03.05.1960
Neðri deild: 75. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 223 í C-deild Alþingistíðinda. (2310)

101. mál, Reykjanesbraut

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Enda þótt það sé augljóst mál, að framgangur þessarar vegarhugmyndar muni ekki sízt fara eftir því, hvernig ríkisstj. framkvæmir eldri till., eins og hæstv. forsrh. hefur bent á, þá gat ég ekki staðizt það að gera við þetta mál eina örlitla brtt. Vil ég nú lýsa henni með fáum orðum í þeirri von, að hún geti orðið til þess að minna á einn anga af þessum væntanlega vegi.

Ég rak í það augun, að í þessu frv. er talað um veg frá Álftanesvegamótum um Keflavík og Garð til Sandgerðis. Nú þyrftu þessar vegarbætur að vera töluvert lengri. Þær þyrftu að ná alla leið norður til Reykjavíkur. Að vísu er nú þegar malbikuð braut milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur, en umferðin á þeirri braut er svo gífurlega mikil miðað við aðra vegi, að einföld malbikuð braut þar er sízt betur fullnægjandi miðað við umferð heldur en margir aðrir vegir á landinu.

Mér er tjáð, að höfuðþjóðvegir landsins, eins og t.d. Norðurlandsbraut, hafi að jafnaði 100–200 bíla umferð á dag, sem geli farið upp í 200–300 á helgidögum í góðu veðri. Þegar sumarumferð til Þingvalla er allra mest á hátíðisdögum í góðu veðri, fara 1300–1400 bílar á dag um þann veg. Þegar allra mest umferð er um veginn við Elliðaár, sem er innan marka Reykjavíkur, eru taldir fara þar rúmlega 7000 bílar. En á vegarkaflanum frá Reykjavík suður að Fossvogi, ef talið er t.d. við Fossvogsbrú, þá sýndu rannsóknir í fyrrasumar, að þar fóru 9000 bílar fram hjá á dag. Tæplega helmingur af þessum bílum mun fara í Kópavog, þannig að umferðin sunnan við Kópavog er 4000–5000 bílar á dag, en sunnan við Hafnarfjörð og til Keflavíkur er umferðin talin vera rúmlega 1000. Sá vegarkafli, sem ég vil bæta inn í frv. á þann hátt, að gerð yrði tvöföld braut milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar, ber samkv. síðustu athugunum rúmlega 9 sinnum meiri umferð en höfuðbrautin frá Hafnarfirði og suður úr, og er þó umferð þar a.m.k. fimm sinnum meiri en allra mesta umferð á höfuðbrautum annars staðar á landinu.

Kunnugir menn segja um veginn frá Reykjavík suður í Kópavog, að nú sé á hann lagt eins mikið og sá vegur þolir og það sé hægt að vænta þess tiltölulega fljótt, að þar stefni í alger vandræði. Kunnugir menn þessum málum segja líka, að slysahætta sé jafnvel meiri á þessum malbikaða spotta til Hafnarfjarðar, eins og hann er nú, heldur en á mörgum malarvegunum, og umferðartruflanir séu þar algengari. Ég hygg því, að það mæli sterk rök með því, að jafnframt því, sem hæstv. forsrh. og félagar hans í ríkisstj. framkvæma þessa hugmynd, sem hér hefur komið fram áður á Alþ., verði hugsað fyrir því að tryggja tvöfalda akbraut á milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar.