28.11.1959
Efri deild: 4. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 139 í C-deild Alþingistíðinda. (2220)

7. mál, gjaldaviðauki 1960

Alfreð Gíslason læknir:

Herra forseti. Erindi mitt í ræðustólinn er að taka undir þær óskir, sem fram hafa komið hér í d. um, að þessari umr. verði frestað. Mér skilst, að það sé öll stjórnarandstaðan í þessari hv. d., sem óskar þess. Í lýðræðislöndum má segja, að minni hl. eða stjórnarandstaðan njóti þeim mun meiri tillitssemi, sem lýðræðið er meira í hávegum haft í viðkomandi löndum. Ég minnist þess, að fyrrv. forseti í þessari d., Bernharð Stefánsson, gætti þess mjög vandlega gagnvart minni hl., a.m.k. þann tíma, sem ég átti sæti í þessari hv. d., að taka fyllsta tillit til sanngjarnra óska minni hl., eins og það t.d. að fresta umr., ef eindregnar óskir komu um það frá stjórnarandstöðunni og þær óskir voru rökfærðar. Nú hefur ein slík ósk borizt frá minni hl. í þessari deild, og ástæðurnar eru þær, að málinu hefur fram að þessu óneitanlega veríð flaustrað og lítill tími til íhugunar og athugunar fyrir minni hl. Ég vil þess vegna eindregið skora á hæstv. forseta að fresta þessari 2. umr. málsins í dag, og ég verð að segja, að ég ber nokkurt traust til hans persónulega, tillitssemi hans og sanngirni, og þess vegna býst ég við góðu af hans hálfu.