01.02.1960
Neðri deild: 20. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 185 í C-deild Alþingistíðinda. (2269)

19. mál, áætlunarráð ríkisins

Flm. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Ég hef áður flutt svipað mál þessu hér á Alþ. og skal nú gera nokkra grein fyrir, hvers vegna ég álít það alveg sérstaklega brýnt, að þessi hv. d. verði nú við því að samþykkja þetta mál.

Það er ljóst af öllu því, sem nú er að gerast í þjóðfélagi okkar, að við stöndum á vegamótum og ákvörðun verður tekin um það nú á þessu þingi, hvort stigin skuli spor aftur á bak, hvað snertir þróun atvinnulífs á Íslandi og skipulag á okkar þjóðarbúskap, eða hvort stigin skuli spor, sem liggja áfram. Og þetta frv., sem hér liggur fyrir, fjallar um það, að það skuli verða stigin spor fram á við með því að koma upp áætlunarráði, sem skipuleggi okkar búskap, en þó alveg sérstaklega fjárfestinguna í landinu og uppbyggingu atvinnulífsins, og skipuleggi þjóðarbúskapinn með hagsmuni almennings í landinu fyrir augum.

Þegar ég legg fram mín rök fyrir þessu máli, mundi það vera fyrst að greina þau almennu rök sósíalismans fyrir skipulögðum þjóðarbúskap í andstöðu við stjórnleysi auðvaldsskipulagsins. Ég ætla ekki að gera þetta sérstaklega að umtalsefni nú, sökum þess að ég hef oft áður rætt þá hlið málsins, enda mundi það ekki eiga við nema að nokkru leyti, þar sem ekki er lagt til með þessu frv. að taka upp sósíalistíska búskaparhætti á Íslandi, en stiga hins vegar spor í þá átt, sem fjölmörg önnur, líka önnur auðvaldsþjóðfélög hafa stigið á síðustu áratugum.

Það er hitt, sem ég vil leggja meira upp úr sem rökum í sambandi við þetta mál, að hér á Íslandi hagar svo sérstaklega til, að ef við ætlum að láta þessa þjóð búa við batnandi lífskjör og afkomuöryggi, þá á hún einskis annars úrkost til þess að hagnýta alla þá möguleika, sem nútímaatvinnulíf felur í sér, en að gera það beinlínis af alþjóðlegum og þjóðlegum ástæðum að taka upp meira eða minna heildarstjórn á þjóðarbúskap okkar, og fram á það er ég að fara með þessu frv. Þetta er ekki neitt nýtt. Það hefur verið svo frá upphafi, að við Íslendingar fórum að hugsa um okkar stjórnmál út frá okkar þjóðlega sjónarmiði, að atvinnuvegirnir og það, hvernig þeim vegnaði, hefur verið höfuðáhugamál íslenzkra stjórnmálamanna, og það hafa vart verið þeir stjórnmálamenn til á síðustu öldum, sem nokkuð hefur kveðið að í íslenzkum stjórnmálum, sem hafa ekki skilið þetta. Orsökin til þess er sú, að hér á Íslandi, þar sem við byggjum landið, eins og oft er talað um, á yztu mörkum hins byggilega heims, þar er svo erfitt að stunda atvinnu og byggja atvinnulífið upp, að það verður í sífellu að sameina alla beztu krafta þjóðarinnar og þar með auðvitað alveg sérstaklega kraftana á stjórnmálasviðinu að því að vinna að þessum uppbyggingarmálum. Þjóðin gæti ekki lifað í þessu landi, að minnsta kosti ekki neinu mannsæmandi lífi, nema svo framarlega sem öllum hennar beztu kröftum á öllum sviðum og þá fyrst og fremst stjórnmálasviðinu væri beitt að hennar atvinnulífi, að hennar atvinnulíf yrði sem sterkast og bezt og fólkinu, sem að því ynni, mætti vegna sem bezt. Þetta stafar eðlilega af þeirri ástæðu, að hér erum við nýlenda í sex aldir, og þegar við byrjum að heyja okkar sjálfstæðisbaráttu, okkar raunverulegu stjórnmálabaráttu, beita allir forustumenn þjóðarinnar í hennar stjórnmálum sér að því að reyna að vinna upp atvinnulíf okkar. Hér var þjóð, sem var næstum að því komin að deyja út, þjóð, sem þurfti að byggja upp í landinu atvinnulíf, sem lagt hafði verið í rústir, þurfti að skapa nýja atvinnuvegi, þurfti að hrista af þeim erlenda áþján, þurfti að taka við landi, sem var bláfátækt og rúið eftir margra alda nýlendukúgun. Það var þess vegna alveg óhjákvæmilegt, að áhugi íslenzkra stjórnmálamanna snerist frá upphafi að því að byggja atvinnulífið upp, og það þýddi að beita sameiginlegum kröftum þjóðarinnar, og þegar við að einhverju leyti fórum að ráða ríkisvaldi okkar sjálfir, þá að beita áhrifum okkar ríkisvalds til þess að byggja atvinnulífið upp.

