06.04.1960
Neðri deild: 62. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 109 í C-deild Alþingistíðinda. (2205)

115. mál, áburðarverksmiðja

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég skil það nú svo, að allir þessir 3 hv. ræðumenn, sem hér hafa talað, séu ýmist að nokkru leyti eða að öllu leyti með þessu frv., sem hér er til umr., og er ekki nema gott til þess að vita.

Hv. 7. þm. Reykv. (ÞÞ) talar um, að það þurfi að vísa málinu til umsagnar bændasamtakanna. Ekki skal ég hafa á móti því, ef það þarf ekki að vera til að tefja fyrir málinu og það ætti ekki að þurfa að tefja málið, þótt það væri gert. Hins vegar er ég sannfærður um það, að bændur, ef þeir eru spurðir, þá fylgja þeir þessu máli. Og hvers vegna skyldu þeir ekki gera það? Er ekki eina tækifærið til þess að fá upp fullkomna rannsóknarstofnun fyrir landbúnaðinn að samþ. þetta frv., og er ekki eina leiðin til þess að draga úr kostnaði við verzlun áburðar að samþ. þetta frv.?

Ég sagði það í fyrri ræðu minni, að ég teldi, að áburðareinkasalan út af fyrir sig hefði verið rekin tiltölulega ódýrt, og það má þess vegna ekki skilja svo, að þetta frv. sé nokkur ádeila á þá menn, sem stjórnað hafa áburðareinkasölunni. En þetta form eitt út af fyrir sig að hafa áburðareinkasölu, sem annast innflutning á áburðinum, og áburðarverksmiðjuna, sem framleiðir áburðinn og annast þá sölu á sinni eigin framleiðslu, það hlýtur að verða til þess, að afgreiðsla og dreifing áburðarins verður dýrari en hún þarf að vera.

Hv. 7. þm. Reykv. minntist á dreifingarkostnaðinn áðan, minntist á, að þetta mundi ekki verða til mikils sparnaðar. En ég vil minna á það, að eftir að áburðarverksmiðjan hefur tekið þetta að sér, mun innflutti áburðurinn verða fluttur upp í Gufunes. Þar er bryggja fyrir hendi. Þar verður aðstaðan gerð ódýrari til uppskipunar en hér í Reykjavík. Þar verður sköpuð aðstaða með nýrri geymslu fyrir áburðinn, til þess að afgreiðslan geti orðið hentugri en hér í Reykjavík, og það getur til þess komið, að ekki verði langt að bíða, að áburðurinn verði fluttur laus til landsins og þá skipað upp með eðlilegum hætti á þann hátt, ódýrari hætti en nú er. Og dreifing áburðarins verður eftir fá ár komin á allt annað stig en núna. Það eru ekki mörg ár síðan olía og benzín var flutt í tunnum út um land, og ég hygg, að það verði eftir fá ár talið jafnóskynsamlegt að flytja áburðinn á þennan hátt, eins og gert hefur verið, í pokum, eins og það þætti nú að fara að flytja benzín og olíu í tunnum. Ég held, að áburðinum verði innan skamms dreift með þar til gerðum tankbílum út um land til bænda, og þess vegna er það, að það þarf að skapa aðstöðu til þess, að þetta megi verða, og það er því aðeins mögulegt, að afgreiðsla alls áburðarins fari fram á einum stað. Það er þess vegna alveg víst, að þó að áburðareinkasölunni hafi eftir atvikum verið stjórnað vel eftir því formi, sem henni var skapað, þá leiðir þessi sameining ekki aðeins til stórkostlegs sparnaðar, heldur til stóraukinna þæginda og verður til þess, að áburðurinn, þegar hann kemur til bændanna, verður ódýrari en með gamla laginu.

Ég tel ekki ástæðu til að orðlengja meira um það, sem hv. 7. þm. Reykv. sagði hér áðan. Af afstöðu hans má marka, að hann verði þessu frv. fylgjandi, eftir að hann hefur fengið enn gleggri rök fyrir þessu máli en enn hafa komið fram, en þau eru vitanlega mörg ótalin, sem mætti nefna. Ég veit líka, að hann er það framsýnn — eða ég vona það, að hann vilji ekki hjakka í sama farinu og að hann vilji koma okkar áburðarframleiðslu og dreifingu áburðar á það stig, sem bezt má verða fyrir bændur og ódýrast. Og ég þykist mega fullyrða það, enda þótt hann nefndi það ekki í sinni ræðu áðan, að hann verði því fylgjandi, að eftirleiðis þurfi bændur ekki að bera áburðinn á jörðina blindandi, að þeir geti fengið vitneskju og leiðbeiningu um það, hvaða áburðartegund hentar bezt fyrir þá jörð, sem þeir ætla að bera á, en það er ekki hægt nema að undangenginni rannsókn. Og þessari rannsóknarstarfsemi er ekki hægt að koma heim á stuttum tíma nema með því eina móti að skapa þeim mönnum, sem þekkingu hafa á slíkri starfsemi, aðstöðu til þess að vinna að þessum rannsóknum.

Hv. 3. þm. Reykv. (EOl) talaði um frv. það, sem liggur fyrir Alþ, og hann hefur flutt um breyt. á l. um áburðarverksmiðjuna, og það er kunnugt, að þetta frv. liggur hér í hv. Alþ. óafgreitt. En ég vil aðeins segja það, að þetta frv. og hans frv. er allt annað. Jafnvel þótt hans frv. verði samþ., þá á það frv., sem hér um ræðir, jafnan rétt á sér, því að áburðarverksmiðjan, sem héti Áburðarverksmiðja ríkisins, ef hans frv. verður samþ., en nú Áburðarverksmiðjan h/f, mundi geta tekið að sér þessa þjónustu, í hvoru forminu sem lögin verða. Hv. 3. þm. Reykv. getur þess vegna með góðri samvizku samþ. þetta frv. og haldið áfram viðleitni sinni um það að fá l. um áburðarverksmiðjuna breytt í það form, sem hann telur ákjósanlegast.

