29.01.1960
Neðri deild: 16. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 375 í B-deild Alþingistíðinda. (215)

39. mál, almannatryggingar

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Í 24. og 25. gr. laga um almannatryggingar frá 1956 er ákveðið, hvernig tekna skuli aflað til lífeyristrygginganna og hlutföllin á milli þátttökuaðilanna, hversu mikið hver þeirra skuli greiða. Þá er líka í þessum greinum ákveðið, að iðgjöldin skuli ákveðin við hver áramót eða fyrir hver áramót. Nú lá það í loftinu um s.l. áramót, að veruleg breyting yrði gerð á almannatryggingalögunum, þótt ekki væri þá til fulls ráðið, hvernig sú breyting mundi verða. Þetta leiddi til þess, að ekki var hægt á þeirri stundu að ákveða iðgjaldið, eins og l. gera ráð fyrir. Það varð þess vegna að ráði, að gefin voru út brbl., nokkurn veginn í samræmi við það, sem gert var 1958, um að frestað yrði ákvörðun iðgjaldanna, þangað til betur og skýrar lægi fyrir, hvernig þessi viðbót við almannatryggingalögin, sem í ráði var að framkvæma, yrði. Það voru þess vegna gefin út hinn 23. des. s.l. brbl., sem fólu í sér heimild handa ráðherra til að fresta ákvörðun framlaga og iðgjalda til almannatrygginganna á árinu 1960, þar til fjárlög fyrir árið 1960 hafa verið sett. Þetta er alveg hliðstætt ákvæði og í lögum frá 30. des. 1958 og af svipuðum rótum runnið.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er einungis borið fram til staðfestingar á þessum brbl., og vænti ég þess, að hv. þdm. geti á þetta frv. fallizt. Ég leyfi mér að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. heilbr.- og félmn.