30.11.1959
Efri deild: 5. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 165 í C-deild Alþingistíðinda. (2236)

7. mál, gjaldaviðauki 1960

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Það ber á nokkurri óþreyju hjá stjórnarliðum út af því, að þm. stjórnarandstöðunnar leyfa sér að taka til máls um þau frv., sem hér eru á dagskrá, og er það ekki með eðlilegum hætti, að þeir skuli ekki þola við, þó að stund úr tveimur dögum sé varið til þess að drepa á jafnþýðingarmikil mál og hér eru til umr. og þá sérstaklega drepa á þann tilgang, sem er með því að flytja málin nú og keyra þau gegnum þingið nú, því að það er ekki tilgangur hæstv. ríkisstj. að ætla að nota þessi lög fyrir áramót, hún þarf ekki á því að halda. Það er ekki fyrr en eftir áramót, sem hún þarf á þessum væntanlegu lögum að halda, svo að út frá því sjónarmiði er ekki neitt komið í ótíma um að afgreiða þessi mál. Ég hélt, að öllum væri ljóst, að þessar umr. eru fyrst og fremst mótmæli gegn þeim vinnubrögðum að reka þingið heim. Tilgangurinn með því að keyra þessi frv. áfram nú er sá að gera ríkisstj. mögulegt að reka þingið heim í dag, eins og tilætlunin var.

Hv. 9. landsk. er hér ekki staddur. Mér þætti vænt um, að einhver næði í hann, því að ég þyrfti aðeins að svara örfáum orðum, sem hann lét falla, áður en ég gleymi þeim. Já, það er kannske nóg, að hv. 10. þm. Reykv. hlusti á það. Ég verð þá að láta það duga. Hv. 9. landsk. þm. kom með þær fréttir, að ljósmæður hér í landinu væru farnar að taka upp á því að neita að taka á móti börnum, sem ekki fæðast nákvæmlega á réttum tíma. Mér þykir þetta tíðindi út af fyrir sig. Ég hef aldrei heyrt þetta nefnt fyrr. Og ef þetta er svona, þá sýnist mér full ástæða til fyrir stjórnarflokkana að flytja hér frv. um breyt. á ljósmæðralögunum, því að þetta er alveg óhafandi ástand, ef þetta er svona. Og ég vænti þess, að hæstv. fjmrh., sem hér er staddur, hlutist til um það innan hæstv. ríkisstj., að þinginu verði ekki frestað fyrr en búið er að koma þeirri löggjöf í gegn. (Fjmrh.: Þetta mál heyrir ekki undir mig.) Nei, en ég sagði, að hann beitti sér fyrir því innan ríkisstj., það hlýtur að vera einhver ráðh. til, sem mál ljósmæðra heyra undir.

Þá var hv. 9. landsk. að mótmæla einhverjum ummælum af hálfu framsóknarmanna, að Sjálfstfl. hefði húsbóndavald yfir Alþfl. Það má alltaf deila um einstök blaðaskrif og einstök ummæli á fundum og þess háttar. Það er alveg rétt. En ég get ekki setið á mér að skýra frá því, að hlustað hef ég á sjálfstæðismenn skýra frá tildrögum stjórnarmyndunarinnar á Þorláksmessu í fyrra. Ég kann það alveg, því að þetta bar á góma fund eftir fund, ég lærði þetta utan bókar og það var í fáum orðum efnislega á þessa leið: Þegar Ólafur Thors reyndi að mynda ríkisstj. í desember í fyrra, sneri Sjálfstfl. sér til Alþfl., lagði fyrir hann efnahagsmálatillögur sinar og óskaði eftir stuðningi Alþfl. við ríkisstjórn sjálfstæðismanna. Alþfl. sagði nei. Daginn eftir kom Alþfl. til Sjálfstfl. og bað hann um stuðning við ríkisstj. Alþfl.-manna um þessar sömu tillögur. Sjálfstfl. sagði já. (Gripið fram í.) Það veit ég ekki. — Nú er hv. 9 landsk. kominn inn í d. Ég var að skýra frá því, að ég teldi það fréttir, ef það er rétt, sem mér skildist hv. 9. landsk, þm. halda fram, að ljósmæður hér í landinu væru farnar að taka upp á því að neita að taka á móti börnum, sem ekki fæddust nákvæmlega á réttum tíma, — og ef þetta reynist rétt, þá treysti ég honum sem góðum stuðningsmanni ríkjandi stjórnar að beita sínum áhrifum til þess, að þegar í stað verði flutt frv. til að bæta úr þessu ástandi og að þinginu verði ekki frestað, fyrr en það frv. hefur fengið afgreiðslu. Það var þetta, sem ég sagði áðan, og ég hef beint sömu tilmælum til hæstv. fjmrh., og hann hefur ekki neitað að verða við þeim.

