17.05.1960
Neðri deild: 83. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 32 í C-deild Alþingistíðinda. (2157)

13. mál, áburðarverksmiðja

Frsm. minni hl. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Það er mín till. og minni hl. fjhn. við þetta mál, að það sé samþ. nú á þessu þingi.

Það er rétt, að við gerum okkur ljóst, hvernig það horfir lagalega við viðvíkjandi þeim einkahluthöfum, sem eru í rekstrarhlutafélaginu Áburðarverksmiðjan h/f, ef þetta frv. mitt yrði samþ.

Nú sem stendur er eingöngu í 13 gr. l. um áburðarverksmiðju minnzt á þann möguleika, að það megi láta reka verksmiðjuna sem hlutafélag. Að öðru leyti er í l. um áburðarverksmiðju í 3. gr. ákveðið, að verksmiðjan sé sjálfseignarstofnun, og í 4. gr., að henni sé stjórnað af 3 manna stjórn, sem kosin sé af Sþ. M.ö.o.: öll lögin að heita má fjalla einvörðungu um verksmiðjuna sem algert ríkisfyrirtæki og ríkiseign. 13. gr. ein fjallar um þann möguleika, að áburðarverksmiðjan verði rekin sem hlutafélag, sem sé það sé myndað sérstakt rekstrarhlutafélag.

Ef nú mitt frv. er samþ., þá er þar með ákveðið, að 13. gr. falli niður. Með því að 13. gr. falli niður, þá er kippt öllum grundvelli undan starfsemi hlutafélagsins, þ.e. rekstrarhlutafélagsins Áburðarverksmiðjan h/f. Hvernig verður þá hin lagalega afstaða einkahluthafanna í því hlutafélagi? Hún verður sú, að það eru þeir, sem verða að sækja til ríkisins um að tryggja sér eitthvað fyrir sín hlutabréf. Það er ekki um það að ræða, að það þurfi að láta fara hér fram einhverja eignaupptöku eða eitthvað annað slíkt skv. stjórnarskránni með tilheyrandi skaðabótum. Það er um að ræða samninga við þessa hluthafa, þegar það verður ekki lengur hlutafélag, sem rekur áburðarverksmiðjuna. Þess vegna, eftir að mitt frv. hefur verið samþ., þá er skapaður grundvöllur fyrir ríkið að geta samið við þessa hluthafa, og með 3. gr. í mínu frv. geri ég ráð fyrir, að það sé gert mjög sæmilega við þá.

Nú vil ég í viðbót við það, sem ég hef flutt hér áður og ég ætla ekki að endurtaka, leyfa mér að upplýsa, hvað gerzt hefur í stjórn áburðarverksmiðjunnar á síðasta vetri, til þess að hv. d. sé alveg ljóst, hvernig þetta mál stendur núna. Það hefur sem sé gerzt það, að núverandi stjórn áburðarverksmiðjunnar hefur brotið lögin um áburðarverksmiðjuna, og þeir reikningar, sem áburðarverksmiðjan hefur nú látið frá sér fara eða stjórn Áburðarverksmiðjunnar h/f, eru þannig, að þeir eru í algerri andstöðu við fyrirmæli laganna, og það væri mjög gott einmitt, ef sá eini þm. og ráðh., sem á sæti í stjórn áburðarverksmiðjunnar, hæstv. landbrh., gerði hv. d. nokkra grein fyrir, hvernig stjórn áburðarverksmiðjunnar ætlar að standa fyrir sínu máli hvað frágang þessara reikninga snertir.

