26.11.1959
Neðri deild: 3. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 30 í C-deild Alþingistíðinda. (2149)

13. mál, áburðarverksmiðja

Flm. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Út af því, sem hæstv. forsrh. sagði um, að ég hefði verið að tala um, að einn mjög lærður hagfræðingur, — og það ætla ég síður en svo að draga í efa, hve lærður hann sé, dr. Benjamín Eiríksson, — hefði tekið þátt í að misþyrma þjóðinni, þá var það alveg misskilningur hjá hæstv. forsrh. Ég sagði aldrei, að hann hefði verið að misþyrma þjóðinni eða tekið þátt í því. Ég sagði aðeins, að honum hefðu orðið mistök á, og ég var nú satt að segja ekki að segja þetta til þess að fara að hnjóða neitt í Benjamín Eiríksson. Ég meinti fyrst og fremst með þessu, að þeir hagfræðingar, sem e.t.v. kynnu að vera efnahagsráðunautar hæstv. ríkisstj. nú, ættu að athuga sinn gang og hugsa dálítið, áður en þeir færu inn á þá braut að gefa e.t.v. eitthvað svipaðar ráðleggingar og þær, sem dr. Benjamín Eiríksson gaf 1950. Ég held nefnilega, að þær ráðleggingar, sem sá hálærði hagspekingur, dr. Benjamín Eiríksson, gaf 1950, — og skal ég ekki draga úr hans lærdómi, — hafi orðið til þess, að hann hafi síðan þegjandi horfið úr tölu þeirra hagfræðinga, sem ríkisstj. sérstaklega spyr um ráð. Og ég er hræddur um, að þeir hagfræðingar, sem koma frá Ameríku án þess að þekkja íslenzkan þjóðarbúskap og ætla sér að gefa ríkisstjórnum ráð, hvort það eru vinstri ríkisstjórnir eða hægri ríkisstjórnir, þá held ég, að þeir ættu að hugsa dálítið um, hvernig farið hefur fyrir slíkum mönnum. (Gripið fram í: Má ég segja eitt orð? Hann kom nefnilega líka frá Moskvu.) Já, hann var þar á undan og virtist vera búinn að gleyma öllu, sem hann hafði lært, þegar hann var búinn að vera í Ameríku nokkurt skeið, svo að ég held, að það sé betra, að við hérna á Íslandi, sem liggjum sjálfir miðja vega milli New York og Moskvu, reynum sjálfir að finna út úr hlutunum og ráða þeim til lykta án þess að spyrja hagfræðinga frá Ameríku eða Moskvu um, hvað gera skuli. Ég held, að það hafi gengið bezt fyrir íslenzku þjóðinni, þegar hún hefur gert það.