Um það, hverjir eru eigendur áburðarverksmiðjunnar, þá hefur hann sjálfur upplýst, að ríkið eigi meiri hlutann eða 6/10 og aðrir aðilar 4/10.

Það, hvort frv. fer í fjhn. eða landbn., skiptir ekki neinu máli frá mínu sjónarmiði. Þetta er hreint landbúnaðarmál, og þess vegna lagði ég til, að málinu væri vísað þangað. En ef hæstv. forseta og hv. þdm. finnst fara betur á því, að málið fari til fjhn., þá skal ég ekki hafa á móti því.

Það var eitt, sem kom fram í ræðu hv. 3. þm. Reykv. hér áðan, sem mér fannst nokkuð undarlegt, og það var það, að hann telur ekki þörf á því, að afskriftir ríkisfyrirtækja miðist við endurnýjunarverð. Þegar um svona stór ríkisfyrirtæki er að ræða eins og áburðarverksmiðjuna, þá er vitanlega höfuðnauðsyn, að rekstrinum sé þannig hagað, að fyrirtækin geti endurnýjað sig og geti byggt sig upp, því að annars er ekki nema um tvennt að ræða, að fyrirtækin hrynji saman og hætti störfum eða þjóðfélagið verði í annað sinn að leita lána erlendis til þess að byggja upp sama fyrirtækið. Og það er áreiðanlega ekki æskilegt, ef fyrir okkur vakir að byggja upp blómlegt atvinnulíf á Íslandi, og ég hef vænzt þess, að hv. 3. þm. Reykv. vildi vera í hópi þeirra alþm., sem vilja gera það.

Mér fannst einn galli á ræðu hv. þm., þegar hann var að hafa hér stóryrði uppi um svindl og stórþjófnað í sambandi við Áburðarverksmiðjuna h/f. Ég tel ástæðu til vegna þessara ummæla hv. þm. að geta þess, að þeir, sem lögðu fjármuni sína í Áburðarverksmiðjuna h/f, gerðu það ekki af hagnaðarvon, þeir gerðu það til þess að ljá góðu máli lið. Það vantaði fé til þess að koma fyrirtækinu upp, og það er áreiðanlega mikils virði, þegar einstaklingar, sem fjárráð hafa, vilja leggja fjármuni sína í jafngott fyrirtæki og áburðarverksmiðjuna. Og vegna byrjunarörðugleika hjá áburðarverksmiðjunni hafa hluthafar orðið að sætta sig við það að fá engan arð af hlutabréfum sínum árum saman, og þeir hafa ekki möglað, vegna þess að þeir gerðu ekki ráð fyrir, að það væri hagnaðar von af því að leggja féð fram, heldur var á bak við þetta hugsjón og áhugi fyrir því að styðja gott málefni. Auk þess er tekið fram í lögunum, að hversu vel sem reksturinn gengur, þá má aldrei borga meira en 6% af hlutafé, aldrei meira en 6% af nafnverði bréfanna. Það er þess vegna útilokað, að einstaklingar geti hagnazt á fyrirtækinu. En það eru sem betur fer margir einstaklingar, sem telja, að það sé nægilegt endurgjald fyrir að hafa lagt féð fram að vita, að það er þjóðfélagið, landbúnaðurinn og þjóðfélagið í heild, sem hefur hagnazt á því, að þessir peningar voru lagðir í fyrirtækið. Sá hugsunarháttur er vissulega mikils virði, og sá hugsunarháttur á ekki skilið þau ummæli, sem hv. 3. þm. Reykv. viðhafði hér áðan. Ég harma það, að hv. 3. þm. Reykv. skuli hér í dag og reyndar hafa áður viðhaft slík ummæli um menn, sem hafa sýnt góðhug og stórhug og sýnt það, að þeir hafa viljað ljá góðu máli lið. Ég held, að við þurfum bæði í nútíð og framtíð á því að halda, að sá hugsunarháttur megi þróast hjá okkur og þeir menn, sem yfir fjármunum ráða, leggi fjármunina fram í góð fyrirtæki, enda þótt þeir hafi ekki persónulega hagnaðarvon af því.

Ég tel ekki ástæðu til að fjölyrða meira um málið að sinni. Ég heyri það og finn, að það hefur mikinn stuðning í hv. d. og hv. 3. þm. Reykv. vill þrátt fyrir allt styðja a.m.k. einn kafla frv., viðurkennir það, að sú vísindastarfsemi, sem á að fara að efla, sé nauðsynleg. En það er bara ótætis hlutafélagið, hann vill koma því fyrir kattarnef og telur, að áburðarverksmiðjan geti ekki þjónað hlutverki sínu nema verða ríkisfyrirtæki. En með þessu frv. er ekkert um það sagt, hvort áburðarverksmiðjan á í framtíðinni að vera ríkisfyrirtæki eða hlutafélag, þetta frv. spillir ekki fyrir því, að hv. 3. þm. Reykv. geti áfram barizt fyrir þeirri hugsjón sinni að gera áburðarverksmiðjuna að ríkisfyrirtæki, hvenær sem hann fær nægilega mikið fylgi hér í hv. Alþ. til þess.