Það er skoðun nokkurra manna, að áburðarverksmiðjan sé eign hlutafélagsins. Hlutafélagið hefur að hlutafé 10 millj kr. Áburðarverksmiðjan hefur á síðasta ári í niðurstöðu sinna rekstrarreikninga — þ.e. 1959 — 48 millj. kr. Af þessum 48 millj. kr. tilfærir áburðarverksmiðjan tæpar 4 millj. kr. sem hreinar tekjur. En í fyrningarafskriftir eru tæpar 15 millj. kr. Hvað þýðir þetta? Samkv. l. um áburðarverksmiðju er greinilega svo fyrir mælt í 10. gr. l., að framlag áburðarverksmiðjunnar til fastra sjóða skal vera til fyrningarsjóðs 2½% af kostnaðarverði húsa og 7½% af kostnaðarverði véla og annarra áhalda. Þetta gerir, að það má afskrifa af kostnaðarverðinu 8 millj. kr. M.ö.o.: það er afskrifað 7 millj. kr. meira en lögin heimila, þegar reikningurinn fyrir síðasta ár er gerður, og það hefur aldrei verið gert áður, það er í fyrsta skipti. M.ö.o.: 7 millj. kr. af því, sem á að koma í hreinar tekjur, er sett yfir á afskriftareikning. Hreinar tekjur hefðu átt að vera 11 millj. kr., ef reikningurinn væri rétt gerður. Það þýðir m.ö.o., — og það væri mjög gott, ef hæstv. landbrh., sem sjálfur er í stjórn verksmiðjunnar, skýrði það dálítið fyrir okkur, — það þýðir, að svo framarlega sem sú skoðun væri rétt, sem nokkrir menn hér á Alþ. stundum hafa haldið fram, að áburðarverksmiðjan væri eign hlutafélagsins, þá er gróði áburðarverksmiðjunnar á síðasta ári, þessa hlutafélags, ef það væri þannig, yfir 100%. Þá eru hreinar tekjur þessa hlutafélags, sem er 10 millj. kr., á síðasta ári 11 millj. kr. Það er m.ö.o. tekjuhlutfall eins og aðeins tíðkast annars, þegar voldug auðfélög græða mest á nýlendum.

Hér í þinginu eru nokkrir menn, sem oft tala um það, að þeir beri hagsmuni bænda fyrir brjósti. Hvað segja nú þessir fulltrúar bændanna, sem telja sig sérstaklega fulltrúa þeirra, um þennan útreikning hjá Áburðarverksmiðjunni h/f, hjá þessu rekstrarfélagi, að áburðarverðið sé sett það hátt, að það sé 11 millj. kr. gróði á áburðarverksmiðjunni á síðasta ári eða hátt upp í fjórðungur allrar umsetningar sá gróði? Skyldi ekki hafa mátt lækka verðið á áburði á síðasta ári, og skyldi ekki verðlækkun á áburði hafa þýtt það, að a.m.k. yrði ekki að greiða eins mikið niður og nú hefur orðið, að mjólk og kjöt þyrfti ekki að hækka eins og það nú hefur gert? M.ö.o.: það var hægt að lækka áburð stórum, svo framarlega sem rétt var reiknað viðvíkjandi áburðarverksmiðjunni.

Það er annar hlutur, sem rétt er að athuga í þessu líka. Það var sagt fyrir rúmu ári, að verkafólk hefði of hátt kaup á Íslandi. Það var sagt, að það þyrfti að lækka það kaup jafnvel með lögum. Verkamenn í áburðarverksmiðjunni eru, að því er talið er, meðal ófaglærðra verkamanna, frekar vel launaðir verkamenn og hafa örugga vinnu. Hvað er nú öll vinnan í áburðarverksmiðjunni? Öll vinnulaun í vaktavinnu og dagvinnu eru á síðasta ári 4.9 millj., það er tæpar 5 millj. kr. af 48 millj. kr. umsetningu. Vextirnir eru nokkurn veginn sama upphæð, 4.7 millj. kr., og gróðinn, eins og ég upplýsti áðan, er 11 millj. kr. En vinnulaunin hjá þessum verkamönnum við áburðarverksmiðjuna voru með lögum lækkuð um upp undir ½ millj., heildarlaun þeirra allra í fyrra. M.ö.o.: það er með lögum skorið niður af því, sem verkamenn eiga að hafa í kaup, ½ millj. kr. hjá áburðarverksmiðjunni, og það er haldið hærra verði á áburði en bændur þyrftu að borga á Íslandi. Það eru sem sé gerðar sérstakar ráðstafanir til þess að lækka kaup hjá verkamönnum og hækka áburðarverð til bænda eða halda því háu, til þess að áburðarverksmiðjan geti af 48 millj. kr. umsetningu skilað 11 millj. kr. í gróða, og síðan eru þessir reikningar falsaðir af stjórn áburðarverksmiðjunnar og l. um áburðarverksmiðju þverbrotin af stjórn áburðarverksmiðjunnar.

