07.12.1959
Neðri deild: 15. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 97 í C-deild Alþingistíðinda. (2198)

37. mál, verð landbúnaðarafurða

Eysteinn Jónsson:

Hv. 3. þm. Reykv. hefur flutt hér dagskrártillögu. Ég skal ekki fara langt út í að ræða þessi mál, en ég vil aðeins taka það fram, að efni þessarar dagskrártill. er þannig í þýðingarmiklum atriðum, að ég get ekki mælt með henni og hlýt að mæla í móti henni, og afstaða Framsfl. til hennar er sú, að hann getur alls ekki á hana fallizt. Þá vil ég einnig í þessu sambandi benda á, að stéttarsamtök bænda hafa ekki óskað eftir endurskoðun þessarar löggjafar, sem þar er til vísað, en Framsfl. álítur, að ósk um endurskoðun, ef til kemur, eigi að koma fram í samráði við þessi samtök, það sé alveg eðlilegur háttur. Loks vil ég taka það fram í þessu sambandi, að Framsfl. treystir alls ekki hæstv. ríkisstj. til þess að annast endurskoðun löggjafarinnar um þessi málefni.

Þá vil ég aðeins minna á, að hæstv. landbrh. hefur ekki viljað svara spurningum mínum jákvætt, en þær voru tvær: Í fyrsta lagi, hvort það kæmi til mála, að hann eða ríkisstj. framlengdi bráðabirgðalögin með öðrum brbl., eftir að þing væri farið heim. Ég vil vekja athygli á því, að þessu hefur hæstv. ráðherra ekki viljað lofa, að þetta komi ekki til mála. Enn fremur óskaði ég þess, að hann lýsti því yfir, að hann eða stjórnin mundi ekki gefa út brbl. um afurðamálin, og því hefur hann ekki heldur viljað lofa.

Þetta er nauðsynlegt fyrir menn að hafa í huga við atkvæðagreiðsluna.