06.04.1960
Neðri deild: 62. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 115 í C-deild Alþingistíðinda. (2207)

115. mál, áburðarverksmiðja

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það hafa orðið nokkrar umr. um þetta mál hér, sem ekki er nema eðlilegt, og langaði mig til þess að gera nokkrar aths. við þau ummæli, sem hér hafa verið höfð.

Hv. 3. þm. Austf. (EinS) ræddi hér nokkuð um, að það bæri að selja bændum áburðarverksmiðjuna, þeir ættu að eiga hana og þeir ættu að reka hana sem hlutafélag. Ég veit ekki, hvort þetta er alveg réttur hugsunarháttur, sem þarna felst hjá honum, þótt bændur kaupi áburðinn, þá ættu þeir þess vegna endilega að eiga þá verksmiðju, sem framleiddi hann. Við skulum segja t.d., að hv. 3. þm. Austf. framleiðir hraðfrystan fisk, og aldrei hef ég heyrt hann draga þær afleiðingar af því, að þeir, sem borða hraðfrysta fiskinn, ættu endilega að eiga hraðfrystistöðina. Ég held þess vegna, að þótt vissulega hafi bændur ýmissa hagsmuna að gæta um áburðarframleiðslu, þá komi það ekkert af sjálfu sér og það sé jafnvel hægt að gæta þeirra hagsmuna sem neytenda betur með því, að ríkið eigi slíka áburðarverksmiðju heldur en þeir sjálfir yrðu hluthafar í henni. Ég held, að hann hafi minnzt á það, annars heyrði ég ekki alveg alla ræðuna, að hann áliti sanngjarnt að selja bændum þetta á sannvirði, ekki færi nú ríkið neitt að okra á þessu, ef það ætti að fara að selja bændum þetta. Ég býst nú satt að segja við því, að hv. 3. þm. Austf. mundi álíta eðlilegt að selja þetta á sannvirði, og það er fljótt verið að reikna sannvirðið út, sérstaklega samkvæmt því frv., sem nú liggur fyrir. Það hlýtur náttúrlega að vera endurnýjunarverð, a.m.k. í því ástandi, sem hún núna er. Það mundi þýða, að bændur mundu yfirtaka þau lán, skulum við segja, sem þarna eru á, og leggja fram annan kostnað, sem þarna hefði verið í lagður, og jafnvel einhver uppbót til þeirra, sem reiknuðust eiga hana. Ég veit ekki, hvort íslenzkum bændum væri gerður nokkur greiði með því að fara að selja þeim áburðarverksmiðjuna á eitthvað milli 200 og 300 millj. kr., sem sagt ef þeir ættu að fara að leggja þetta fram sem hlutafé, — ætli það yrði þá ekki svona upp undir 50 þús. kr. á hvern bónda? Hæstv. landbrh. hefur stundum lýst því, að hag bænda hafi verið illa komið, þegar hann tók við, og ekki hefur hann batnað síðan. Ég veit því ekki, hvort þeir væru svo sérstaklega aflögufærir um það að fara að kaupa fyrirtæki upp á 200–300 millj. og hvort það væri ekki betra að gera þeim þá heldur mögulegt að leggja slíkt í að kaupa á sannvirði ýmsar jarðræktarvélar og annað slíkt. Það var álitið núna við meðferð fjárl., að það væri nauðsynlegt jafnvel að reyna að styrkja þá alveg sérstaklega til þess að kaupa jarðræktarvélar, og ég held þess vegna, að bændum væri enginn greiði gerður með því að ætla að fara að selja þeim — meira að segja þó að það væri á sannvirði — áburðarverksmiðjuna, fara að láta þá borga hana út og leggja þarna í eitt gífurlegt hlutafélag upp á einar 200–300 millj. Og þegar þeir væru búnir að því, hvernig skyldi þá fara með þessi hlutabréf öll saman, og þegar þeir ættu að fara að kjósa? Það væri meiri hlutinn af þeim, sem með hlutaféð færu, sem réði allri stjórninni, eins og alltaf er í hlutafélögum, og ég veit nú ekki, eins og ég þykist vita að fylgisstraumurinn hjá bændum muni vera núna, hvort hv. 3. þm. Austf. þætti það nokkuð sérstaklega girnilegt, að Framsfl. og hans fylgjendur færu með hreinan meiri hluta í áburðarverksmiðjunni, slíku hlutafélagi, þegar væri búið að selja bændum það. Það þarf enginn maður að efast um, hvert það mundi lenda, ef þetta væri gert. Ég held því, að hann ætti að athuga betur sinn gang, áður en hann leggur fram beinar till. um að selja bændum þetta. Ég held, að það sé hvorki gott fyrir bændur né fyrir ríkið né fyrir þjóðfélagið, að slíkt væri gert. Þar að auki held ég satt að segja, að á þeim tima, sem mest var talað um rekstrarhlutafélag í sambandi við áburðarverksmiðjuna, þá hafi búnaðarþing einu sinni samþykkt einhverja till. í þessa átt, að það ætti að gefa bændum kost á þessu. Mig hálfminnir það, og ég man satt að segja ekki eftir, að það hafi komið miklar undirtektir undir það. Ég efast um, þegar boðin voru út þessi 4 millj. kr. hlutabréf í áburðarverksmiðjunni, að þeir bændur, sem hafi viljað kaupa eitthvað af því, hafi ekki getað fengið það keypt, þannig að ég heid, að þetta sé alveg fjarri lagi.

