07.12.1959
Neðri deild: 15. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 92 í C-deild Alþingistíðinda. (2194)

37. mál, verð landbúnaðarafurða

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég álít, að heppilegast væri, ef hægt væri að ná samkomulagi um það hér í hv. þd. að láta þetta mál fá fullnaðarafgreiðslu nú, þannig að það væri hægt að fela hæstv. ríkisstj. að undirbúa löggjöf í þessu máli, sem væri í beztu samræmi við hagsmuni neytenda og bænda og í beztu samræmi við þann hátt, sem lengst af hefur verið á hafður um þessi mál síðustu sextán ár.

Það eru nú orðin, eins og ég sagði áðan, um 16 ár síðan samkomulag var gert hér á Alþingi, einmitt í fjhn. þessarar hv. d., og eigum við tveir enn þá sæti í þeirri nefnd, sem stóðum að því samkomulagi þá, hv. 1. þm. Norðurl. v. og ég. Það var á þá leið, að fulltrúar launþeganna í landinu annars vegar — það voru þá fulltrúar Alþýðusambandsins og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja — og fulltrúar Búnaðarfélagsins hins vegar, — Stéttarsambandið var þá ekki til, — skyldu reyna að koma sér saman um þann grundvöll, sem verðlag landbúnaðarvaranna væri reiknað út eftir, og svo fremi sem þessir fulltrúar kæmu sér saman, þá skyldi þeirra samkomulag gilda sem lög, — ef fulltrúar þessara vinnandi stétta, sem eru yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar, næðu samkomulagi sín á milli, þá skyldi það samkomulag gilda sem lög.

Þannig var upphafið að þessu merkilega sex manna nefndar samkomulagi, sem alveg tvímælalaust hefur orðið til þess annars vegar að tryggja bændastéttina og hennar hagsmuni á ýmsan hátt og hins vegar að samræma kjör verkamanna og annarra launþega í bæjunum og bændastéttarinnar og hinna vinnandi stétta í sveitunum hins vegar.

Það er engum efa bundið, að það er rík nauðsyn fyrir þjóðina, að svona samstarf geti haldið áfram og að þessi grundvöllur, sem þá var lagður, sé ekki eyðilagður. Það, sem hins vegar leiddi til þess nú á þessu ári, að slík deila varð, að grundvellinum var sagt upp og samstarfinu hætt, var það, að tveir verðmyndunarþættir voru teknir þarna inn í og síðan staðfest með dómi, — eins og dómararnir skildu lögin, skyldu þeir vera þar, þeir verðmyndunarþættir, sem neytendasamtökin, sem sé verkalýðs- og launþegasamtökin, allan tímann hafa gert athugasemdir við.

Það eru þrír þættir, sem raunverulega mynda verðlag landbúnaðarafurðanna. Það er í fyrsta lagi það verð, sem bóndinn á að fá fyrir sínar vörur, eins og hann skilar þeim til vinnslustöðvarinnar, hvort heldur það er til mjólkursamlagsins eða þangað, sem mjólkursamlagið sækir mjólkina, eða til sláturhússins, þegar um sauðfjárafurðirnar er að ræða. Þetta er fyrsti og alveg afmarkaði verðmyndunarþátturinn. Annar þátturinn er sjálf dreifingin, kostnaðurinn við vinnsluna og dreifingin, sem er annars eðlis og öðruvísi en hinn þátturinn, sem er bein vinna bóndans. Og þriðji þátturinn, sem hefur svo verið settur inn í þetta eftir á, er, að það hafa verið lagðar á vöruna innanlands í sambandi við útsöluverðið þar vissar uppbætur í sambandi við þann hluta landbúnaðarafurða, sem út er fluttur. Fulltrúar launþegasamtakanna, sem hafa þarna verið fulltrúar neytendanna, hafa allan tímann gert athugasemdir við þetta, við það sjálfræði, sem framleiðsluráð hefur tekið sér til þess að ákveða og reikna dreifingarkostnaðinn og vinnslukostnaðinn, og við það sjálfræði, sem að síðustu var staðfest í dómi, að þarna mætti leggja að einhverju leyti á kostnað af útflutningsuppbótum, og þetta er það, sem launþegasamtökin hafa ekki viljað una við og geta ekki unað við.