Ég sagði frá grg. eins af framámönnum sjálfstæðismanna, hvernig stjórnarmyndunin fór fram í fyrra, og hlýt ég að líta svo á, að efnahagsmálastefnan, ef stefnu skyldi kalla, sem stjórnað hefur verið eftir frá því í desember í fyrra, sé mótuð og í öllum efnum samin af Sjálfstfl., en Alþfl. hafi fallizt á hana og framkvæmt hana með stuðningi sjálfstæðismanna. Ég efast um, að nokkur muni mótmæla þessu, að þannig hefur þetta gengið fyrir sig. Nú sannar þetta ekki að vísu, að Sjálfstfl. hafi húsbóndavald yfir Alþfl. En ef hann hefur það ekki, þá er það eingöngu fyrir það, að Alþfl. hugsar nú orðið nákvæmlega eins og Sjálfstfl. og á enga skoðun, sem fellur ekki í sama farveg.

Þá drap hv. 9. landsk. þm. á afurðaverð bænda og brbl. og sagði merkilegan hlut, að ég kalla. Ég gat ekki a.m.k. skilið hann á annan veg en þann, að hæstv. þáv. ríkisstj. hefði gefið út brbl., til þess að verkalýðsfélögum gæfist ekki færi á kauphækkunum. Ég held, að ég hafi skrifað þetta orðrétt eftir honum. M.ö.o.: hið lögákveðna afurðaverð bænda var af þeim svikið með brbl., til þess að verkalýðsfélögum gæfist ekki færi á kauphækkunum. Hvernig stendur þá á uppsögnum samninga hjá verkalýðsfélögum núna þrátt fyrir brbl.? Er hæstv. ríkisstj. búin að tryggja það með brbl. um landbúnaðarverðið, að engin verkalýðsfélög hugsi til kauphækkana, að ég ekki tali um hitt, að félögum gefist ekki einu sinni færi á því, eins og hann orðaði það? Ég er hræddur um, að raunin geti orðið önnur en sú, að þetta sé tryggt með brbl. En ef þetta er svona mikils virði, útgáfa brbl., þá fer maður að skilja betur þó, hvernig stendur á því, að hæstv. ríkisstj. leggur þau ekki fyrir þingið. Þau eru svona mikils virði. Það er ekki að undra, þó að þurfi að keyra mál í gegnum þingið á stuttum tíma, svo að hægt sé að senda það heim og brbl. komi ekki fyrir þingið, ef þau eru svona mikils virði.

Í umr. á laugardaginn tók til máls hv. 6. þm. Norðurl. e. Hann gat þess í sinni ræðu þá, að tekjuöflunarfrv. hefðu alltaf verið afgr. á undan fjárlögum. Þetta er víst alveg rétt hjá honum. Og ég veit ekki til, að nokkur þm. geri þá kröfu nú, að þessi tekjuöflunarfrv., sem nú eru á dagskrá, verði látin bíða eftir afgreiðslu fjárlaga. En hafa tekjuöflunarfrv. nokkurn tíma verið afgreidd á undan 1. umr. fjárlaga? Það held ég ekki. Og það er það, sem hér hefur verið fundið að, að ekki eru fyrst rædd fjárlögin, fjárlagafrv. lagt fram til 1. umr., fjárlagaræðan haldin og yfirlit gefið um efnahagsástandið, en hinu hefur ekki verið fundið að, þó að fjárlög séu síðar afgr. frá þingi en tekjuöflunarfrv.

Þá hygg ég, að ég hafi tekið rétt eftir því í ræðu þessa sama hv. þm., að hann taldi, að það seinkaði ekki afgreiðslu mála, sem nú eru þegar komin fram, þó að þau verði síðar tekin fyrir á þinginu, m.ö.o., að afgreiðslu þeirra 20–30 mála, sem þegar eru komin fram, seinki ekki, þó að þinginu verði frestað í tvo mánuði. Ég kann ekki þessa reikningslist. Mér skilst, að þessum málum öllum hljóti þá að seinka um tvo mánuði, ef þinginu verður frestað þann tíma. Og það, sem er kannske enn verra, er það, að afleiðingin getur orðið sú, að þau mál eða önnur mál, sem kynnu að verða lögð fram á þessu tímabili, sem nú á að fara í þingfrestun, dagi uppi einmitt fyrir þingfrestunina.