Þá kom hv. 3. þm. Austf, í sambandi við þessi mál almennt inn á það, að það væri eiginlega nauðsynlegt að selja öll möguleg fyrirtæki hér, svo að það væri helzt fjöldinn, sem ætti þetta í hlutabréfum, en ekki fjöldinn, sem ætti þetta í gegnum ríkið eða bæjarfélögin eða annað slíkt. Og mér skildist, að hann mundi helzt vilja fara að selja hraðfrystistöðina og allt saman ótal smáum hluthöfum og þeir ættu að fara að reka þetta. Ég veit nú ekki, með allri virðingu fyrir þeim mörgu smáu hluthöfum, hvort það yrði nokkuð skár rekið en þó að einn eða einstakir stórir aðilar reki það. Satt að segja hefur sú verið reynslan hjá okkur, þegar farið hefur verið út í þessi fjöldahlutafélög, að fólkið hefur fengið að leggja fram peningana í þau og svo hafa nokkrir stórir sölsað það allt saman undir sig á eftir. Reynslan er því ekki sérstaklega góð. Og að slík fjöldafélög njóti sérstaks trausts hjá almenningi, — hann nefndi t.d. olíufélögin sérstaklega, — ég veit nú ekki, hvort það er ekki of mikið sagt, að olíufélögin — með allri virðingu fyrir öllum hluthöfum í þeim — njóti sérstaks trausts hjá almenningi, þannig að það bæri að stilla þeim upp sem beinni fyrirmynd um, að það ætti að setja bæjarútgerðirnar og sementsverksmiðjuna og áburðarverksmiðjuna og allt annað slíkt inn í hlutafélög, sem nytu álíka trausts og olíufélögin. Ég held, að við verðum að fara dálítið hægt í þetta.

Ég held, að hann hafi talað eða skrifað það líka, að það ætti að selja síldarverksmiðjurnar á sama hátt. Hvernig væri að byrja á Ingólfsfirði? Það var hvort sem var verið að ræða það hérna í gær, að menn væru í einhverjum vandræðum með það. Væri ekki alveg upplagt, að hluthafarnir, sem eiga það, byðu fjöldanum að vera þátttakendur í því hlutafélagi og að Djúpavík eða einhverjir aðrir slíkir væru ekki að sitja með þetta einir, svo að þessar ágætu teoríur fengju nú að reyna sig? Nei, þær geta dugað vel svona stundum „Úr verinu“ í Morgunblaðinu, en í reynslunni, atvinnulífi þjóðfélagsins, þá held ég, að það dygði ekki.

