28.11.1959
Efri deild: 4. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 157 í C-deild Alþingistíðinda. (2231)

7. mál, gjaldaviðauki 1960

Frsm. meiri hl. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Það var út af fsp., sem borin var fram af hv. 3. þm. Norðurl. v. (ÓlJ). Hann virtist átelja það, með hverjum hætti væri frá þeim frv. gengið, sem nú liggja fyrir, þar eð ekki væru gefnar um það upplýsingar, hve miklu næmu þær tekjur, sem ríkissjóður hefði af þeim gjaldaliðum, sem þarna er um að ræða. Það getur vel verið, að formlega séð hefði það verið rétt að gefa um þetta upplýsingar í umræddum frv., en á það vil ég þó aðeins leyfa mér að benda hv. þm., að þegar þessi frv. hafa verið lögð fyrir þingið að undanförnu af flokksbróður hans, hv. 1, þm. Austf., þá hafa slíkar upplýsingar aldrei birzt.

Hvað snertir suma þessa tekjuliði, þá er auðvelt að sjá með því að bera þá saman við fjárlagafrv. það, sem fyrir liggur, hve miklar tekjur eru áætlaðar af þeim. Þannig eru t.d. tekjur af vitagjöldum áætlaðar 1,700 þús. kr., og þar sem 100% álag er á vitagjöldin, þá eru það 850 þús., sem tekjuöflunin samkvæmt frv. nemur. Hins vegar skal ég fúslega játa það, að ég hef ekki handbærar upplýsingar um það í einstökum liðum, hve miklar tekjur er hér um að ræða, enda var því alls ekki hreyft, þegar málið var til meðferðar í fjhn., að þessar upplýsingar yrðu gefnar, og eins og ég sagði, þá hefur það ekki verið upplýst að undanförnu. Hins vegar tel ég alveg sjálfsagt, ef það kann að hafa einhver áhrif á afstöðu einstakra hv. þdm. til þessara mála, að þessar upplýsingar séu gefnar, því að að sjálfsögðu munu þær vera fyrir hendi í fjmrn., og skal ég leitast við að fá þessar upplýsingar, þannig að þær liggi fyrir, þegar málin verða aftur til umræðu á mánudag.

Annars verð ég að segja það, þó að það sé ekki ætlun mín að lengja umr, nú, að mér finnst það dálítið út í hött, þegar sumir hv. þm. hafa verið að tala um það, að vegna þess„ hve mikil óvissa sé um fjármál ríkisins á næsta ári, þá sé ekki hægt að samþykkja þessi frv. Einn hv. þm. komst m.a. þannig að orði, að það væri með öllu óvíst, að ríkissjóður þyrfti á þessum tekjustofnum að halda. Nú mun það flestum hv. þdm. kunnugt, að þegar fjárlög voru afgreidd á s.l. vori, gerði ekki betur en svo, að tekjur og gjöld stæðu í járnum, og af ýmsum hv. framsóknarmönnum var fjárlagaafgreiðslan meira að segja vítt á þeim grundvelli, að hún væri ábyrgðarlaus. Þeir létu í ljós ótta um það, að verulegur tekjuhalli yrði á fjárlögum. Að vísu er það upplýst nú, að ekki eru líkur á, að þessi tekjuhalli verði mikill, en hitt er auðsætt mál, að svo lengi sem fjárlögin eru á svipuðum grundvelli og þau eru nú, verður þessara tekjustofna þörf þar sem það hlýtur auðvitað að verða þannig, þar til fjárlög eru afgreidd, að greiðslur úr ríkissjóði fara fram á grundvelli fjárlaga yfirstandandi árs. Af þessu leiðir, að ríkissjóður þarf vitanlega á þeim tekjustofnum að halda, sem hingað til hefur verið byggt á. Hitt getur vel verið og er líklegt, að breytt verði að meira eða minna leyti um tekjuöflun ríkissjóðs, en þá leiðir það auðvitað af sjálfu sér, að með þeim lagabreytingum., sem nauðsynlegt væri að gera í því sambandi, falla þau lög, sem nú á að samþykkja, niður, að því leyti sem þau mundu koma í bág við hina nýju tekjuöflun. Það haggar engu um það, að svo lengi sem unnið er á grundvelli núgildandi fjárlaga, er nauðsynlegt að framlengja þessa tekjustofna.