17.05.1960
Neðri deild: 83. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 55 í C-deild Alþingistíðinda. (2174)

15. mál, jarðræktar- og húsagerðarsamþykktir í sveitum

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það er ekki ástæða til þess að fara mörgum orðum um þetta mál fram yfir það, sem gert hefur verið af hálfu meiri hl. og hálfu minni hl. Það er ekki eins mikið, sem ber þar á milli, eins og sýnist í fyrstu. Ég geri ráð fyrir því, að báðir þessir hv. frsm. hafi jafnmikinn áhuga fyrir því, að ræktun í landinu geti haldið áfram og ræktunarsamböndin verði ekki eftirleiðis óvirk. Allir eru sammála um gildi þessara laga, eins og segir í frv. þeirra framsóknarmanna, að með þessum lögum, nr. 7 12. jan. 1945, um jarðræktar- og húsagerðarsamþykktir í sveitum, var lögð undirstaða að þeirri ræktun og þeim framförum, sem orðið hafa í landbúnaðinum. Og það eru reyndar önnur lög, sem má geta alveg jafnhliða þessum lögum. Það eru lögin um landnám, nýbyggðir og endurbyggingar í sveitum. En þau lög — minnir mig — voru staðfest á árinu 1946. Menn geta deilt um það, hverjum þetta sé að þakka. Ekki vissi ég það eða mundi, að hv. fyrrv. 2. þm. Skagf. (JS) hafði verið frsm. við 2. umr. málsins, en það finnst mér ósköp eðlilegt og trúlegt, jafnmikinn áhuga og hann hefur alltaf haft fyrir ræktunarmálum í þessu landi, eitthvað svipað og núv. hv. 2. þm. Norðurl. v. (JPálm). En hinu má ekki gleyma, að þáv. landbrh., Pétur Magnússon, studdi þessi mál bæði með ráðum og dáð og án hans forgöngu og án hans vilja hefðu þessi mál ekki komizt í gegnum Alþingi.

En það, sem nú er um að ræða, er það, hvernig ræktunarsamböndin geta haldið áfram ræktunarframkvæmdum eftir þá miklu dýrtíð, sem orðið hefur í landinu. Fyrningarsjóðir ræktunarsambandanna, sem áttu upphaflega að nægja til þess að endurnýja vélarnar, eru, eins og tekið hefur verið fram, ekki nema partur af því verði, sem vélarnar kosta nú. Ég hef þess vegna gert mér grein fyrir því, að ræktunarsamböndin eru ekki einfær um að endurnýja vélakostinn. Og eins og það þurfti á árunum 1945–46 að koma þar á móti og gera þeim mögulegt að eignast vélarnar, svo er það eins nauðsynlegt í dag. Og ég hygg, að þeir, sem til þekkja, geri sér ljóst, að þótt stórum áföngum hafi verið náð í ræktunarmálum þjóðarinnar, þá höfum við ekki efni á því að nema staðar. Við þurfum að halda ræktuninni áfram, ef landið á að vera þess umkomið að veita þjóðinni landbúnaðarvörur að nægilega miklu leyti til neyzlu. Er þá ekki sízt um það að ræða að hafa nægilega mjólk og mjólkurafurðir handa hinum ört vaxandi neytendahópi í kaupstöðum landsins.

Það er eðlileg meðferð á þessu máli að skipa mþn., sem lýkur störfum fyrir næsta haust og leggur á ráðin um það, hvernig við þessum vanda skuli snúizt. Og ég hygg, að með því að fara þannig að, fáum við betri lausn á málinu heldur en annars hefði orðið.

Þess má geta, að formaður þessarar nefndar er Jónas Pétursson alþm., sem er nákunnugur ræktunarmálunum og hefur sérstakan áhuga fyrir því, að þessi mál leysist á hinn farsælasta hátt. Með honum er í n. Haraldur Árnason, vélaráðunautur Búnaðarfélags Íslands, sem einnig er þaulkunnugur þessum málum. Ég er þess vegna ekki í nokkrum vafa um það, að þeir þrír menn, sem í n. hafa verið skipaðir, munu ljúka störfum og þeir munu vinna verkið vel og það verði hægara fyrir þá menn, sem ekki hafa kynnt sér þessi mál til hlítar, að setja sig inn í málin á eftir og þeir munu frekar sannfærast um hina réttmætu þörf í þessum málum. Ég er þess vegna, um leið og ég viðurkenni strax í dag þörf ræktunarsambandanna, ánægður með þá afgreiðslu málsins, að málinu verði vísað til ríkisstj. Málið er í dag í höndum mþn., sem undirbýr það fyrir næsta haust, og ég geri mér vonir um þann árangur af þessu starfi, að þeir hv. alþm., sem standa að frv. á þskj. 15, muni einnig verða ánægðir með þessa afgreiðslu.