Þetta er ástandið, sem við stöndum frammi fyrir í þessum áburðarverksmiðjumálum. Eftir að tilraun hefur verið gerð til þess í upp undir áratug að stela áburðarverksmiðjunni af ríkinu, þá er nú stjórn áburðarverksmiðjunnar tekin upp á því að skila fölsuðum reikningum, sem er lögbrot. Og ég spyr: Finnst hv. Alþ. ekki tími til kominn að baka í taumana? Hvað mundi vera gert, ef einhverjir venjulegir menn skiluðu svona reikningum og gengju svona frá? Og svo er verið að prédika nú yfir verkamönnum og bændum í landinu, að þeir lifi yfir efni fram og þeir eigi að sætta sig við einhverjar efnahagsráðstafanir, sem rýra þeirra kjör, á meðan hér ganga menn lausir, sem sumpart eru að reyna að stela áburðarverksmiðjunni úr eigu ríkisins og sumpart eru að falsa hennar reikninga til þess að gefa falska mynd af hennar afkomu.

Ég held þess vegna, að það sé tími til kominn að athuga þessa hluti. Ég sýndi fram á það, þegar ég flutti þetta mál nú á þessu þingi og síðasta, eftir að hafa flutt það nokkrum sinnum áður, að það hafa gerzt nýir hlutir í viðbót. Ég átti þar við það mat, sem hafði komið fram eða verið gerð tilraun til að gera í sambandi við stóreignaskattinn. Og nú hafa, meðan þetta mál hefur legið hjá fjhn., þessir hlutir gerzt í viðbót, að það er farið að gera reikningana öðruvísi úr garði en lögin mæla fyrir og með því augsýnilega verið að reyna að fela það, hvernig okrað er á bændum og hvernig stolið er af verkamönnum í skjóli laganna. Ég vil mega vonast til þess, að hæstv. landbrh., sem er í stjórn áburðarverksmiðjunnar, sjái ástæðu til þess að standa hér fyrir máli stjórnar áburðarverksmiðjunnar frammi fyrir Alþ.

Ég held þess vegna, að þó að meiri hl. fjhn. hafi tekið ákaflega hófsamlega á þessu máli nú og hv. frsm. meiri hl., sem alltaf hefur sýnt í fjhn. skilning á þessu máli, hv. 5. þm. Reykv., meini það, að þessu máli væri vísað til ríkisstj., til þess að hún athugaði það, þá vil ég taka það fram, að ég hef enga trú á að láta vísa þessu máli til ríkisstj. nú. Ég hef ekkert orð heyrt frá hæstv. ríkisstj., sem bendi til þess, að hún hafi virkilega vilja á að taka þetta mál alvarlegum tökum. Það hrúgast upp hneykslin í sambandi við þetta mál, og ég er hræddur um, að hver frestun á þessu máli núna þýði bara stórtjón. Ég er búinn að sanna það með rökum áður, að það er búið að skapa stórhættu fyrir ríkissjóð í sambandi við öll þau ummæli, sem fram hafa farið, og allan þann drátt, sem orðið hefur í sambandi við þetta mál, og ég vil taka það fram, að það er engin sérstök samningsaðstaða fyrir ríkisstj. að tala við hluthafana, á meðan Alþ. er ekki búið að breyta þessum l. og þar með skapa ríkisstj. aðstöðu til þess að tala við þá. Ef l. verður breytt, eins og ég legg til, þá er það alveg ótvírætt, að þessir hluthafar í Áburðarverksmiðjunni h/f — rekstrarhlutafélaginu, sem nú hafa, eins og hv. frsm. meiri hl. lýsti réttilega, tekið heldur óstinnt upp þetta, þeir hafa, eftir að lögunum væri breytt, enga aðstöðu til þess að segja neitt. Það er búið að kippa grundvellinum undan þeirra rekstrarfélagi, og það er algerlega búið að skera úr um það, að það hefur aldrei frá upphafi komið til neinna mála, að þessi verksmiðja væri þeirra eign, heldur hafa þeir aðeins ásamt ríkinu fengið rétt til þess að leggja fram sérstakt hlutafé til rekstrar áburðarverksmiðjunnar og fá sérstakar prósentur af því hlutafé. Þess vegna, þegar búið væri að breyta lögunum, eins og ég legg til, þá hefðu þessir menn í rauninni ekkert þarna annað að gera en að ganga að samningum við ríkið, nema þeir vilji fara í mál, en þeir hafa mjög lítinn grundvöll til þess að fara í mál, vegna þess að þeir hafa engan lagagrundvöll til þess að standa á. Þeir mundu þess vegna vafalaust sætta sig við þá samninga, sem einmitt er boðið upp á með 3. gr., eins og hún er í mínu frumvarpi, og það er líka tilgangurinn með þeirri grein að gera vel við þá menn, því að e.t.v. hafa þeir að sumu leyti undir fölskum forsendum sett sitt fé þarna inn í, og það er ekki nema rétt að bæta þeim það upp á eðlilegan máta.

