02.02.1960
Neðri deild: 21. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 201 í C-deild Alþingistíðinda. (2278)

34. mál, hefting sandfoks

Flm. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Ég mun verða mjög stuttorður. Ég stend ekki upp til þess að andmæla neinu af því, sem hæstv. ráðh. sagði hér eða gaf upplýsingar um, en vil aðeins segja nokkur orð í framhaldi af því, sem hæstv. ráðh, sagði, og framhaldi af minni fyrri ræðu.

Hæstv. ráðh. staðfesti hér, sem ég sagði frá áðan og ég hafði heyrt, að sandgræðslunefndin frá 1957 væri aftur tekin til starfa og ynni að endurskoðun sinna fyrri till. og þá væntanlega með hliðsjón af öðrum till., sem fram hafa komið. Ég fellst á, að það hafi verið rétt hjá hæstv. ráðh. að skipa ekki nýja nefnd í þetta mál, heldur fela þeirri n., sem starfað hefur, að vinna að því áfram. Í henni eru prýðilegir menn og áhugasamir um þetta mál og sumir þeirra manna, sem mesta þekkingu hafa á sandgræðslumálum. Það er rétt, sem hæstv. ráðh. sagði, að skoðanir manna hafa verið nokkuð skiptar um sum atriði málsins, skoðanir sandgræðslunefndarinnar, eins og þær komu fram árið 1958, og skoðanir búnaðarþings og skoðanir landbúnaðarnefndarmanna hér í hv. d. Það er ekki óeðlilegt og mjög algengt, þegar fjallað er um slík stórmál sem þetta, þar sem verja þarf miklum fjármunum til framkvæmda, að skoðanir séu skiptar, m.a. um fjáröflunarleiðir. Og það atriði, sem mismunandi tillögur hafa verið uppi um undanfarið, er m.a. fjáröflunarleiðirnar.

Ég vil upplýsa það, af því að það kynni að hafa misskilizt, sem hæstv. ráðh. sagði hér áðan, sem hann hefur auðvitað ekki ætlazt til og var kannske ekki tilefni til heldur, að sandgræðslunefndin gerði aðallega ráð fyrir þremur leiðum til þess að afla fjár til framkvæmda. Hún lagði til í fyrsta lagi, að fjárframlög úr ríkissjóði yrðu hækkuð, eins og hæstv. ráðh. sagði. Hún lagði einnig til, að nokkurt gjald yrði lagt á búfénað landsmanna, og í grg. n. eru rök færð fyrir því, að af sandgræðslustarfinu verði hagnaður almennt fyrir landbúnaðinn og því sé það ekki óeðlilegt, að eitthvað af framkvæmdafénu sé fengið á þennan hátt. Ég veit, að búnaðarþing lagði til, að þessi fjáröflunarleið yrði felld niður. Í frv., sem hér liggur fyrir, höfum við flm. tekið þessa till. upp, af því að hún kom frá sandgræðslunefndinni, en við höfum lagt til, að það væri mun lægri fjárhæð, sem tekin væri á þennan hátt, heldur en sandgræðslunefndin lagði til. Ég geri líka ráð fyrir, að það hljóti að verða niðurstaða n, við endurskoðun, að hún fallist á, að þetta gjald verði lækkað eða kannske fellt niður, sem væri náttúrlega gott fyrir þá, sem þessara framkvæmda eiga að njóta. En í þriðja lagi lagði sandgræðslunefndin til, að fé yrði fengið — ekki beint úr ríkissjóði, heldur með sérstakri álagningu á tóbaksvörur. Þessi sérstaka álagning á tóbaksvörur einkasölunnar átti svo að ganga beint til sandgræðslustarfseminnar. Þannig var um þrjár leiðir að ræða.

Þetta er aðeins upprifjun á því, sem hér stendur í þingskjölum og hæstv. ráðh. hefur minnzt á.

Ég vil svo aðeins að lokum mega vænta þess, þar sem áhugi virðist nú vaxandi fyrir þessu máli, að hæstv. ráðh. og hv. landbn. stuðli að því fyrir sitt leyti, að gengið verði nú að því að afgreiða þetta mál sem allra fyrst og að hæstv. ráðh. fyrir sitt leyti stuðli að því, eftir því sem á hans færi er, að athugunum sandgræðslunefndarinnar á fyrri tillögum verði lokið sem fyrst, svo að þær athuganir tefji ekki fyrir störfum hv. landbn. þessarar deildar.