Þá sagði hv. 6. þm. Norðurl. e., að hann teldi ekki fært annað en gera þinghlé nú þegar, en hann væri ekki viss um, að það þyrfti að standa eins lengi fram eftir janúarmánuði og segir í ályktun þeirri, sem liggur fyrir þinginu. Mér finnst þessi ummæli hv. 6. þm. Norðurl. e. vera nokkurs virði. Ég hef síðan fengið að vita það, að hann hefur verið kosinn formaður fjárveitinganefndar. Hann hefur lengi starfað í fjvn., er kunnugur þeim málum yfirleitt, og ég met því mikils það, sem hann segir um þetta efni, að hann sé ekki viss um, að það þurfi að fresta þinginu svona langt fram eftir janúarmánuði, m.ö.o., hann sé ekki viss um, að þinghléið þurfi að vera svona langt, það verði bara að fresta því nú, það megi þá stytta þinghléið frá hinum endanum. Þarna er þó komin fram skoðun frá einum af fremstu stuðningsmönnum hæstv. ríkisstj., sem vefengir, að það sé þörf á tveggja mánaða þingfrestun. Ég ætla, að hann hafi eitthvað fyrir sér í þessu. Það eru því fleiri en stjórnarandstæðingar sem líta hornauga þessa tveggja mánaða þingfrestun, sem nú er ráðgerð. Ég vildi beina þeim tilmælum til hv. þm., sem jafnframt er formaður fjvn., að hann komi þessum skoðunum sínum á framfæri við hæstv. ríkisstj.

Þetta tveggja mánaða þinghlé mun þá ekki vera nauðsynlegt. Hitt skil ég aftur á móti ekki, hvers vegna þinghlé í desember er svo miklu meira virði en þinghlé í janúar. Ef hægt er að stytta þinghléið á annað borð, þá sýnist mér eðlilegra að láta frestunina ekki koma til framkvæmda fyrr en síðar í desembermánuði, en fylgja hinu atriðinu, að láta það ná fram til janúarloka, ef þörf er á henni á annað borð, og í þessu sambandi vildi ég gjarnan spyrja hv. þm., formann fjvn., hvenær fjvn. fari að vinna sín störf. Er ætlazt til, að hún vinni, meðan á þingfrestuninni stendur, eða er nm. frjálst að fara heim til sín eða jafnvel skylt að fara heim til sín og byrja ekki á sínum störfum fyrr en í janúarlok?

Þegar ég ræddi um brbl. á fundi s.l. laugardag, gerði ég þá fsp. til hæstv. landbrh., hvort hæstv. ríkisstj. hygðist leggja bráðabirgðalögin fyrir þing, áður en þingfrestun kæmi til framkvæmda. Þar sem hæstv. ráðh. er staddur hér í hv. deild, vænti ég þess, að hann svari mér öllu gleggra en á laugardaginn, en svörin, sem ég fékk hjá honum þá, voru þau, að ríkisstj. mundi ekki brjóta lög. Ég spurðist þá fyrir um það, hvernig henni mætti takast í framkvæmdinni að fullnægja ákvæðum stjórnarskrárinnar, ef þingið yrði sent heim nú, en lögin falla úr gildi 15. des. Ég ætla, að hæstv. ráðh. hafi þá verið farinn út úr hv. deild, svo að það var kannske ekki við því að búast, að ég fengi svör við þessu þá. Ég vil því endurtaka þetta nú, þar sem hann er hér staddur, hvernig ríkisstj. getur framkvæmt ákvæði stjórnarskrárinnar um að leggja þessi brbl. fyrir þingið, áður en lögin falla úr gildi, ef þingið verður sent heim nú.

