði ekki við að fullyrða, að brýnust væri þörfin nú á stofnun lokaðs hælis handa þeim drykkjumönnum, sem verst eru farnir. Gunnarsholt hefur ekki aðstöðu til að hafa slíka sjúklinga. Þó hafa þeir verið fluttir þangað og afleiðingin orðið sú, að hver einasti sjúklingur, sem frá Gunnarsholti hefur komið frá byrjun, hefur samstundis drukkið sig fullan. Það er lélegur árangur og þó ekki lakari en til er stofnað.

Þrátt fyrir að þörfin á lokuðu hæli hafi lengi verið brýnust, þá hefur slíkt hæli enn ekki verið reist. Hælið í Gunnarsholti er annarrar tegundar og þó raunar hvorki fugl né fiskur, og hið nýja litla hæli í Víðinesi er líka annarrar tegundar. Slík mistök verða vegna þess, að alla yfirsýn og samræmda stjórn vantar í þessum efnum, en markmiðið með flutningi frv. er einmitt að fá bætt úr þeirri vöntun.

Þegar um er að ræða jafnmikilsvert heilbrigðis- og félagsmál sem hér er, þá er raunalegt að horfa upp á það, að í sífellu sé bætt gráu ofan á svart, mistökum hlaðið á mistök ofan, og fá ekki að gert. Það er hart að þurfa að una við þá erfiðleika, sem áfengisvarnadeild heilsuverndarstöðvarinnar á við að etja vegna skorts á tengslum við sjúkrahús og hæli. Það er heldur ekki skemmtilegt að horfa upp á vandræði þeirra ágætu leikmanna, sem nú berjast einangraðir um í hringiðu Bláa bandsins í Reykjavík. Og það er blátt áfram sorgleg sjón að sjá fé og orku ár eftir ár eytt í gagnslítið pjakk hælisins í Gunnarsholti. Úr öllu þessu má bæta og verður að bæta, en til þess þarf, eins og ég hef margtekið fram þegar, samræmingu aðgerða og traustari og ábyrgari stjórn.

Ég læt máli mínu lokið og legg til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.