Það er engin tilviljun í íslenzkum stjórnmálum, að menn eins og Eggert Ólafsson, brautryðjendur í þjóðfrelsisbaráttu okkar, hafa áhuga fyrir því og yrkja jafnvel lofbragi, þegar byggðir eru fyrstu bátar til þess að fara að gera hér út á 18. öld. Það er engin tilviljun, að einn bezti brautryðjandinn í stjórnmálabaráttu okkar, Baldvin Einarsson, skrifar í Ármann á Alþingi ekki bara um stjórnmál Íslendinga, heldur um tóvinnu, um garðrækt, um hvernig fara skuli með skinn, vegna þess að til þess að hægt sé að reisa þjóðina við, þarf að kenna henni, hvernig hún eigi að byggja atvinnulíf sitt upp. Og það er engin tilviljun, að sjálfur Jón Sigurðsson skrifar litla fiskibók til þess að kenna fiskimönnum á Íslandi, hvernig þeir skuli reka sinn starfa, og það fyrir réttum 100 árum. Það var þjóðleg þörf á því, að allir þeir menn, sem vildu vinna að því að skapa þjóðinni frelsi, skapa henni viðunandi lífskjör, þeir beittu öllum sínum áhuga að því að vinna upp atvinnulíf okkar. Þess vegna hefur það verið svo, að íslenzk þjóð hefur frá upphafi, að hún fór að hugsa um sín stjórnmál og beita áhrifum sínum á eigið ríkisvald, fundið til þjóðlegrar þarfar á því, að ríkið léti mál atvinnulífsins til sín taka. Þjóðin hefur frá upphafi ætlazt til þess, að Alþingi léti þessi mál til sín taka og beitti sér fyrir því, að atvinnulífið á Íslandi gæti orðið þannig, að það stuðlaði beinlínis að því, að þjóðinni liði vel, að alþýðu landsins vegnaði vel og sífellt betur og að atvinnulífið væri þannig, að það skapaði þjóðinni öryggi og möguleika til að lifa. Við vitum ósköp vel, hvað blasað hefur við á þessu landi, ef slíkt hefur ekki verið gert. Það hefur blasað við landflótti, það hefur blasað við, að fólkið færi burt til annarra heimsálfa, og við vitum, að það blasir við hvenær sem er, svo framarlega sem stjórnmálamenn á Íslandi standa ekki í sinni stöðu. Þetta hefur þjóðin alltaf skilið. Þess vegna hafa þær stjórnir orðið vinsælastar á Íslandi, sem hafa gert mesta hluti að því að byggja upp atvinnulíf þjóðarinnar fyrir framtak ríkisins. En hver sú stjórn þykir ómöguleg og ill, sem lætur atvinnulífið dragnast niður og beitir ekki skynsamlegum afskiptum ríkisins til þess að vinna það upp. Það er svo, að stjórnmálamenn á Íslandi eru kosnir til þess að stjórna íslenzkum þjóðarbúskap, og láti stjórnmálamenn það undir höfuð leggjast, verða þeir ekki lengi stjórnmálamenn eftir það.

