02.02.1960
Neðri deild: 21. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 376 í B-deild Alþingistíðinda. (217)

39. mál, almannatryggingar

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér um ræðir, er borið fram af hæstv. ríkisstj. til staðfestingar á brbl., sem gefin voru út þann 23. des. s.l., þar sem ráðh. er heimilað að fresta ákvörðun framlaga og iðgjalda til almannatrygginganna á árinu 1960, þar til fjárlög fyrir yfirstandandi ár hafa verið sett.

Heilbr.- og félmn. tók mál þetta fyrir á fundi sínum, jafnskjótt og því hafði verið vísað til hennar, og var n. sammála um, að sjálfsagt og nauðsynlegt væri, að frv. næði fram að ganga efnislega óbreytt, þar sem framlög og iðgjöld til almannatrygginganna verða ekki ákveðin að jafnaði fyrr en fjárlög hafa verið afgreidd hverju sinni. En það hefur orðið að hafa þennan hátt á í hvert skipti, sem slíkur dráttur hefur orðið á afgreiðslu fjárlaga fram yfir áramótin, og var þessi háttur hafður á afgreiðslu málsins árið 1959, en þá hafði verið frestað afgreiðslu fjárlaga fram á árið, eins og kunnugt er. Þá voru sett um þetta lög nr. 74 30. des. 1958. Þessi lög eru hins vegar tímabundin, og eru þau ekki lengur í gildi. Þykir því rétt, að bráðabirgðalagaákvæðinu verði breytt þannig, að það verði við lög nr. 24 29. marz 1956. Eins og kunnugt er, eru þau lög enn í gildi, og lúta þær breytingar, sem lagt hefur verið til að gerðar verði, að því að leiðrétta þetta atriði. N. hefur því orðið sammála um að leggja til, að frv. verði samþ. með þeim breyt., sem birtar eru á þskj. 74, að 1. mgr. 1. gr. falli niður og fyrirsögn frv. breytist í samræmi við það.

Væntir n., að hæstv. ráðh. felli sig við þessa afgreiðslu málsins, en um hana hefur n. haft samráð við skrifstofustjóra Alþingis. N. leggur því til, að frv. verði samþ. með eftirfarandi breytingum:

1. Við 1. gr., að 1. málsgr. hennar falli niður.

2. Að fyrirsögn frv. orðist svo: Frv. til laga um breyt. á l. nr. 24 29. marz 1956, um almannatryggingar.