M.ö.o.: það, sem við þurfum að gera hér á Alþingi, er að skapa grundvöll, sem hægt sé að starfa áfram á, og það eigum við að gera nú þegar. Við fórum fram á það í sumar, Alþýðubandalagið, að það væri kallað saman þing til þess að afgreiða þetta mál, til þess að finna lausn á þessu máli, og það er enn þá okkar skoðun, að það eigi að finna tafarlausa lausn á þessum málum, — og það er hægt að finna hana nú þegar, — og fela hæstv. ríkisstj. að undirbúa frv. í þeim anda. Ég vil þess vegna leggja til, að þetta mál verði þannig afgreitt nú, að þessu samstarfi, þessu þjóðnýta samstarfi, sem þarna hefur verið á milli, verði komið á slíkan öruggan grundvöll, að það verði ekki lengur um það deilt, hvaða verðmyndunarþættir í þessu heyri undir hvern aðila, og aðgreina þar , með í þeirri breytingu, sem þarf að gera á lögunum um framleiðsluráð, þessa þrjá verðmyndunarþætti. Ég leyfi mér þess vegna að leggja til, að þetta mál verði afgreitt nú með rökstuddri dagskrá í þessu máli, og ætla að leyfa mér — með leyfi hæstv. forseta — að lesa hana upp, þar sem ég get því miður ekki lagt hana fram prentaða, en hún hljóðar á þessa leið, sem sé rökstudd dagskrá í málinu: frv. til laga um verð landbúnaðarafurða:

„Þar sem deildin álítur óhjákvæmilegt, að ríkisstj. undirbúi nú þegar og leggi fyrir Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögunum um framleiðsluráð, er:

1) tryggi, að bændur fái greitt við afhendingu vara sinna verð, er miðist við, að tekjur þeirra séu sambærilegar við tekjur annarra vinnandi stétta fyrir sambærilega vinnul. — og

2) ákveði, að þeim, er annast dreifingu og vinnslu landbúnaðarvaranna, sé greidd ákveðin upphæð á einingu í vinnslu- og dreifingarkostnað, og sé sú upphæð ákveðin af verðlagseftirliti, er tryggi, að milliliðakostnaður fari ekki fram úr því, sem hæfilegt er, — og

3) tryggi enn fremur, að kostnaður við hugsanlegar verðlagsuppbætur á útfluttar landbúnaðarafurðir verði ekki lagður ofan á verð þeirra landbúnaðarvara, sem seldar eru á innanlandsmarkaði,

tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“

Ef þessi rökstudda dagskrá væri samþykkt, þá er þar með hæstv. ríkisstj, gefin fyrirmæli um lausn þessa máls og hvernig undirbúa skuli, þar til Alþingi kemur saman á ný eftir frestunina, breytingu á lögunum um framleiðsluráð. Væri þessi rökstudda dagskrá samþykkt og lagafrv. til breytinga á lögunum um framleiðsluráð útbúið í samræmi við þessi fyrirmæli, þá stendur óbreytt allt annað, sem nú er í lögunum, þ. á m. það samkomulag, sem gera þarf á milli fulltrúa launþeganna annars vegar og fulltrúa bændanna hins vegar. En þá eru þessir verðmyndunarþættir algerlega aðgreindir, og þá yrði viðvíkjandi deilunni um það verð, sem greiða skuli fyrir þann tíma, sem brbl. hafa staðið, þá kæmi það náttúrlega af sjálfu sér, að bændur fengju það verð, sem samkomulag einmitt yrði um samkvæmt svona grundvelli.

Ég held, að þetta væri að öllu leyti gæfusamlegasta lausnin á þessu máli. Yfirgnæfandi meiri hluti Alþingis hefur allan tímann verið sammála um að halda þessum grundvelli, og það hefur þess vegna verið ákaflega slæmt, að slíkar deilur skuli hafa orðið um þennan grundvöll, að hann skuli hafa brostið. Ég skal ekki, af því að ég heyri á öllum, að menn vilja fara helzt að flýta sem mest umræðu um þetta, fara út í þau átök að öðru leyti, aðeins lýsa því yfir, að ég álít, að neytendur, fulltrúar launþeganna, hafi ekki átt neins annars úrkost en gera það, sem þeir gerðu. Það var nauðsynlegt að fá þessi mál sett á slíkan grundvöll, að þarna yrðu ekki neinar deilur um. Ég held þess vegna, að einmitt til þess að tryggja sem fyrst samstarf launþegasamtakanna og bænda í þessu máli væri heppilegast áð afgreiða þetta mál nú þegar. Eftir hverju er raunverulega að bíða í þessu?

Ég vil þess vegna leyfa mér að láta þá von í ljós, að meiri hluti hv. deildar geti fallizt á þessa afgreiðslu málsins, að hún væri þá um leið fullnaðarafgreiðsla á því, og ég álít stefnuna, sem taka beri í þessu, þannig fullmarkaða, þannig að væri svona dagskrá felld, þá væri ekki um annað að ræða en greiða atkv. á móti svona brbl. Ég held, að það væri hins vegar aðeins töf fyrir Alþingi, það væri langeðlilegast, — við höfum heyrt, hvað hæstv. ríkisstj. þarf mikið tóm til þess að hugsa málin, — það væri langeðlilegast, að hún fengi það tóm núna og að Alþingi gæfi henni sín alveg eindregnu, ákveðnu fyrirmæli um, hvernig þetta vandamál bæri að leysa.

Ég leyfi mér svo að leggja þessa dagskrá fram til hæstv. forseta.