Það er hægt að reka pólitík í öðrum löndum án þess að skeyta sérstaklega mikið um þetta. Í ríku landi eins og t.d. Englandi, þar sem fyrir tveimur öldum kemur upp rík borgarastétt, sem safnar sér auði af svita ensks verkalýðs og af gróðanum á nýlendunum um víða veröld, einn fjórði hluti heimsins heyrði næstum því undir það vald í byrjun þessarar aldar, — þegar slíkt gífurlegt auðmagn sem safnaðist saman í höndum brezkrar borgarastéttar safnast saman í höndum einnar einustu lítillar, fámennrar stéttar og þegar þeir, sem ráða því einkaauðmagni, eiga öll fyrirtæki landsins að heita má, þá segir slík stétt, slík auðmannastétt sem í Bretlandi: Ég vil ekki hafa með nein afskipti ríkisins af mínum málum að gera, ríkið getur séð um að halda uppi lögreglu og her til þess að standa á móti nýlenduþrælunum, ef þeir rísa upp, eða verkamönnunum í Bretlandi, ef þeir gera kröfur til lífsins, en ég skal sjá um mitt atvinnulíf, og ég vil stjórna því ein og án afskipta ríkisins. — Það var afstaða brezkrar borgarastéttar, sérstaklega um miðja 19. öld, er hún var ein voldugasta allra auðmannastétta í allri veröldinni. Hún ætlaði að stjórna þessu sjálf, og stjórnmálamennirnir áttu ekki að koma nærri því. Þeir áttu bara að vera eins og næturverðir fyrir hana, bara að sjá um að halda vinnandi stéttunum niðri. Það hefur aldrei verið skapað neitt samsvarandi einkaauðmagn á Íslandi, og þótt lítil tilraun hafi verið gerð í þá átt, hefur hún misheppnazt, eins og ég skal koma að. Það hefur aldrei verið til á Íslandi neinn grundvöllur fyrir því að ætla að segja t.d. við borgarastétt hér á Íslandi: Ég vil ekki hafa, að ríkið skipti sér af atvinnulífinu. — Í það eina skipti, sem veik borgarastétt á Íslandi reyndi það, varð hún að koma hlaupandi til ríkisins á eftir til að biðja um afskipti.

Það er nauðsynlegt, að menn geri sér þetta ljóst, til þess að það sé skýrt fyrir mönnum, af hverju það er sérstök nauðsyn í því Íslandi, sem nú er, að taka upp áætlunarbúskap. Það er slagorð, sem er notað mikið nú á tímum, að hér eigi að koma á frjálsu efnahagslífi, heyrist jafnvel nokkuð mikið þessa dagana og mest talað um það af þeim mönnum, sem hafa ekki hugmynd um, hvað það er eða hvernig það verkar, nokkrum unggæðingum, sem ekkert þekkja inn á íslenzka sögu. Það var gerð lítil tilraun af hálfu íslenzkrar borgarastéttar eftir 1918, að við öðluðumst fullveldi. Sú tilraun fór endanlega um koll í heimskreppunni 1930. Það, sem var ekki gjaldþrota og gert var upp með skuldaskilasjóðum, eins og settir voru bæði gagnvart útvegsmönnum og bændum á þeim árum, af því að báðar stéttirnar voru orðnar eignalausar, það, sem ekki fór á hausinn opinberlega, var ekki sett á hausinn, vegna þess að þá hefði þjóðfélagið sjálft farið á hausinn. Ríkustu og voldugustu fyrirtækin í landinu, eins og Kveldúlfur og Alliance, sem höfðu náð lengst hvað auð snertir, sem hin svokölluðu auðfyrirtæki í frjálsu efnahagslífi hafa náð á Íslandi, urðu raunverulega bæði gjaldþrota í heimskreppunni, en voru ekki gerð upp, sakir þess að þá hefði Landsbankinn og þjóðfélagið þar með orðið gjaldþrota líka. Og einmitt sjálfur núv. forsrh. varð fyrstur manna á Íslandi til þess 1932 í desember, í fyrsta skipti sem hann varð ráðherra, að láta þann fiskhring, sem Kveldúlfur og Alliance höfðu myndað þá og réðu, fara til ríkisins og láta ríkið taka og nota vald sitt til þess að halda þeim fiskhring uppi. Íslenzk borgarastétt hljóp til ríkisvaldsins til þess að skapa ríkiseinokun til að láta ekki leifarnar af sínu eigin skipulagi verða gjaldþrota.

Við höfum reynt þetta frjálsa efnahagslíf á Íslandi. Það hefur orðið að bjarga því undan algeru gjaldþroti með því að láta ríkisvaldið taka það að sér, og síðan hefur enginn maður á Íslandi reynt, engum stjórnmálamanni dottið í hug í alvöru að innleiða slíkt ídjótaskipulag hér á Íslandi aftur. Ég tek fram, að það hefur engum íslenzkum stjórnmálamanni dottið það í hug. Ég reikna ekki með því, þó að einstaka stjórnmálamenn kunni núna að hafa einhverjar tilhneigingar til þess undir erlendum áhrifum að reyna að fara að neyða slíku skipulagi upp á íslenzka þjóð. Þeim hefur aldrei dottið það í hug sjálfum, svo vitlausir eru fæstir íslenzkir stjórnmálamenn. Það er aðkomið, þegar mönnum dettur í hug að fara að berjast fyrir slíku. Og af hverju er það aðkomið? Það er aðkomið vegna þess, að það er enginn efnahagslegur grundvöllur til fyrir slíku skipulagi á Íslandi. Grundvöllurinn fyrir svokölluðu frjálsu efnahagslífi er, að einstakir aðilar, einstakir atvinnurekendur eigi fjármagn sjálfir til þess að eiga og reka atvinnufyrirtæki þjóðarinnar. Þessi grundvöllur er ekki til á Íslandi. Ég veit ekki betur en atvinnulíf Íslands, eins og það hefur verið byggt upp eftir 1944, hafi verið byggt upp af ríkinu og að svo miklu leyti sem ríki og bæir eiga það ekki sjálf, hafi ríkið látið ríkisbankana lána einstökum atvinnufyrirtækjum og einstökum atvinnurekendum upp í 75–80% af andvirði þeirra tækja, sem þessum einkaatvinnurekendum er lofað að láta heita, að þeir eigi að nafninu til. Og ekki nóg með það, að stofnlánin hafi verið veitt til þeirra þannig af ríkinu, heldur hefur allan þennan tíma orðið að veita þeim rekstrarlán af ríkinu líka og þar að auki lengst af orðið að taka ríkisábyrgð á öllum þeirra rekstri. Ef einhver prívatkapítalisti úti í Evrópu væri spurður að því, hvort þetta væri prívatkapítalistískt skipulag, mundi hann hrista höfuðið og segja nei. Hér er það ríkið, sem hefur látið einstaklingana reka þetta allt sjálft raunverulega meira eða minna, stofnlánin og rekstrarlánin til þess. Hvað margir einkaatvinnurekendur á Íslandi í dag mundu geta rekið sín fyrirtæki, eða sem kölluð eru þeirra, án láns, stofnlána eða rekstrarlána frá bönkum ríkisins? Einmitt vegna þess, að sá grundvöllur er ekki til á sama hátt og hann er til t.d. í Bretlandi og slíkum löndum, eins og ég lýsti áðan, er það algerlega óeðlilegur hlutur og aðeins hugmyndir manna, sem litla hugmynd hafa um íslenzkt atvinnulíf, að láta sér detta í hug að fara að reyna að koma slíku skipulagi á á Íslandi. Það er í mótsetningu við allan grundvöll íslenzks þjóðhagslífs. Þó að ungum mönnum, sem hafa lært erlendis, kynnzt þjóðfélagi eins og það er þar, sem gífurlegt einkaauðmagn á sér stað, detti kannske í hug að fara að fara eftir slíku og fara að innleiða slíkt skipulag hér, eiga íslenzkir stjórnmálamenn að vita betur og ekki að láta gera íslenzkt þjóðfélag og íslenzka þjóð að tilraunadýri fyrir slíkar útlendar og úreltar kenningar, sem hér hafa engan grundvöll. Verði slíkt gert, mundi það sýna sig brátt, að íslenzkt þjóðfélag hristir þess háttar af sér, því að af öllum slíkum tilraunum mundi aðeins leiða það að rýra stórkostlega lífskjörin og hrinda Íslandi aftur á bak í þess þróun.

