26.11.1959
Efri deild: 3. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 175 í C-deild Alþingistíðinda. (2244)

9. mál, tollskrá o.fl.

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Í frv. þessu felst framlenging fyrir næsta ár á ýmsum breyt. við tollskrárlögin frá 1954, sem undanfarið hafa verið framlengdar frá ári til árs. Í 1. gr. eru ákvæði um álag á vörumagnstoll og verðtoll, sem hafa haldizt óbreytt síðan á árinu 1956, þá var álagið hækkað nokkuð frá því, sem verið hafði áður. Í 2. gr. eru taldar vörur, sem eru undanþegnar þessu álagi, en það eru ýmsar nauðsynjavörur og einkasöluvörur. Í 3. gr. er loks heimilað að fella algerlega niður ekki aðeins álagið, heldur aðflutningsgjöld af tilteknum vörum, svo sem kornvörum, kaffi, sykri o.fl.

Frv. felur sem sé í sér framlengingu á sömu ákvæðum og gilt hafa undanfarin ár og verið framlengd frá ári til árs. Ég legg til, að frv. verði vísað til 2. umr. og fjhn.