17.05.1960
Neðri deild: 83. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 52 í C-deild Alþingistíðinda. (2172)

15. mál, jarðræktar- og húsagerðarsamþykktir í sveitum

Frsm. meiri hl. (Jón Pálmason):

Herra forseti. Þetta frv. hefur verið til athugunar í hv. landbn., en n. hefur ekki orðið sammála um afgreiðslu þess.

Meiri hluti n. leggur til, eins og fram er tekið í nál. hans á þskj. 402, að þessu máli sé vísað til ríkisstj., og byggir það m.a. á því, að hæstv. landbrh. hefur skipað mþn. til þess að athuga þessi lög fyrir næsta reglulegt Alþingi. Og samkvæmt því skipunarbréfi, sem hann hefur gefið út til nefndarmanna, er þeirri nefnd ætlað að endurskoða ákvæði laga nr. 7 12. jan. 1945, um jarðræktar- og húsagerðarsamþykktir í sveitum, sbr. og lög nr. 29/1948, og rannsaka fjárþörf ræktunarsambandanna og vélakost þeirra og annað í því sambandi og gera till. um, á hvern hátt ræktunarsamböndin geti með beztu móti haldið áfram starfsemi sinni og framkvæmdum.

Lögin um jarðræktar- og húsagerðarsamþykktir í sveitum frá 1945 hafa reynzt einhver þýðingarmestu lög fyrir landbúnaðinn, sem nokkurn tíma hafa verið samþykkt hér á Alþingi. Þau voru samþykkt á valdatíma nýsköpunarstjórnarinnar, og átti ég sem þáv. formaður landbn. Nd. nokkurn þátt í því að koma þeim lögum í gegnum Alþingi. Á grundvelli þessara laga hefur á síðustu 15 árum verið ræktað hér á landi, að ég hygg, meira en á öllum öldum frá Íslands byggð áður. Eins og lögin voru upphaflega gerð, var til þess ætlazt, að varið yrði 3 millj. til þess að aðstoða við kaup á stórvirkum vélum og koma gangi þeirra áfram. Síðan hefur verið bætt við miklum upphæðum af hálfu ríkisins, eins og fram er tekið í grg. með þessu frv., svo að það er í árslok 1958 búið að veita hátt á 13. millj. í þessu skyni. Nú er, eins og gefur að skilja, enginn maður í hv. landbn. með því hugarfari að vilja leggja stein í götu ræktunarframkvæmda í landinu. Og þó að þessi lög væru alveg óbreytt frá því, sem þau eru, þá er engin hindrun á því, að það megi veita mikið fé til þessara framkvæmda framvegis. En við, sem erum í meiri hl. landbn, hvað þetta snertir, álítum, að það varði litlu, þó að það dragist fram á næsta þing í haust að ákveða um það, hvort þessum lögum skuli breytt eða ekki, og þess vegna teljum við rétt. á þessu stígi þessa máls að vísa því til hæstv. ríkisstj. og höfum, eins og ég gat um í upphafi, sannanir fyrir því, að það hefur verið gerður undirbúningur til þess, að málið verði rækilega athugað fyrir næsta þing.