Þá kem ég aftur að áburðarverksmiðjunni og þeim umr., sem hér hafa farið fram í sambandi við eignarréttinn á henni.

Það er alveg misskilningur hjá hæstv. landbrh. og öðrum þeim, sem hér hafa talað, að ég hafi talað um að gera áburðarverksmiðjuna að ríkisfyrirtæki. Áburðarverksmiðjan er ríkisfyrirtæki. Hún er ótvírætt ríkisfyrirtæki. Samkvæmt lögum frá Alþingi er hún ríkisfyrirtæki, alveg á sama hátt og t.d. Landsbankinn eða önnur slík. Með leyfi hæstv. forseta, þá stendur hér í 3. gr.: „Verksmiðjan er sjálfseignarstofnun, er lýtur sérstakri stjórn. Verksmiðjuna má hvorki selja né veðselja, nema heimild sé veitt til þess af Alþingi.“ Áburðarverksmiðjan er ríkisfyrirtæki og er ríkiseign, og um það hefur frá mínu sjónarmiði aldrei verið neinn efi. 1.–12. gr. laganna eru allar saman miðaðar við hana ekki aðeins sem ríkiseign, heldur líka sem ríkisrekstur. Ríkið á þessa áburðarverksmiðju, og það eina, sem ég hef verið að berjast hér fyrir, hefur ekki verið það að gera þessa áburðarverksmiðju að ríkiseign, því að það er hún, heldur að láta skera úr því með lagabreytingu á 13. gr., að hún sé svo ótvíræð ríkiseign, að það sé ekki hægt að vera að blekkja neina menn til þess að leggja fram hlutafé í ákveðið rekstrarhlutafélag með því að fara að reyna að telja þeim trú um, að þeir gerðust þar með einhverjir eigendur í áburðarverksmiðjunni. Og það er þetta, sem ég hélt satt að segja að ætti að vera svo ljóst, og mér þykir hálfleitt, að þeir tveir þm., sem ég sérstaklega mundi nú vera að svara með þessu, hv. 5. þm. Reykv. (JóhH) og hæstv. landbrh., skuli ekki vera inni í augnablikinu, en þeir höfðu hér einmitt ummæli, þar sem þeir voru að ávíta mig út af mínum ummælum, sem sýnir, að þeir hafa alls ekki athugað þetta mál eins vel og þeim raunverulega bæri að gera.

Í grg. fyrir mínu frv. stendur, að það, sem ég sérstaklega einmitt sé að mótmæla og gera aths. við og er ástæðan til þess, að ég flyt mitt lagafrv., það eru yfirlýsingar, sem ráðherrar hafa hér áður gefið, og ég segi: var þessum yfirlýsingum strax harðlega mótmælt og átalið, að ráðh. væri að reyna að breyta skýrum lagaákvæðum með yfirlýsingum á Alþingi, er bakað gætu ríkinu stórtjón. Það eru eingöngu þær yfirlýsingar, sem ráðherrar hafa gefið, sem ég hef verið að reyna að tryggja að ekki gætu valdið því, að ríkið yrði seinna skaðabótaskylt. Það er eingöngu það, sem ég hef verið að berjast fyrir allan þennan tíma. Áburðarverksmiðjan er að mínu áliti ótvíræð ríkiseign. En vegna þess, að ákveðnir ráðherrar hafa gefið yfirlýsingar fyrir 6–7 árum, þar sem þeir lýstu því yfir þvert ofan í lög, að áburðarverksmiðjan væri eign rekstrarhlutafélagsins, þá áleit ég, að það væri nauðsynlegt að taka af öll tvímæli, til þess að ekki væri verið að vitna í þeirra yfirlýsingar seinna.

