27.11.1959
Neðri deild: 4. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 57 í C-deild Alþingistíðinda. (2179)

17. mál, skemmtanaskattsviðauki

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Með þessu frv. er lagt til, að skemmtanaskattur verði á næsta ári og framvegis innheimtur með sama hætti og jafnhár og nú er gert. Í frv. felast aðeins ákvæði um áframhald sömu skattheimtu og tíðkazt hefur undanfarna áratugi á þessu sviði.

Lög um skemmtanaskatt voru fyrst samþ. 1927, en álag á skemmtanaskatt var fyrst lögtekið 1933 og hefur síðan verið samþ. árlega. Nú þykir rétt að hætta því að gera ráð fyrir árlegri framlengingu viðaukans við skemmtanaskattinn, þar eð hér er orðið um að ræða fastan tekjustofn, sem ætlað er ákveðið verkefni, og heppilegra að veita ríkisstj, heimild til þess að innheimta sama álag og nú er innheimt ótímabundið. Vona ég, að hv. d. fallist á, að það séu eðlilegri vinnubrögð að veita slíka ótímabundna heimild en þurfa að fjalla á ári hverju um mál eins og þetta.

Að lokinni umr. leyfi ég mér að óska þess, að frv. verði vísað til hv. fjhn.