Ég vil um leið spyrjast fyrir um það, hvort hæstv. ríkisstj. hugsi sér að setja önnur brbl. í þinghléinu, því að mér er tjáð af lögfróðum mönnum, að það sé talið í samræmi við stjórnarskrána að gera það, þegar forseti fresti þingfundum. Ef þetta hvort tveggja á sér stað, annars vegar að bráðabirgðalög eru ekki lögð fyrir þing, áður en þau falla úr gildi, og hins vegar, að ríkisstj. hafi fulla lagaheimild til að gefa út brbl. í þinghléi, þá sýnist mér möguleiki fyrir hvaða ríkisstj. sem er að stjórna á vissum sviðum eða í vissum málum með brbl. þrátt fyrir þinghald. Og ég vil rifja upp það, sem ég sagði á laugardaginn: Þetta getur gerzt með þeim hætti, að brbl. eru gefin út í september. Þau eru látin gilda til 15. des. Þingi er frestað 30. nóv. Ný brbl., jafnvel samhljóða, gefin út 16. des., þau látin gilda til 30. apríl, án þess að leggja þau fyrir þing, þingi síðan slitið 29. apríl og loks gefin út enn ný brbl. 1, maí. Þetta er hugsanlegur möguleiki, ef farið er að framkvæma þetta á annað borð að leggja brbl. ekki fyrir þing í þingbyrjun og leggja þau ekki heldur fyrir, áður en lögin sjálf falla úr gildi.

Hæstv. fjmrh. var með hóflegar vítur, mjög hóflegar að vísu, en þó vitur í garð okkar, sem töluðum á laugardaginn, og sagði, að við værum að tefja þingið. (Gripið fram í.) Hæstv. forsetar hafa nú sitt vald. Ég fæ ekki skilið, hvernig hæstv. ráðherra getur kallað það, að við séum að tefja þingið, þó að við tölum, eins og þá var, stund úr einum degi, og við skulum segja nú: stund úr tveimur dögum, um það, hversu réttmætt sé að reka þingið heim. Þeir, sem vilja láta þingið starfa, sinna skyldustörfum sínum, koma málum áfram, þeir eru að tefja þingið, segir hæstv. ráðh., en hinir, sem eru nú að hespa af mál til þess að geta rekið þingið heim, þeir eru þá samkvæmt þessari röksemdafærslu að hraða þinginu.

Ég fæ ekki skilið svona röksemdafærslu. Ég hélt þvert á móti, að við, sem viljum láta þingið starfa, afgreiða þau mál, sem er þegar búið að leggja fyrir það, afgreiða þau mál, sem ætlunin er að leggja fyrir það, og vinna yfirleitt þingstörf, eins og þingmönnum er skylt að gera, — ég hélt, að við værum ekki að tefja þing. Nei, ef nokkrir tefja þing, lengja þing og fyrst og fremst auka þingkostnað, þá eru það þeir, sem ætla sér að láta þingmenn fara heim á fullum launum, sitja þar í tvo mánuði og byrja svo að nýju, þar sem frá er horfið í dag. Þetta kalla ég að tefja þing.

En það er fleira en þetta, sem gert er með því að framkvæma slíka þingfrestun sem hér er ætlazt til. Það er verið að hindra þingmenn í því að flytja mál. Þeir gera það a.m.k. ekki þennan tíma, þessa tvo mánuði, sem þeim er ætlað að vera heima, og þeirra mál kunna að komast í þá hættu að daga uppi á þinginu, þegar þau loksins koma fyrir þing í janúar eða febrúar.

Þetta er ein afleiðingin. M.ö.o., það er verið að skerða verulega rétt þingmanna, þingmannsréttinn, það er verið að gera þeim ókleifara að gegna þingmannsskyldum sínum, því að það má hæstv. ríkisstj. og hv. stjórnarflokkar vita, að þm. láta ekki hræða sig til þess að hætta við að flytja mál, þó að þeir verði sviptir möguleikum til að gera það í tvo mánuði.

Hæstv. ríkisstj. hefur að sjálfsögðu leitazt við að rökstyðja það, hvers vegna á að fresta þinginu, og venjulega viðkvæðið er, að hæstv. ríkisstj. þurfi að fá starfsfrið. Nú hefur hæstv. ríkisstj. lýst því yfir, að hún þurfi á þingfrestun að halda, því að hún bíði eftir skýrslum og alis konar greinargerðum frá sérfræðingum sínum í efnahagsmálum. Ég vil því spyrja: Þarf hæstv. ríkisstj. að reka þing heim, til þess að hún hafi frið til að bíða eftir skýrslum? Ja, það má vera meiri ófriðurinn, að hæstv. ríkisstj. hefur ekki frið til að bíða eftir skýrslum frá sérfræðingum sínum, og hver er þessi ófriður? Hann hlýtur að koma frá þingmönnum. Annars þyrfti ekki að losa sig við þá. Ég hef að vísu ekki setið lengi á þingi, en mér hefur virzt, að undanfarandi ríkisstj. hafi getað undirbúið sín mál, tillögur sínar, líka í efnahagsmálum, þótt þing sæti, og aldrei kvartað undan þessum ófriði frá þingmönnum. Ég held, að það liggi ljóst fyrir, að það er ekki vegna neins ófriðar, sem hæstv. ríkisstj. vill fresta þinginu, það er ekki af því, að hún hafi ekki vinnufrið, þó að þing héldi áfram a.m.k. 2–3 vikur, það hljóta að vera aðrir erfiðleikar, sem þessu valda, og það væri skemmtilegra, ef hæstv. ríkisstj. segði alveg hreinskilnislega frá því, af hverju hún vill láta þingið fara heim núna, af hverju hún leggur svo mikið kapp á að afgreiða tekjuöflunarfrv., sem liggja fyrir núna, til þess að hafa möguleika á að fresta þinginu.

Í Morgunblaðinu í gær ræðir sá fulltrúi Sjálfstfl., sem skrifar Staksteina, um þingfrestunina og ýmislegt fleira. Sérstaklega þótti mér ánægjulegt að lesa einn stuttan kafla, sem heitir: Tekið við gjaldþrotabúi. Þessi fáu orð hljóða þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Þegar Hermann Jónasson hljópst frá vandanum 4. des. í fyrra, skildi hann við þjóðarbúið gjaldþrota. Sjálfstæðismenn höfðu þá að undanförnu árangurslaust varað við því, hvað verða hlyti, ef ekki væri að gert. Eftir brotthlaup Hermanns skýrðu þeir fyrir þjóðinni, að verkefni þeirra, sem við ættu að taka, væri nánast hið sama og skiptaráðanda í þrotabúi. Sjálfstæðismönnum var þá þegar vandinn ljós. Þeir hikuðu þó ekki við að bjóða fram forustu sína, ef samkomulag fengist um nauðsynlegar aðgerðir. Þar varð tvenns að gæta: Annars vegar að tryggja að þjóðin sjálf fengi að ráða málum sínum, en til þess varð að gerbreyta kjördæmaskipuninni. Hins vegar þurfti að gera bráðabirgðaráðstafanir til að koma í veg fyrir, að ástandið versnaði í efnahagsmálum, á meðan óhjákvæmilegar ráðstafanir voru gerðar til tryggingar lýðræði í landinu.“

Þetta er svo að segja samhljóða því, sem hv. sjálfstæðismenn hafa skrifað í tvö ár eða uppundir það, og er því ekkert nýtt. Sjálfstfl. skapaði sér einkunnarorð, sem hann barðist undir í kosningunum í haust. Það voru einkunnarorðin: Aldrei aftur vinstri stjórn, m.ö.o.: þetta, sem þessi stutta blaðagrein fjallar um. Að vísu urðu þessi einkunnarorð flokksins ekki ákaflega sigursæl, því að í haustkosningunum töpuðu sjálfstæðismenn fylgi, svo að þúsundum atkvæða skipti, og fengu miklu færri þm. kosna en þeir voru sjálfir búnir að reikna út og tilkynna sínum trúnaðarmönnum úti um allt land.

