17.05.1960
Neðri deild: 83. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 31 í C-deild Alþingistíðinda. (2156)

13. mál, áburðarverksmiðja

Frsm. meiri hl. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Þetta mál kom fram nokkuð snemma á þessu þingi og er auk þess gamall kunningi frá fleiri þingum. Málið hefur verið allýtarlega rætt í fjhn., bæði nú og reyndar áður. Það er ekki hægt að loka augunum fyrir því, að það eru uppi nokkuð deildar meiningar um viss meginatriði í löggjöfinni um áburðarverksmiðju, sem varða eignarheimild verksmiðjunnar, sem stafar af því, að það eru nokkuð sérstæð ákvæði í þessum l. um áburðarverksmiðjuna, sem upphaflega í meðferð þingsins var ráðgert að væri eingöngu ríkisfyrirtæki, en á síðari stigum málsins kom inn í frv. sú breyt., sem síðar var samþ. og felst í 13. gr., að heimilt væri að leita eftir þátttöku félaga eða einstaklinga um hlutafjárframlög og verksmiðjan skyldi þá rekin sem hlutafélag. Þessi heimild var svo notuð, og samkv. 13. gr. hefur hún verið rekin sem hlutafélag, en ákvæði 3. gr. voru hins vegar óbreytt um það, að verksmiðjan skyldi vera sjálfseignarstofnun.

Þetta er það, sem valdið hefur nokkrum umr. á fyrri þingum og mismunandi skoðanir og yfirlýsingar komið fram um, bæði frá hæstv. ráðh. fyrr og síðar og þm.

Hv. 3. þm. Reykv. (EOl) hefur lagt til bæði nú og fyrr, að skylt sé að innleysa á nafnverði hlutabréfin í Áburðarverksmiðjunni h/f og með tilteknum hætti, eins og segir í frv. Það er mín skoðun og ég held okkar fleiri í meiri hl. fjhn., að hæpið sé, að slík afgreiðsla á þessu máli mundi leysa það að vissu leyti vandamál, sem hér er um að ræða, því að hér er þó ekki um annað að gera en að innleysa hlutabréfin, ef viðkomandi aðilar vilja. Við höfum fengið umsagnir á s.l. þingi í fjhn. um málið frá félagi hluthafa, Borgarvirki, sem myndað var, samtökum um hlutafjárkaup þarna, og einnig frá Sambandi ísl. samvinnufélaga, sem er stór aðili í málinu og var andstætt efni frv. á s.l. þingi eða mótfallið því, en hinir aðilarnir töldu sig ekki geta eða vildu ekki að svo stöddu segja nokkuð um það, — það stóð í sambandi við stóreignaskattinn og mat á hlutabréfum, sem ekki kemur til núna. En þó hef ég fyrir mitt leyti nokkuð kynnt mér afstöðu hluthafanna og hef ástæðu til þess að ætla eftir þær upplýsingar, sem ég fékk þá einmitt, að það mundi lítið skila þessu máli áleiðis, þó að samþ. væri það frv., sem hér er um að ræða. Hins vegar hef ég bæði fyrr og síðar látið í ljós, að hér væri um atriði að ræða, sem þyrfti að fá úr skorið og mætti ekki vera vafa bundið. Við höfum þess vegna núna sameinazt um það, meiri hl. í fjhn., að leggja til, að þessu máli verði vísað til ríkisstj. til athugunar, m.ö.o., að málið fái afgreiðslu á þessu þingi, þessa afgreiðslu, sem það hefur ekki hlotið áður, heldur komið æ ofan í æ til meðferðar þingsins og verið þar svo óafgreitt að lokum.

Ég tel, að hér sé um það verulega mikið atriði að ræða, að hæstv. ríkisstj. eftir slíka afgreiðslu málsins bæri skylda til þess að taka þetta mál til sérstakrar athugunar og þannig, að fyrir lægi af hennar hálfu nánari athugun á því fyrir næsta Alþ., hvort sem síðar kynni svo að þykja ástæða til, að frekar yrði að gert.

Það er þess vegna að lokum till. okkar í meiri hl. fjhn. sem sagt, að málinu sé vísað til ríkisstj. til athugunar.