Þess vegna held ég, að það sé að öllu leyti rangt að vísa þessu máli til ríkisstj. nú. Það þarf einmitt að samþ. þetta frv., og þar með skapast ríkisstj. aðstaða til þess að semja skv. 3. gr. í mínu frv. við þessa fyrri hluthafa.

Svo sé ég ekki annað en að í þessari afstöðu meiri hl. nú komi fram, þrátt fyrir alla þá hófsemi og sanngirni, sem þeir vilja sýna, nokkur tilhneiging til þess að hopa þarna frá fyrri afstöðu. Allan þann tíma, sem hingað til hefur verið rætt um þetta mál, eftir að ég fyrst flutti það á þingi, hefur Alþfl. tekið alveg ótvíræða afstöðu og staðið með mér í afgreiðslu þessa máls úr fjhn. Stefán Jóh. Stefánsson, sem var forsrh. þeirrar stj., sem samþ. lögin upphaflega, lýsti því yfir sem ótvíræðum skilningi sínum, að ríkið væri tvímælalaust eigandi áburðarverksmiðjunnar og hlutafélagið væri aðeins rekstrarhlutafélag. Ásgeir Ásgeirsson, núverandi forseti Íslands, sem átti sæti fyrir Alþfl. í fjhn. lengi, tók alltaf nákvæmlega sömu afstöðu og stóð algerlega með því, að þetta væri ótvíræð eign ríkisins og hlutafélagið væri aðeins rekstrarhlutafélag. Hæstv. núverandi viðskmrh., sem nokkrum sinnum hefur látið þetta mál til sín taka, þegar ég hef flutt það hér, sagði t.d. á þinginu 1953, þegar þetta mál var rætt, með leyfi hæstv. forseta:

„Þegar áburðarverksmiðjuna hefur borið á góma hér á Alþ. undanfarin ár, hef ég jafnan látið þess getið, að ég tel lagasetningunni um hana vera mjög ábótavant og hér í raun og veru á ferðinni mál, sem algerlega vansæmandi er fyrir Alþ. að taka ekki til gagngerðrar endurskoðunar.“

Þetta var fyrir 10 árum, og öll ræða hæstv. viðskmrh. gekk út á, að það væri algerlega óþolandi að láta þetta haldast svona. Og síðan reiknaði hann út í þessari sömu ræðu, einmitt viðvíkjandi afskriftunum, á hve löngum tíma þessum hluthöfum yrði gefin áburðarverksmiðjan, svo framarlega sem svona yrði haldið áfram. Og nú eru 7 ár af þeim 20 árum, sem hann var að reikna með, þegar liðin og stjórn áburðarverksmiðjunnar þegar farin að reikna þvert á móti lögunum í afskriftunum af áburðarverksmiðjunni, kostnaðarverði hennar.