En það er skylt að líta á þessi ummæli, af því að Sjálfstæðisfl. og reyndar báðir flokkarnir, en sérstaklega Sjálfstfl. leggur á það höfuðáherzlu, að efnahagserfiðleikarnir núna stafi allir frá vinstri stjórninni, en engir frá ríkisstj. Sjálfstæðisflokksmanna og Alþýðuflokksmanna, sem kom á Þorláksmessu í fyrra. Hér er fyrst talað um það, að vinstri stjórnin hafi skilið við þjóðarbúið gjaldþrota. Það munar ekki um það! Ég man þó eftir þremur atriðum úr þessu gjaldþrotatali þeirra sjálfstæðismanna. Ég man eftir því, að þáv. fjmrh. var skammaður afar mikið fyrir tekjuafgang. Ég hef nú ekki fengið frekar en aðrir hv. þm. upplýsingar um, hve tekjuafgangurinn var mikill á árinu 1958, en það urðu allmargir milljónatugir, og hygg ég, að þessi ríkisstj., sem setið hefur síðan í desember í fyrra, hafi lifað á 25 millj. af tekjuafganginum frá vinstri stjórninni. En tekjuafgangurinn í heild var miklu meiri, og af því að hæstv. fjmrh. er ekki farinn að halda sína fjárlagaræðu, þá skortir mig nú þessar upplýsingar eins glöggar og þær gætu orðið. En það var meira en þetta, sem vitnaði um gjaldþrotið. Þessi sama ríkisstj. fékk 30 millj. kr. innstæðu frá vinstri stjórninni, sem stóð hjá Sogsvirkjuninni, til þessara ráðstafana. Þetta er annað atriðið í gjaldþrotinu. Og það þriðja mætti nefna, að vinstri stjórnin var skömmuð fyrir, að það hefðu verið alveg óvenjulegar fiskbirgðir í landinu þá um áramótin. Það var gjaldþrot í lagi hjá vinstri stjórninni. Ætli hæstv. núverandi ríkisstj. yrði ekki fegin, ef hún mætti verða gjaldþrota á þennan hátt?

Þá sagði í þessari grein, sem ég las, að sjálfstæðismenn hefðu varað við því, hvað verða hlyti. M.ö.o.: Sjálfstfl. hefur þá varað við þeirri verðbólgu, sem kom upp úr kauphækkununum sumarið 1958, eftir að þessir tveir flokkar, Sjálfstfl. og Alþfl., voru búnir að vera í bandalagi í verkalýðsfélögunum allt það ár til þess að eyðileggja efnahagslöggjöfina, sem afgr. var vorið 1958. Á þann hátt varaði Sjálfstfl. við! Og þeim tókst þetta, þessum tveim flokkum, að koma af stað uppsögn samninga og nýrri verðbólguöldu, sem gerði efnahagslöggjöf vinstri stj. að engu á skömmum tíma. Þannig varaði Sjálfstfl. við.

Þá talar Sjálfstfl. um það, að hann sé nokkurs konar skiptaráðandi í þrotabúi vinstri stj. Það fer vel á því, að hæstv. fyrrv. forsrh. hlustar á það, þegar ég er að rifja upp skrif Morgunblaðsins um þrotabú vinstri stj. Hvernig skipti hann þrotabúinu? Hvenær fóru fram skiptin? Fóru þau ekki fram á Þorláksmessu í fyrra? Þá hefur skiptaráðandinn setið að störfum, og skiptin urðu þessi, sem ég rifjaði upp áðan, að efnahagsmálastefnan, sem sú stjórn fór eftir, var lögð fyrir Alþfl. af Sjálfstfl. M.ö.o.: stefnuna átti Sjálfstfl., ráðh. átti Alþfl. Þetta hefur verið fyrst og fremst verkefni skiptaráðandans, sem Morgunblaðið er að tala um, því að ekki þurfti hann að skipta á milli flokkanna öðru en völdum og vegtyllum á þeim tíma. Hitt fór ekki svo mjög til skipta, 25 millj. kr. tekjuafgangurinn eða sá hluti af tekjuafganginum 1958, sem fór í verðbólguhítina, og 30 millj, kr. innstæðan frá Sogsvirkjuninni. Það fór ekki til skipta, það fór beint í þessa hít, sem myndaðist við verðbólguölduna upp úr kauphækkunarkröfum þessara tveggja flokka frá sumrinu áður. Morgunblaðið segir, að Sjálfstfl. hafi boðið fram forustu sína. Það mun vera rétt. Hann fékk ekki sjálfa forustuna í stjórnarráðinu, en hann fékk hana á hinn háttinn, að ráða stefnunni.