Frumvarp mitt er þess vegna flutt með það fyrir augum, að það geti nú legið fyrir Alþingi um leið og e.t.v. koma fram einhver önnur mál, stefnumál til lausnar okkar efnahagsmálum, hvort við eigum að stíga áfram í þá átt að sameina krafta þjóðarinnar um viturlega og skipulega uppbyggingu á atvinnulífinu og hverfa frá þeim tilraunum, sem nú er talað svo mikið um að reyna að fara að innleiða hér og úrelta búskaparhætti. Það tvennt fyrst og fremst, sem í þessu frv. felst, er í fyrsta lagi sú einbeiting og sú yfirsýn um stjórn á atvinnumálum, sem felst í því að koma upp áætlunarráði með því valdi, sem því er gefið, og svo í öðru lagi, eins og ég mun koma að síðar, viss hagsmunamál alþýðunnar.

Hvað snertir þá skipulagningu, sem í þessu felst, er rétt að vekja athygli á því, eins og ég býst við að flestum hv. þdm. sé ljóst, að skipulagning í stórum stíl er höfuðeinkenni á allri atvinnuþróun 20. aldarinnar, hvort heldur er í auðvaldsþjóðfélögum, að ég tali ekki um í sósíalistískum þjóðfélögum. Það er alveg óhjákvæmilegur hlutur, svo framarlega sem eitt þjóðfélag á að njóta í fyllsta mæli þeirrar tækni, sem er undirstaða að öllu okkar efnahagslífi nú á tímum, að þetta sé skipulagt í stórum stíl og með mikilli yfirsýn. Það er aðeins um tvennt að ræða, ef ein þjóð á að njóta þessa. Það er, að þetta sé annaðhvort skipulagt af þjóðinni sjálfri með heildarsamtökum þjóðarinnar, og geta þá allar stéttir komið þar til, ef vill, eða þá, að þetta sé skipulagt með einræði nokkurra einstaklinga yfir atvinnulífinu. Það, sem gerzt hefur, við skulum segja í löndum eins og Bandaríkjunum eða Bretlandi, er, að atvinnulífið þar hefur á þessari öld verið skipulagt af örfáum voldugum auðhringum. Í Bandaríkjunum eru það nokkrir tugir fyrirtækja, sem ráða yfir yfirgnæfandi meiri hluta af öllu fjármagni landsins og þar með yfir öllu atvinnulífi landsins. Og þessir auðhringar eru engin smábákn í skipulagningu. Fyrirtæki eins og Standard Oil eða önnur slík eru fyrirtæki, sem eru gífurlega vel skipulögð. Við skulum gera okkur ljóst, að til þess að hagnýta sér tækni nútímans hefur auðmannastéttin beitt beztu heilum, sem hún á, til þess að skipuleggja það atvinnulíf, sem hún ræður yfir, sem bezt.

Til þess að við gerum okkur ljóst, af því að við eigum svo mikið undir öllum heimsmarkaðinum og þurfum að berjast þar, hvað við erum smáir og hvað við þurfum á því að halda, að við séum vel skipulagðir, skal ég nefna sem dæmi, að eingöngu Kodak-hringurinn ameríski notar eins mikið fé á ári í tilraunir sínar í öllum sínum tilraunastöðvum, þar sem hann fæst við, eins og menn vita, að útbúa og undirbúa filmur og annað slíkt, eins og öll þjóðarframleiðsla okkar Íslendinga er. Þessar risavöxnu skipulagsheildir, sem nútímaauðhringar eru, eru eins og heil stór þjóðfélög, skipulögð, þar sem meira vald er í höndum þeirra manna, sem því stjórna, en nokkurn tíma í höndum einvaldskonunga, meira að segja á tímum Lúðvíks 14.

