08.03.1960
Efri deild: 38. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 18 í C-deild Alþingistíðinda. (2140)

81. mál, Hjúkrunarkvennaskóli Íslands

Flm. (Alfreð Gíslason læknir):

Herra forseti. Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um þetta frv. á þskj. 152, sem hér liggur fyrir.

Lög um Hjúkrunarkvennaskóla Íslands voru sett fyrir 16 árum. 1. gr. þeirra laga hljóðar svo: „Ríkið heldur uppi heimavistarskóla, er hefur það hlutverk að veita konum fræðslu til að verða vel menntar hjúkrunarkonur, Hjúkrunarkvennaskóla Íslands.“

Í þessari grein eru þrjú atriði verð athugunar, og þau eru, að skólinn skuli vera heimavistarskóli, veita konum einum fræðslu og sem afleiðing af því heita Hjúkrunarkvennaskóli Íslands. Nú er reyndin sú, að þessi skóli veitir fræðslu nemendum beggja kynja. Þar stunda nám bæði konur og karlar, þótt þeir síðarnefndu séu þar í miklum minni hluta, a.m.k. enn sem komið er. Það er líka æskilegt og jafnvel nauðsynlegt, að í hjúkrunarstéttinni séu bæði karlar og konur, og er það ekki nýtt, og munu allir, sem til þekkja, sammála um það atriði. Skólinn hefur því ekki aðeins það hlutverk að veita konum fræðslu, heldur veitir hann einnig fræðslu þeim körlum, sem þess óska og hæfir teljast. Þessu atriði verður því að breyta í lögunum og þá um leið heiti skólans, sem ekki er lengur kvennaskóli eingöngu í venjulegri merkingu þess orðs.

Heimavistarákvæðið tel ég ekki mikils virði, og að mínum dómi er það frekar til ills. Piltarnir, sem verið hafa og eru í skólanum, búa þar ekki, og það gera ekki heldur allir kvennemendurnir. Skólinn er því ekki nú neinn hreinn heimavistarskóli. Hvað vöxt og viðgang skólans snertir hefur heimavistarákvæðið verið til trafala. Skólahúsið á landsspítalalóðinni er enn ekki fullbyggt, og þar vantar nú tilfinnanlega kennslustofur. Stendur þannig á því, að meira var hirt um að reisa heimavistarálmur hússins en kennsluhúsnæði. Á því stigi strandaði byggingin fyrir allmörgum árum, skólahaldinu til mikils baga. Ég tel, að meira hefði átt að meta byggingu rúmgóðs kennsluhúsnæðis en gert var. Skólann vantar fyrst og fremst slíkt húsnæði til þess að geta betur en raun er á fullnægt þörf þjóðfélagsins. Hjúkrunarfólkseklan fer vaxandi og verður æ meira vandamál. Því verður að greiða götu fólks sem mest að þessu námi, og má ekki takmarka aðganginn t.d. við þá tölu, sem rúm heimavistarinnar segir til um á hverjum tíma.

Það skiptir ekki heldur sérlega miklu máli, hvort nemendur búa í skólanum eða utan hans. Aðalatriðið er, að húsrými og önnur skilyrði til kennslu séu góð. Heimavistarákvæðið í lögunum er óheppilegt af þessum ástæðum og raunar óframkvæmanlegt, og því ber að fella það burt.

Þá er í 6. gr. laganna heimild til að lengja almennt hjúkrunarnám um eitt ár. Þessi heimild hefur ekki verið notuð, sem betur fer, á þeim 16 árum, sem lögin hafa verið í gildi. Námið er sannarlega nógu langt, eins og það er, á fjórða ár. Er það mín skoðun, að frekar þyrfti heimildar við um styttingu námstímans, ef sérstaklega stæði á, svo sem þegar að skólanum kæmi fólk með sérstaka menntun eða sérstaka verklega reynslu í hjúkrun. En það er mál, sem ekki snertir þær breytingar, sem hér er um að ræða. Þessu heimildarákvæði í 6. gr. um eins árs almennt framhaldsnám hefur sem sagt ekki verið beitt. Því er ofaukið í lögunum og því vissast að láta það hverfa þaðan.

Ákvæði um sérnám hjúkrunarfólks í hinum ýmsu hjúkrunargreinum eru á hinn bóginn sjálfsögð og standa óhögguð.

Aðrar smábreytingar, sem felast í þessu frv., leiðir af þeim, sem ég hef nú minnzt á, og mun ég ekki fjölyrða um þær frekar.

Herra forseti. Ég legg til, að þessu frv. verði að umræðu lokinni vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.