Þá segir í þessari grein, að meðal þeirra nauðsynlegu aðgerða, sem þurfti að fást við, var að tryggja það, að þjóðin sjálf fengi að ráða málum sínum, en til þess varð að gjörbreyta kjördæmaskipuninni. Þjóðin réð nefnilega ekki málunum áður, eftir því sem Sjálfstfl. segir. Nú ræður hann þeim. Hvernig? Með því að senda þingið heim. Þannig framkvæmir Sjálfstfl, þá hugsjón sína að láta þjóðina ráða málum sínum. Nú er það að koma í framkvæmd. Hins vegar þurfti að gera bráðabirgðaráðstafanir til að koma í veg fyrir, að ástandið versnaði í efnahagsmálum, á meðan óhjákvæmilegar ráðstafanir væru gerðar til tryggingar lýðræði í landinu. Hvaða bráðabirgðaráðstafanir voru þetta, sem Sjálfstfl. framkvæmdi til að koma í veg fyrir það, að ástandið versnaði? Það hefur hv. 9. landsk. þm. (JÞ) upplýst núna. Það var að gefa út brbl. um verðlag landbúnaðarafurða til þess, eins og hann orðaði það, að verkalýðsfélögin fengju ekki færi á kauphækkunum, eins og hann sagði hér í ræðunni áðan.

Mér sýnist, að það verði erfitt fyrir Sjálfstfl. að koma þjóðinni í skilning um það, að vinstri stj. hafi verið gjaldþrota, að erfiðleikar efnahagsmálanna stafi frá vinstri stj., nema að því leyti sem Alþfl. var í bandalagi við Sjálfstfl. til að koma þeim erfiðleikum af stað. Og ég er líka hræddur um, að þetta bjargráð með brbl. um landbúnaðarverð, sem eigi að tryggja það, að verkalýðsfélög fái ekki færi á kauphækkunum, það úrræði reynist harla léttvægt, þegar til alls kemur.

En Sjálfstfl. og aðalmálgagn hans, Morgunblaðið, leggja, sem eðlilegt er, mikla áherzlu á að sýna þjóðinni fram á þá samstöðu, sem nú er orðin milli tveggja flokka, og það öryggi, sem nú sé fram undan.

Í Morgunblaðinu í gær er talað um, að nú sé öruggur þingmeirihluti, samstæðari en oftast áður, alveg gagnstætt því, sem verið hefur. Ég vefengi þetta ekki, að þessir tveir flokkar, Alþfl. og Sjálfstfl., eins og nú er komið, séu alveg ótrúlega samstæðir og að engir tveir flokkar á Alþ. séu orðnir skyldari en þeir. Hitt er allt annað mál, hvort sú samstaða getur brugðizt eða ekki. Það hefur komið fyrir, að jafnvel skyldleikinn dugir ekki til.

Morgunblaðið segir líka frá því í gær og leggur á það áherzlu, að nú sé nauðsynlegt að gera öllum aðilum grein fyrir ástandinu, hvernig það er. Já, það vantar nú ekkert á það, að hæstv. ríkisstj. geri það nú! Ég vil ekki fara að deila á hæstv. núverandi fjmrh., þó að hann sé ekki orðinn það kunnugur þessum málum uppi í rn., að hann geti fullnægt óskum manna í öllum efnum í þessu. Hann hefur ekki gegnt því embætti svo lengi. En flokkarnir tveir hafa óneitanlega verið saman um ríkisstj. síðan á Þorláksmessu í fyrra og hafa að sjálfsögðu haft samráð í efnahagsmálunum allan tímann. Og ég efast ekki um, að sú meðferð, sem bændurnir hafa fengið hjá þessari ríkisstj., sem verið hefur, er ráðin af báðum þessum flokkum. Hjá því getur ekki farið. Það kom líka fram sem eitt af fyrstu verkum ríkisstj. eftir áramótin í fyrra, að þá voru ákveðnar svo gífurlegar niðurgreiðslur á landbúnaðarvörum, að þær urðu ódýrari úr búð en það verð, sem bændurnir áttu að fá. Það var orðið ódýrara fyrir bændurna að kaupa mjólk, kjöt og kartöflur út úr búðinni heldur en að neyta á heimili sínu sinnar eigin framleiðslu. Og þetta hafði þær verkanir, að raunverulega voru bændurnir að neyta dýrari vöru heima hjá sér en nokkurt annað fólk í landinu, að undanteknum þeim sárafáu bændum, sem búa það nálægt markaði, að þeir geta flutt allar vörur sínar í kaupstað og keypt bær út aftur, sem munu vera dæmi til og það ekki óeðlilegt, enda sjálfsagt ekkert lagabrot, heldur fyllilega réttmætt.