Hæstv. núv. viðskmrh. sagði, þegar þetta mál var rætt á Alþingi 1955, með leyfi hæstv. forseta, — hann byrjaði ræðu sína þannig:

„Herra forseti. Ég vil með örfáum orðum lýsa yfir stuðningi mínum við þetta frv., eins og ég hef gert áður, þegar það hefur verið borið fram. Hér er ekki um neitt smámál að ræða. Hér er stórmál á ferð. Áburðarverksmiðjan er stærsta iðjufyrirtæki, sem starfar á landinu.“

Og hann rekur þetta síðan og tekur algerlega undir það, hve stórhættulegt sé að láta þetta ástand lengur viðgangast.

Þetta er á árinu 1955, 5 ár síðan. Og þannig hefur það verið allan tímann með þetta mál, alveg frá því að það fyrst hefur komið fram, og einnig þegar þetta mál var rætt allra fyrst, þegar ég kom með það, þá notaði einmitt hæstv. núv. viðskmrh. tækifærið til þess að lýsa mjög ýtarlega yfir sinni afstöðu í þessu og kom þá líka inn á mjög fróðlega útreikninga, sem hann nefndi til, eins og til þess að menn skyldu varast það, í sambandi við Eimskipafélagið.

Ég skal ekki lengja málið með því að fara að rekja þetta allt saman hér núna. En mér lízt ekki á, þegar ástandið hefur verið þannig á undanförnum þingum, að Alþfl. hefur staðið með þessu máli, Sjálfstfl. verið, ja, við skulum segja a.m.k. tvískiptur í því, það hafa alltaf verið margir menn í Sjálfstfl., sem hafa gjarnan viljað sinna þessu máli, ef svo á að fara þannig núna, að þessu máli sé vísað til ríkisstj. í staðinn fyrir að afgreiða málið nú á þinginu. Það sýnir, að þá er eingöngu verið að reyna að drepa málinu á dreif. Þetta er mál, sem Alþ. á að afgreiða alveg ótvírætt. Alþ. á að standa vörð um þetta mikla fyrirtæki, sem nú mun kosta rúmar 300 millj. kr., og það á ekki að láta þetta fyrirtæki ganga úr greipum ríkisins á neinn máta. Það á að slá því föstu, að þetta sé eign ríkisins, og það á síðan að gera sæmilega vel við þá menn, sem hafa e.t.v. haldið, að þeir ættu þetta að einhverju leyti, en hafa aldrei lagt fram fé til annars en að vera að ákaflega litlu leyti þátttakendur í rekstri þessa félags með einum einustu 4 millj. kr., á sama tíma sem ríkið raunverulega hefur orðið að gera allt, sem þurft hefur að gera, til þess að hægt væri að reka þetta fyrirtæki. Og mér sýnist, að reikningar áburðarverksmiðjunnar, sem ég nú hef gert að umtalsefni, geri það enn nauðsynlegra, að nú þegar sé tekið í taumana, að nú þegar sé ekki aðeins slegið föstu, að ríkið sé eigandi þessa fyrirtækis, eins og það hefur verið frá upphafi, tekin af öll tvímæli um það, heldur einnig að á þessu þingi sé kosin ný stjórn í áburðarverksmiðjuna, 5 manna stjórn, eins og ég legg til, af ríkinu, af Alþingi.

Ég vil þess vegna leyfa mér að skora á hv. þdm. að standa vörð um þessa eign ríkisins, að útkljá þetta mál nú á þessu þingi á þann eina veg, sem ber að útkljá það, að slá því föstu, taka af öll tvímæli um það, að áburðarverksmiðjan er eign ríkisins, og stofna ekki þessu stærsta fyrirtæki ríkisins lengur í neina hættu. Mín till. er þess vegna, að frv. verði samþ., en málinu verði ekki enn einu sinni frestað eða drepið á dreif með því að vísa því til ríkisstj.