Ég skal endurtaka það, fyrst hæstv. landbrh. er kominn, að þau ummæli, sem ég hafði haft um þetta sem hneykslunarmál og ég vitnaði sérstaklega í grg. fyrir mínu frv., þau voru ekki vegna þess, að ég hafi nokkurn tíma efazt um, að þetta væri ríkiseign, allar lagagreinarnar frá 1.–12. gr. eru ótvíræðar um það, að þetta er sjálfseignarstofnun, sem ríkið eitt á og Alþingi eitt ræður, en það höfðu vissir ráðherrar gefið yfirlýsingar á vissum tíma, sem hafa valdið því, að sumir aðilar, sem eiga þarna hlutabréf, gætu farið að líta svo á, að þeir ættu áburðarverksmiðjuna, sem væri alger misskilningur frá þeim og væri blekkjandi gagnvart þeim að láta þá standa í þeirri meiningu. En stæðu slíkar ráðherrayfirlýsingar ómótmæltar, — hins vegar hefur þeim verið mótmælt, — þá gæti það seinna í sambandi við dómsmál orðið grundvöllur að skaðabótaskyldu gagnvart ríkinu, og ég vildi firra ríkið því tjóni. Ég hef aldrei hallmælt þeim mönnum, sem lögðu fram hlutaféð í þetta. Ég er alveg sammála um, að þeir hafi gert það í góðri trú. En þeir lögðu fram hlutafé í rekstrarhlutafélagið Áburðarverksmiðjuna h/f, og það hlutafélag er ekki nefnt einu orði í lögunum um áburðarverksmiðju, ekki einu orði, það er ekki til þar. Það er ekkert annað þar til en áburðarverksmiðja, sem er sjálfseignarstofnun ríkisins, ekkert annað. En í 13. gr. laganna, sem var bætt inn í í Ed. á eftir, stendur, með leyfi hæstv. forseta:

Ríkisstj. er heimilt þrátt fyrir ákvæði 2. gr. að leita eftir þátttöku félaga og einstaklinga um hlutafjárframlög til stofnunar áburðarverksmiðjunnar og leggja fram til hennar hlutafé úr rekstrarsjóði áburðarsölu ríkisins allt að 1 millj. kr. Ef slík framlög nema minnst 4 millj. kr., leggur ríkissjóður fram hlutafé, sem þá vantar til, að hlutaféð verði alls 10 millj. kr., og skal verksmiðjan þá rekin sem hlutafélag.“

Rekin sem hlutafélag, — það þýðir, að það skuli vera myndað rekstrarfélag, sem rekur hana, en breytir engu um eignahlutföllin. Þegar þetta frv. var samþ., lýsti forsrh. þeirrar ríkisstj., Stefán Jóh. Stefánsson, því yfir, að það væri ótvíræður skilningur hans, að ríkið ætti áburðarverksmiðjuna og þetta hlutafélag væri aðeins rekstrarhlutafélag, og á þeim grundvelli var þetta frv. samþykkt. Og núv. forseti Íslands, Ásgeir Ásgeirsson, sem var fulltrúi Alþfl. í fjhn. með mér í fyrsta skipti, sem ég flutti þessa lagabreytingu, Mann lýsti því yfir, að það væri alveg ótvírætt, að áburðarverksmiðjan væri eign ríkisins og þetta hlutafélag væri aðeins rekstrarhlutafélag. Þegar fram kom einum 3–4 árum seinna ein yfirlýsing frá þáv. landbrh. um, að hlutafélagið ætti verksmiðjuna, þá mótmælti ég því samstundis og hef síðan flutt þetta frv. til þess að taka af allan vafa um, að hluthafarnir, sem lögðu fram hlutafé í Áburðarverksmiðjuna h/f, gætu ekki gert sér neina von um, að þeir væru neinir eigendur að áburðarverksmiðju ríkisins. Og forseti Alþingis hefur, þegar síðast var kosið í stjórn áburðarverksmiðjunnar, beinlínis leyft, að núverandi aðalbankastjóri Seðlabankans, Vilhjálmur Þór, væri kosinn í hana, af því að þetta væri fyrirtæki ríkisins, af því að ríkið ætti þetta fyrirtæki, eins og hann kvað á í þeim úrskurði, sem hann þá las upp og ég oft hef vitnað hér í og skal ekki gera einu sinni enn.