Hver var þróunin í atvinnulífi Íslands, á meðan því var lofað að vera frjálst? 1929 ráða Kveldúlfur og Alliance yfir 90% af öllum útflutningi Íslands. Ef þessi fiskhringur þeirra hefði átt að hafa einhverja möguleika til þess að standast í þeirri kreppu, sem þá sótti að, efast ég ekki um, að þróun hans hefði orðið sú í krafti valds yfir gjaldeyrinum að leggja undir sig innflutningsverzlunina til Íslands, fyrst olíuna og veiðarfærin og annað slíkt og búa til sterkan hring á Íslandi, sem væri sem allra bezt skipulagður til þess að geta staðizt í baráttunni á heimsmörkuðunum. Það hefði orðið þróun atvinnulífsins. Það var kosið hitt. Vegna þess að það sýndi sig, að íslenzkt atvinnulíf var of veikt til þess að standa á fótum auðvaldsins, fóru forustumenn þessara hringa til ríkisins og sögðu: Við skulum láta ríkið setja fæturna undir þetta atvinnulíf okkar, til þess að það geti staðizt. Það var skynsamlega að ráði farið hjá þeim. Þeir sáu, að í auðvaldsskipulögum veraldarinnar var engin von til þess, að Ísland með óheftu auðvaldsskipulagi, með frjálsri samkeppni gæti orðið annað en dvergur, sem væri trampaður undir af risunum, auðhringunum voldugu úti í heimi. Og við vitum ósköp vel, að Íslendingar hefðu aldrei sætt sig við það, að stór hringur fárra manna eða fárra fjölskyldna hefði sölsað undir sig allt atvinnulíf í landinu. Eins og maður heyrir röddina stundum núna, jafnvel hjá Sjálfstfl., þegar hann er að tala um auðhringa, þá gæti maður trúað, að það hefði jafnvel komið þar líka hljóð úr horni, ef þróunin hefði átt að vera slík.

Það er þess vegna enginn efi á því, að sú þróun, sem orðið hefur í voldugum og stórum þjóðfélögum eins og Bandaríkjunum, gæti ekki staðizt hér á Íslandi, íslenzk þjóð mundi ekki sætta sig við hana. Þess vegna hefur íslenzk þjóð nú, frá því að hún fékk reynsluna af kreppunni 1930 og þar á eftir, í 30 ár ekki látið sér detta í hug að hverfa aftur að því óhefta einkaframtaki, eins og það var kallað og eins og sumir jafnvel eru að reyna að kalla það enn. Til þess að atvinnulíf á Íslandi gæti staðizt og þróazt, til þess að atvinnulífið á Íslandi gæti tekið framförum, hefur orðið að beita valdi ríkisins og það í fyllsta mæli, og vinsælustu og voldugustu átökin, sem gerð hafa verið í þessari 30 ára sögu, hafa verið þau, þegar valdi ríkisins hefur verið beitt skipulagt til þess að byggja atvinnulífið upp og til að stjórna því. Og það lítið, sem til er af einkafyrirtækjum á Íslandi, þau eiga slíku framtaki það að þakka, að þau yfirleitt geta starfað.

Hins vegar er nauðsynlegt að gera sér ljóst, að það er óhugsandi að framkvæma þessi afskipti ríkisins og þessa uppbyggingu á atvinnulífinu, svo framarlega sem ríkið hefur ekki nokkurn veginn eftirlit og yfirstjórn á allri fjárfestingu. Það er það fyrst og fremst, sem er grundvöllurinn að því að gera mögulegt, að ríkisvaldið geti haft slík afskipti, og á því hlýtur alveg sérstaklega að byggjast, að slík afskipti geti komið að notum. Það, sem hefur verið meinið allan þann tíma, sem afskipti ríkisins hafa verið svona rík, hefur verið það, að þetta hefur ekki verið skipulagt með hagsmunasjónarmið þjóðarheildarinnar fyrir augum. Það hefur ekki nema einstaka sinnum verið beitt það jákvæðum afskiptum þarna, verið tekið það skapandi höndum á þessu, að verulega vel færi. Löngum hafa þessi afskipti ríkisins komið fram eingöngu í neikvæðum höftum og gætt ýmissa mistaka í því sambandi, sem ég skal ekki fara út í nú.

