04.02.1960
Neðri deild: 22. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 206 í C-deild Alþingistíðinda. (2282)

36. mál, erfðafjárskattur

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég er ekki hingað kominn, síður en svo, til þess að andmæla því frv., sem hér liggur fyrir, heldur í gagnstæðum erindum. Ég álít, að með þessu frv. sé stefnt í rétta átt og hv. 1. flm., sem mun vera aðalhvatamaður að því, eigi þakkir skilið fyrir það, að þessu máli er hreyft hér. Og mér finnst það koma mjög til athugunar, hvort að sumu leyti muni ekki vera hægt að ganga lengra í þá átt, sem stefnt er að með frv., heldur en hér er gert. Í því sambandi vildi ég sérstaklega benda á það, — og væri fróðlegt að heyra álit hv. aðalflm. um það, — hvort það mundi ekki geta komið til mála að fella t.d. C-flokk alveg niður og láta þá arfahluta, sem þar um ræðir, falla alveg í erfðafjársjóð. Mér finnst, að það gæti a.m.k. komið til athugunar að ganga þar öllu lengra en gert er ráð fyrir í frv.

Þó er hér eitt atriði, sem mér finnst geta verið varhugavert og því sé rétt, að það sé athugað nokkuð í hv. n., sem fær það til athugunar. Hér á ég við það, hvort leggja eigi hærri skatt en gert er ráð fyrir í núgildandi lögum á þá erfðahluta, sem ráðstafað er með sérstakri erfðaskrá eða gjafabréfi hins látna. Mér finnst það vera nokkur spurning, ef viðkomandi maður er búinn að ráðstafa því fyrir fram, að arfur eftir hann renni til vissra stofnana eða félaga, sem hann vill sérstaklega styrkja, að hið opinbera eigi þá að skerða þann hluta meira en nú er gert.

Hv. flm, hefur kannske athugað þetta sérstaklega og getur þá gefið upplýsingar um, hvort það geti talizt rétt að skerða erfðahlutann, ef hinn látni er búinn að gera alveg sérstakar ráðstafanir í sambandi við hann og óskar eftir, að hann gangi til ákveðins aðila.

Það voru ekki önnur atriði en þessi, sem ég vildi vekja athygli á. En eins og ég sagði í upphafi, þá álít ég, að frv. í heild stefni í rétta átt og hv. flm. eigi þakkir skilið fyrir að hafa hreyft þessu máli hér og lagt til, að þessar breytingar yrðu gerðar.