Ég hef einmitt aldrei dregið í efa, að þeir menn, sem hafi lagt fram þessar 4 millj. í rekstrarhlutafélagið, hafi gert það í góðri meiningu og ekki af neinni hagnaðarvon, og einmitt þess vegna hef ég lagt svo til í mínu lagafrv., að þessum mönnum væru greidd þeirra hlutabréf, ekki aðeins með þeim 6% vöxtum, sem þeir ættu rétt á að fá, frá því að þeir lögðu þetta fram, sem væri eðlilegt, heldur jafnvel hærra verð, að ríkisstj. yrði heimilað að greiða þeim hærra verð, svo framarlega sem fulltrúar frá þingflokkunum, sem væru skipaðir í sérstaka n., samþykktu það líka, af því að ég álít eðlilegt og sanngjarnt, að þessum mönnum sé greitt þarna nokkru hærra verð en mundi vera eftir strangasta laganna skilningi.

Það, sem ég hef verið að deila á, eru yfirlýsingar ráðh. um, að þessi verksmiðja væri ekki eign ríkisins og ríkisins eins, heldur væri eign einhvers hlutafélags, einhvers rekstrarhlutafélags. Það er það, sem ég er að deila á, og það er það, sem ég hef stimplað sem hneykslunarmál, þegar þeir menn, sem eiga að vernda eignarrétt ríkisins á fyrirtækjunum, eru að gefa vitlausar yfirlýsingar, sem stangast við lög og gætu orðið til þess að koma slíkum fyrirtækjum úr ríkiseign eða baka ríkinu ella stórtjón.

Þess vegna vil ég vona, þegar menn athuga þessi mál þannig niður í kjölinn, að þá fallist menn á réttmæti skoðunar minnar í þessu. Það eru engin vandræði þar með að gera vel við þá hluthafa, sem þarna eru, þeir eru alls góðs maklegir. En við eigum bara ekki að geyma það lengi. Ef það hefði verið gert í fyrsta skipti, sem ég flutti þetta frv. á Alþingi, þá hefðum við sloppið miklu ódýrar en við sleppum núna, og því lengur sem það er dregið, því dýrara verður það ríkinu. Hins vegar álít ég, að það sé alveg óhjákvæmilegt að afgreiða það mál núna, um leið og þetta frv. hæstv. ríkisstj., sem hér liggur fyrir, verður afgreitt. Það er ekkert sem heitir, eins og hæstv. landbrh. minntist á, að það sé hægt að afgreiða þetta mál út af fyrir sig og svo geti ég haldið áfram að berjast fyrir því að gera hana að ríkiseign. Ég er ekki að berjast fyrir því að gera hana að ríkiseign, hún er ríkiseign, ótvíræð ríkiseign. En ég er að berjast fyrir því, að það sé hætt annars vegar að reyna að blekkja þá hluthafa, sem eru í rekstrarhlutafélaginu, og hins vegar jafnvel að reyna að koma ríkiseign yfir á þá, yfir á þessa rekstrarhluthafa. Það er það, sem ég er að berjast á móti, og þar vildi ég taka af öll tvímæli.