Eitt af því, sem af þessu hefur leitt, hvernig yfirsýn hefur vantað í þessum afskiptum, er það, að með eins gífurlegri fjárfestingu og við höfum haft hér á Íslandi þessi síðustu ár, allt upp í 33%, hefur vegna þess, að þessari fjárfestingu hefur ekki verið stjórnað vísvitandi af ríkisvaldinu og skipulögð vísvitandi af því, allt of mikið af þessari fjárfestingu farið þannig, að hún hefur ekki orðið til þess að auka afköst þjóðarinnar í atvinnulífi hennar. Það er það, sem verður að gerbreyta. Ef við héldum slíku áfram, eins og að láta — við skulum segja 25–30% af öllum okkar þjóðartekjum, eins og þær eru nú, upp undir 1600 millj. kr. á ári fara til fjárfestingar, yrðum við að tryggja, að það yrði aldrei minna en 10% af þjóðartekjunum, eða rúmur þriðjungur af slíku, sem færi beinlínis í það að auka þau atvinnutæki, sem gefa okkur gjaldeyri eða spara okkur gjaldeyri. Þess vegna þarf að hugsa fyrir fram hugsa stórt með yfirsýn yfir þarfir atvinnulífsins í þessum hlutum og hugsa alllangt fram í tímann, allt upp undir 5–10 ár. Það er það hörmulega, sem við höfum reynt, að jafnvel tillögur, sem gerðar voru hér, eins og 1947 í ársbyrjun um að ljúka við uppbygginguna á sjávarútveginum og geta á seinni tíma, með 5 ára áætlun frá 1951–56, hafizt handa um stóriðju á Íslandi, — af því að horfið er burt frá áætlunarbúskap eða frá því að efla hann, er allt slíkt vanrækt og við stöndum í dag í sömu sporunum hvað undirbúningsleysi snertir í þessum málum og við stóðum fyrir 13 árum.

Það er þess vegna fyrir þjóðarheildina alveg óhjákvæmilegt, að hér séu stigin spor fram á við og farið að þeim tillögum, sem ég er með í þessu frv., að koma upp áætlunarráði með því valdi, sem það hefur, og útbúa þær áætlanir, sem þar er gert ráð fyrir. Það er þjóðarþörf á þessu. Einmitt vegna þeirrar einbeitingar og yfirsýnar, sem nauðsynleg er til skynsamlegrar stjórnar á atvinnulífinu, má ekki dragast lengur, að þetta sé gert. En í öðru lagi er hér um að ræða stórfellt hagsmunamál alþýðunnar í landinu, mál, sem hefur verið krafa alþýðusamtakanna, frá því að fyrst fór að þeim að kveða í íslenzkum þjóðarbúskap. 1934 vann Alþfl. þann stærsta stjórnmálasigur, sem hann hefur unnið, einmitt á kröfunni um, að áætlunarbúskapur væri tekinn upp, á hugmyndunum um fjögurra ára áætlunina þá, eins og ég rek ýtarlega í grg. fyrir þessu máli. Og 1944, þegar Alþfl. og Sósfl. ásamt Sjálfstfl. mynda nýsköpunarstjórnina, er einmitt þessi sama hugsun einn höfuðgrundvöllurinn í því, sem þá er gert. Og þannig hefur það verið síðan, að í hvert skipti, sem alþýðan hefur gert stórátök í þessum efnum, hefur hún gert kröfu til þess, að tekinn yrði upp áætlunarbúskapur, lagður grundvöllur að heildarstjórn á þjóðarbúskapnum. 1956, þegar vinstri stjórnin var mynduð, var það eitt af þeim atriðum, sem samið var um. Og það er óhjákvæmilegur hlutur, ef lífskjör alþýðunnar eiga að fara batnandi í landinu, að þetta sé gert. Það, sem gert hefur verið að því, bæði í tíð nýsköpunarstjórnarinnar og tíð vinstri stjórnarinnar, varð til þess að bæta lífskjör alþýðunnar í landinu, og þegar þetta hefur verið gert í stórum stíl og til langs tíma, er engum efa bundið, að þá mundu verða sífelldar framfarir, sífelldar jafnar lífskjarabreytingar til hins betra hjá alþýðunni í landinu. Það, sem við líðum undir enn í dag, er, að á tímabili eins og 1949–56, í 7 ár, er ekki unnið að þessum hlutum. Því er sleppt t.d. að auka nokkurn skapaðan hlut togaraflotann, sem er enn sem komið er einn höfuðgrundvöllurinn að okkar lífskjörum.