Það kom líka fram við afgreiðslu frv. um niðurfærslu verðlags og launa í fyrravetur, að þá stóðu þessir flokkar sannarlega saman um afstöðuna til bænda. Þá hafði bændastéttin farið fram á það við hæstv. ríkisstj., að leiðrétt yrði afurðaverðið í samræmi við þær kauphækkanir, sem urðu um haustið, eftir að landbúnaðarverð hafði verið ákveðið í sept. Gegn þessu stóðu þessir tveir flokkar, stjórnarflokkarnir þá, og neituðu bændunum um þessa leiðréttingu.

Þriðja atriðið í þessu máli gerist svo, þegar fulltrúar neytenda, verkalýðsfélaganna, í framleiðsluráði neita að tilnefna mann í gerðardóminn, en þessir 3 fulltrúar neytendanna voru fylgismenn þessara flokka, tveir Alþfl.-menn og einn sjálfstæðismaður. Og það þarf enginn að segja mér, að þessir fulltrúar hafi tekið það upp hjá sjálfum sér að taka svo mikilsverðar ákvarðanir nema hafa ráðgazt við húsbændur sína, sjálfa ráðh. Síðan komu brbl. En þá vandaðist málið fyrir Sjálfstfl. Að vísu gat Sjálfstfl. náttúrlega snúizt gegn brbl., og sumir eru þeirrar skoðunar, að hann hafi verið á móti þeim, þegar þau voru sett. Ég á bágt með að trúa því, að hæstv. þáverandi forsrh. og form. Alþfl. hafi leyft sér að gefa út brbl., sem hann hafði ekki nema 6 þm. til að standa með, eins og þá var ástatt. Ég á bágt með að trúa því. Og það væri æskilegt að fá að heyra það frá réttum aðilum, hvort svo hefur verið.

En svo skeði þetta, að Sjálfstfl. gefur út yfirlýsingu sína um það, að hann sé móti brbl. og að hann muni tryggja bændum fullar bætur vegna þeirra laga. Mér hefur dottið í hug, og ég er mjög trúaður á, að það sé rétt, að ástæðan fyrir því, að brbl. eru ekki lögð fyrir þingið núna, sé sú, hversu erfitt það er fyrir Sjálfstfl. að eiga að fara að greiða atkv. hér í þinginu um lög, sem hann segist hafa verið á móti, en málið að öllu öðru leyti óleyst og engar ráðstafanir komnar í staðinn. Þetta er erfið aðstaða.

En þegar nú þm. halda heim, þá verður mér hugsað til hv. nýkjörinna þm. Sjálfstfl. úr bændastétt, hvað þeim verður að orði, þegar þeir koma heim í sveit sína. Þeir eru að vísu ekki margir, 2 eða 3, en vafalaust verða þeir spurðir út úr. Þeir verða spurðir frétta. Hvað er að frétta af þinginu? Ósköp komið þið fljótt heim. Er ekki búið að borga ykkur afurðaverðið, sem var svikið af okkur í haust með brbl.? Getum við nú ekki notað aurana fyrir jólin? — Já, það verður vafalaust spurt að mörgu og það er ekki óeðlilegt, því að menn vilja fá fréttir af þessu. Hver svörin verða, veit ég ekki. — Komnir heim! Þinginu var frestað. — Hvað kemur til? Þegar þm. eru orðnir 60 og þingið orðið loksins skipað í samræmi við þjóðarviljann, þá er það sent heim. — Já, ríkisstj. þurfti að hafa frið. — Frið? — Já, hún þurfti að hafa starfsfrið. — Hún er að bíða eftir skýrslu frá sérfræðingum. — Og að borga þarna það, sem á vantaði afurðaverðið? — Ja, það er nú ekki gaman að borga núna. Það kvað vanta 250 millj. upp á ríkissjóð og útflutningssjóð. Það var sagt niðri í Varðarhúsi, en það hefur nú ekki verið sagt frá því á Alþ.

Hverju geta þm. svarað yfirleitt, þegar þeir koma nú heim? Ég hygg helzt, að þeir verði sannarlega ekkert öfundsverðir af því að koma nú heim í heiðardalinn með þessar fréttir. En ég vona samt, að heimferðin gangi vel fyrir þeim öllum, þó að það verði erfitt að greina frá þingfréttunum, þó að það verði erfitt að skýra þjóðinni frá því, hvaða vinnubrögð eru nú tekin upp á Alþ., einmitt nú, þegar þingið átti að vera loksins kjörið samkv. þjóðarviljanum, eins og núverandi hv. stjórnarflokkar hafa túlkað það.