Svo kom hæstv. ráðh. inn á endurnýjunarverðið, og mér skildist, að hann hefði verið að segja, að ég væri á móti því. Ég held, að ég hafi ekki beint tekið afstöðu á móti því, en ég kom með nokkrar fyrirspurnir í sambandi við það, sem ég held hins vegar að séu mjög eðlilegar, án þess að ég hafi tekið nokkra endanlega afstöðu um það mál. Ef á að leyfa áburðarverksmiðjunni að afskrifa sig miðað við endurnýjunarverð, er það þá eitthvað, sem á bara að gilda um áburðarverksmiðjuna eina af öllum fyrirtækjum í landinu, eða á þetta að verða regla um opinber fyrirtæki, eða á það kannske að verða enn þá meira, ef það verður regla um opinber fyrirtæki, á það að verða regla um einstaklingsfyrirtæki líka? Ég sagði og sagði það satt, að ég er illa að mér í þessum málum, og þess vegna var ég að spyrja, og fór og spurði mann, sem er betur að sér en ég í þessum málum, það er hv. 3. þm. Austf., og spurði hann hvernig væri með þær verksmiðjur, sem einstakir menn ættu í landinu, hvort þeir fengju að afskrifa miðað við endurnýjunarverð. Hann sagði nei, það yrði að standa sem kostnaðarverð, slík almenn afskrift væri miðuð við kostnaðarverð. Ég held því, að það sé ótvírætt, að það, sem er reglan með þetta núna, það er, að menn fái að afskrifa í sambandi við kostnaðarverð. Ef það á að taka upp, að menn fari að afskrifa í sambandi við endurnýjunarverð, þá held ég, að það hljóti að skapa alveg sérstaklega undarlegt ástand í skattamálum. Ég held, að menn hlytu, a.m.k. með áframhaldandi reglulegum gengislækkunum og verðbólguþróun, að verða að afskrifa fyrirtæki alltaf hreint og þyrftu aldrei að borga neina skatta af þeim, a.m.k. ekki sem eign.

Ég þekki til annars opinbers fyrirtækis, sem ég hef haft nokkuð með að gera. Það er Sogsvirkjunin, sem er sameign Reykjavíkurbæjar og ríkisins. Í ákvæðunum um Sogsvirkjunina er það svo, að þar má afskrifa, og ég held, að ég megi alveg fullyrða, að þar má afskrifa og miða verðið við kostnaðarverð plús 5%, — ég held, að það sé áreiðanlega rétt hjá mér. Það hefur stundum verið minnzt á það í stjórn Sogsvirkjunarinnar, hvort mætti fara fram á að leyfa því fyrirtæki að fara að afskrifa sig í sambandi við endurnýjunarverð og reikna rafmagnsverðið út frá því, hvað það kostar að endurnýja þau fyrirtæki, eins og þau mundu kosta, ef þau væru byggð þá, á hverjum tíma. Satt að segja hafði engum manni þá dottið þetta í hug. Ég veit, að þegar Reykjavíkurbær samdi við ríkið og setti þetta í helmingafélag á milli þeirra, þá voru allar eignir, sem Reykjavíkurbær átti, — ég held, að ég fari þar áreiðanlega með rétt mál, að eignirnar, sem Reykjavíkurbær áttí þá, hafi mestmegnis verið látnar inn í það sameignarfélag með kostnaðarverðinu, en ekki með neinu endurnýjunarverði, með það eitt fyrir augum, að rafmagnsverð yrði lægra, vegna þess að hefðu gömlu stöðvarnar, Ljósafossstöðin og slíkt, þá verið látnar inn í þetta sameignarfélag með endurnýjunarverði, þá hefði það náttúrlega þýtt, að verð Sogsvirkjunarinnar í heild hefði stórlega vaxið og rafmagnsverðið að viðbættum 6% hefði þess vegna orðið miklu hærra. Það var svo undarleg tilhneiging einhvern veginn hjá mönnum á þeim tímum, mönnum finnst það vafalaust fornar dyggðir eða gamaldags sveitamennska, að menn voru að hugsa um lágt verð á hlutum eins og rafmagni. Ég býst við, að menn eigi mjög erfitt eftir síðustu ráðstafanir að skilja þess háttar hugsunargang. En þetta var svo hér í fyrndinni á Íslandi, að opinber fyrirtæki voru sem sé að hugsa um, að það væri gott, að menn hefðu lágt verð á hlutum eins og rafmagni. Satt að segja naut áburðarverksmiðjan þessa nokkuð, því að hefði Ljósafossstöðin verið reiknuð með endurnýjunarverði á þeim tíma, þá hefði verðið til áburðarverksmiðjunnar orðið allmiklu hærra en það var. — Og nú er mér spurn: Ef á að taka það inn í lög, að áburðarverksmiðjan skuli mega afskrifa sig og fyrna sig miðað við endurnýjunarverð, á þá hið sama að gilda um Sogsvirkjunina? Og á þá að endurmeta allar hennar eignir og þar með allt kostnaðarverð á rafmagni miðað við endurnýjun á öllum hennar mannvirkjum? Ég er hræddur um, að verð á rafmagni til áburðarverksmiðjunnar mundi strax hækka nokkuð við það.