Það er þess vegna bæði frá heildarhagsmunasjónarmiði þjóðarinnar og frá sjónarmiði alþýðunnar í landinu lífsnauðsyn, að horfið sé nú að því ráði að taka upp vitandi vits og með ráðnum hug og góðum samtökum þjóðarinnar áætlunarbúskap á Íslandi. Þegar ég flutti þetta frv. hér í fyrra, fór það til fjhn., og þótt það yrði þá ekki afgreitt frá nefnd, kom alveg í ljós afstaða allra flokkanna gagnvart þessu máli. Alþfl. tók afstöðu með mér um það að mæla með því, að þetta frv. yrði samþ., og fulltrúi Alþfl. í fjhn. skrifaði undir nál. þess efnis. Fulltrúi Framsfl., sem gaf út sérstakt nál., tók þá afstöðu, að þetta væri skynsamleg ráðstöfun, en kvaðst mundu flytja nokkrar brtt. við málið, þegar það kæmi til 2. umr. Fulltrúar Sjálfstfl. í n.tóku vinsamlega afstöðu gagnvart ákveðnum þáttum í því, en lýstu því yfir, að aðrir þættir væru hins vegar í andstöðu við stefnu Sjálfstfl. Það er þess vegna vitað mál, enda ekki óeðlilegt eftir þeirri reynslu, sem við höfum haft í 30 ár, að stjórnmálamenn hér á Alþ. vilji athuga og rannsaka til hlítar möguleikana á því að taka upp þennan hátt í þjóðarbúskap okkar.

Ég veit, að við Íslendingar eigum við einn mikinn erfiðleika að etja, þegar menn finna til þess, að það sé okkar þjóð fyrir beztu að hverfa að þessu. Þau alþjóðlegu samtök efnahagsleg, sem við erum í, og þá fyrst og fremst efnahagssamvinnan á Vesturlöndum, hafa það fyrir trúarsetningu, að það skuli innleiða hið svokallaða frjálsa efnahagslíf í öll þjóðfélög. Og út frá þeirri úreltu trúarsetningu, sem þó er hægt að notast við í voldugum auðvaldsskipulögum, er reynt að þvinga þessari trúarsetningu upp á íslenzkt atvinnulíf, og ungir menn, sem lítið þekkja til, en lærðir eru í trúfræðum, leggja mikið á sig til áróðurs fyrir framkvæmd slíkra trúarbragða í efnahagsmálum hér og hafa það litla reynslu af íslenzku efnahagslífi, að þeir sjá ekki og vita ekki, í hve hrópandi mótsetningu allt slíkt er við þarfir og nauðsynjar Íslendinga. Mér er ljóst, að það kemur nú við síðari umræður þessa máls til átaka um það, hvora leið Alþ. eigi að fara í afstöðunni til þessara mála. Ég vil leyfa mér að vona, að Alþingi Íslendinga beri gæfu til þess að sameina krafta þjóðar okkar um þá leið, sem ég legg til í þessu frv. Það hefur áður reynzt okkur vel.

Ég vil leyfa mér að óska, að þessu frv. verði nú vísað til 2. umr. og hv. fjhn.