28.11.1959
Efri deild: 4. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 140 í C-deild Alþingistíðinda. (2224)

7. mál, gjaldaviðauki 1960

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Ég lýsti eftir rökum fyrir þessari frestunarbeiðni, vegna þess að ég hef ekki orðið þeirra var í þessum umr. Um þetta mál eru í rauninni allir sammála, framlengingu þessa tekjustofns, sem hér liggur fyrir. Frestunaróskin er því ekki borin fram til þess, að menn geti kynnt sér þetta mál nánar. Það held ég að sé viðurkennt af öllum. Ef eitthvað er óvenjulegt í þessum málum, þá er það framkoma stjórnarandstæðinga í þessu máli. Ár eftir ár hafa sams konar heimildarlög verið framlengd umræðulítið og ágreiningslaust, og þegar við höfum verið í stjórnarandstöðu, hefur okkur aldrei dottið í hug út af framlengingu þessara mála að beita slíku málþófi og töfum eins og hv. stjórnarandstæðingar gera nú. Það er algert einsdæmi.

Varðandi fullyrðingu 1. þm. Norðurl. e. um, að það sé ótímabært að bera fram þessi mál nú, þá fer hann algerlega villur vegar, og ef þetta á að vera áróðursefni frá honum, þá er hann fyrst og fremst að ráðast á flokksbróður sinn, fyrrv. fjmrh., Eystein Jónsson. Ég hef fyrir framan mig, hvernig þessum málum hefur verið háttað tvö undanfarin ár, 1957 og 1958. 1957 eru öll þessi frv. borin fram, ekki rétt fyrir áramót, eins og hv. þm. segir nú, heldur 11. okt. Árið 1958 eru þessi mál borin fram 3 þeirra 13. okt. og það 4. í nóv. Nú eru þessi frumvörp borin fram seinni hluta nóvembermánaðar, 25. nóv. Svo leyfir þessi hv. þm. sér að koma hér fram og bera það blákalt fram fyrir þingheim, að það séu óvenjuleg vinnubrögð að bera þessi frumvörp svona fljótt fram eins og nú er.

Mér finnst ákaflega sanngjarnt að verða við þessum ítrekuðu óskum þeirra hv. þm., þó að engin rök séu færð fyrir þeim. En mér finnst, að hæstv. forseti yrði fyllilega við sanngjörnum óskum í þessu efni með því að taka þá ekki 3. umr. fyrr en eftir helgi. En ef þeir ætla að koma í veg fyrir, að lokið sé 2. umr. um þetta mál, þá vakir allt annað fyrir þeim. Ég sé ekki, að neitt geti vakað fyrir þeim annað en að reyna að tefja þingið sem mest. Hvað þeir svo ætla sér að vinna í áliti meðal þjóðarinnar á því, það fæ ég ekki skilið.