Hins vegar, — og það er rétt, að ég taki undir það með hv. 5. þm. Reykv., — hins vegar er það vitað mál, að verðið á rafmagninu til áburðarverksmiðjunnar frá Sogsvirkjuninni er svo lágt, að það er neðan við allt, sem sannvirði gæti talizt. Þegar samningurinn á milli áburðarverksmiðjunnar og Sogsvirkjunarinnar var gerður 1953, greiddi ég einn í Sogsvirkjunarstjórninni atkv. á móti þeim samningi, vegna þess að mér var alveg ljóst, að þar var verið að taka okkur nauðungartökum. Það var sett að skilyrði af hálfu Alþjóðabankans fyrir öllum lánum til Sogsvirkjunarinnar, þ.e. Írafossvirkjunarinnar, að við féllumst á það rafmagnsverð, sem Alþjóðabankinn þá heimtaði til handa áburðarverksmiðjunni, sem hann var að lána fé til að byggja þá og hann gerði að skilyrði að ætti að reyna að setja yfir í einstaklingseign. Alþjóðabankinn var þá að þvinga opinbert fyrirtæki eins og Sogsvirkjunina til að selja með óeðlilega lágu verði til 15 ára rafmagn til áburðarverksmiðjunnar, sem Alþjóðabankinn ætlaði að reyna að gera að einstaklingseign. Og það var vitað mál frá upphafi, að áburðarverksmiðjan var vitlaust planlögð. Það var ekki skeytt um það, sem við, sem þá vorum hér fulltrúar Sósíalistaflokksins, héldum fram, að það ætti að hafa áburðarverksmiðjuna miklu stærri, til þess að hún gæti selt áburðinn á verði, sem væri samkeppnisfært, og við sýndum fram á, hvað hún þyrfti að vera stór, og við sýndum fram á og gerðum tillögu um virkjun á Urriðafossi, sem þyrfti að virkja til þess að tryggja henni rekstur. Því var engu sinnt. Það var þvingað upp á okkur smærri áburðarverksmiðju en praktískt er að reka. Og til þess að reyna að dylja þetta krafðist Alþjóðabankinn þess, að Reykjavíkurbær og ríkið — eða Sogsvirkjunin með öðrum orðum — létu rafmagn með óeðlilega ódýru verði í 15 ár til áburðarverksmiðjunnar. Eftir að hafa þvingað fram ópraktíska stærð áburðarverksmiðjunnar, of litla, þá átti á kostnað ríkisins og Reykjavíkurbæjar og þeirra, sem nota rafmagn hér, að tryggja þessu fyrirtæki svo lágt rafmagnsverð, að það væri hægt að reka það eingöngu í skjóli þess. Og það var á móti því, sem ég greiddi atkvæði.

Nú vil ég spyrja hæstv. landbrh., sem ég held að fari með raforkumál líka: Ef hann ætlar nú að úthluta áburðarverksmiðjunni endurnýjunarverði, þegar hún reiknar út áburðinn til bænda, ætlar hann þá að skilja hitt barnið eftir þarna, Sogsvirkjunina, sem hann á að sjá um líka, og láta hana ekki fá neitt endurnýjunarverð, og hvað verður þá um kostnaðinn á áburðinum, þegar hún er búin að fá endurnýjunarverðið? Ég kastaði þessu fram áðan um endurnýjunarverðið, vegna þess að ég er, eins og ég tók fram, ekkert sérstaklega klókur í þessum málum, og ég sé nú þegar, að maður, sem er miklu betur að sér í þessum málum en ég, hv. 5. þm. Reykv., gerir þarna skarpari, harðvítugri athugasemdir en ég.

Ég er hræddur um, að þetta verði að endurskoðast. Ef farið er inn á þetta með áburðarverksmiðjuna, þá verður að gera þetta með fleiri slík fyrirtæki. Og þar að auki, ef á að gera þetta með fyrirtæki ríkisins, verður þá ekki að fara að gera þetta með fyrirtæki einstaklinga? Ég tala nú ekki um, ef þannig háttar til, að ríkið er að reka verksmiðjur, sem hafa máske einokun, algera einokunaraðstöðu, eins og áburðarverksmiðjan hefur og eins og t.d. lögum samkvæmt raforkuverin hafa, — þau eru öll opinber lögum samkv. — Verðum við ekki að athuga, hvert við erum að fara í þessu? Þýðir þetta ekki, svo að ég fari nú að taka dæmi, sem einmitt hv. stjórnarflokkar hafa notað allmikið, — þýðir þetta ekki eins konar lögskipaða vísitöluskrúfu? Þýðir þetta ekki eins konar sjálfkrafa verðhækkun frá hálfu t.d. áburðarverksmiðjunnar á áburðinum, Sogsvirkjunarinnar á rafmagninu, ef við þetta á að miða? Byggist ekki svo og svo mikið af þeirri verðfestu, sem maður almennt vill skapa í þjóðfélögum, að mjög miklu leyti á því, að það séu rekin fyrirtæki, sem menn eru búnir að afskrifa alveg 100% og menn reka þess vegna svo að segja án þess að reikna neinn gróða fyrir eign lengur, heldur aðeins nokkurn rekstrargróða af því? Í þeirri samkeppni, sem hæstv. ríkisstj. einmitt vill innleiða sem þann aðila, sem skapar verðlagið, eru þá ekki áreiðanlega í þeim þjóðfélögum, þar sem frjáls verðmyndun er, gömlu fyrirtækin, sem eru búin að afskrifa sínar eignir og geta þess vegna framleitt ódýrar, eru þau ekki aðilar, sem áreiðanlega halda oft að mjög miklu leyti verðinu niðri, sem þau ekki mundu gera á sama máta, svo framarlega sem þau fengju alltaf leyfi til þess að afskrifa meir og meir? Hingað til hefur það verið álitinn alveg sérstakur kostur, sérstök fríðindi í þjóðfélaginu að fá að afskrifa eignirnar með sérstökum hætti. Ég man eftir, þegar við vorum að hefja t.d. nýsköpunartímabil, að þá var það innleitt sem eitt af því, sem átti að vera til að fá atvinnurekendur, sem voru ákaflega tregir til allra framlaga, til þess að gera slíkt, að þeim var lofað að geta afskrifað svo og svo mikið af þessu á þrem árum, eða eins mikið og þeir gætu afskrifað á þremur árum, fengju þeir að gera. Það þóttu sérstök fríðindi. Ef endurnýjunarreglan, sem hérna er talað um, yrði sett inn sem algild regla í þessu sambandi, þýðir það þá ekki bara meiri eða minni eilífðarafskriftir? Ég held þess vegna, að þetta frv. þurfi mjög mikillar athugunar við og það sé rétt, að sú nefnd, sem fær það til meðferðar, fyrir utan að taka til athugunar þær ábendingar, sem ég hef verið með viðvíkjandi áburðarverksmiðjunni og eignarhaldinu á henni, þá eigi hún að athuga mjög vel afleiðingarnar af þessari endurnýjunarafskriftareglu, ef hún yrði upp tekin.