03.05.1960
Neðri deild: 75. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 224 í C-deild Alþingistíðinda. (2312)

101. mál, Reykjanesbraut

Unnar Stefánsson:

Herra forseti. Í sambandi við frv. það til laga, sem hér er til umr., vil ég aðeins vekja athygli hv. alþm. á lögum, sem voru samþ. af Alþ. árið 1946 um Austurveg. Í þeim lögum segir í 3. gr., með leyfi hæstv. forseta: „Veginn skal fullgera með slitlagi úr steinsteypu.“ Í 5. gr.: „Skal miða framkvæmdir við, að vegurinn verði allur fullgerður á næstu 7 árum, enda verði nægilegt vinnuafl fáanlegt svo og stórvirkar vinnuvélar.“ Og í 6. gr.: „Til framkvæmda samkv. lögum þessum heimilast ríkisstj. að taka lán allt að 20 millj. kr.“

Þetta var í lögum, sem samþ. voru árið 1946 um Austurveg, sem átti þá að fullgerast samkv. þeim lögum á næstu 7 árum. Frá þessari lagasetningu eru liðin ekki sjö ár, heldur tvöfalt sjö ár, en enn þá er ekki fyrirsjáanlegt, að Austurvegur komist í not á næstu árum. Ég vildi aðeins vekja athygli hv. alþm. og hæstv. ríkisstj. á þessum lögum. Þó að Suðurlandskjördæmi eigi ekki nema einn fulltrúa í ríkisstj., þá vænti ég þess, að ríkisstj. muni eftir þessum lögum í sambandi við fyrirhugaðar vegaframkvæmdir.

Mig langar til þess að skjóta fram að lokum einni hugmynd, sem e.t.v. gæti komið að gagni, til þess að unnt verði að framkvæma þessi lög. Hér hefur í 6. gr. verið gert ráð fyrir, að ríkisstj. heimilist að taka til framkvæmda þessara lán allt að 20 millj. kr. Þetta hefur ekki verið gert. En mér hefur dottið í hug í sambandi við annað mál, hafnargerð í Þorlákshöfn, sem ákveðið hefur verið að taka lán til, allt að 45 millj. kr. samkv. núverandi gengi, en þegar lánið var ákveðið, mundi sú upphæð í erlendri mynt, 1,2 millj. dollara, hafa verið um 30 millj. ísl. króna, sem var á þeim tíma gert ráð fyrir að yrði nóg til að fullgera höfn í Þorlákshöfn. Þessi upphæð hefur hækkað verulega við gengisbreytingu og annað kemur til, að slíkt mannvirki í Þorlákshöfn verður ekki gert á minna en 3–4 árum. Ég vil leyfa mér að varpa fram þeirri hugmynd til hæstv. ríkisstj. og hæstv samgmrh., hvort ekki væri hugsanlegt, að af þessari fjárupphæð væri tekið lán til bráðabirgða til þess að fullgera í einu velfangi Austurveg með það fyrir augum, að hv. Alþ., sem að öllum líkindum situr skipað sömu alþm. á næstu árum, muni á fjárl. næstu ára geta endurgreitt þetta lán, þannig að peningarnir verði eftir sem áður til taks, þegar þá þarf að nota til hafnargerðar í Þorlákshöfn. Ég varpa fram þessari hugmynd og vil leyfa mér að vænta þess, að hæstv. ríkisstj. taki hana til gaumgæfilegrar athugunar.

Ég ætla ekki að fjölyrða um gagnsemi Austurvegar, það hefur verið gert áður hér á þingi, vil aðeins vekja athygli á því að lokum, að Alþ. og ríkisstj. hefur á undanförnum árum tvímælalaust rekið alranga stefnu í sambandi við vegagerðir, þannig að vegalagning í landinu virðist vera í algerum ólestri, eins og glöggt sést á því, að helztu og fjölförnustu millibyggðavegir eru núna mjög skammt á veg komnir, meðan stórar fjárfúlgur hafa verið lagðar hingað og þangað um landið í stutta vegarspotta og smábrýr.

Ég vildi sem sagt aðeins vekja athygli á þessari hugmynd og vænti þess, að hún verði tekin til vinsamlegrar athugunar. Í fáum orðum: Tekið verði lán til bráðabirgða til þess að fullgera Austurveg, sem Alþ. mundi síðar endurgreiða með fjárframlögum á fjárlögum, eins og gert er ráð fyrir til Austurvegar. Í staðinn fyrir að mjatla veginn áfram á næstu 5–6 árum með því að vinna fyrir eina millj. á ári, verði hann allur unninn á einu eða tveimur næstu árum fyrir lánsfé, sem endurgreiðist síðan til þessa lánsfjár, sem áður var aflað til hafnargerðar í Þorlákshöfn. Austurlandsvegur mundi í sambandi við hafnargerðirnar koma að mjög góðum notum, vegna þess að leiðin milli Reykjavíkur og Þorlákshafnar mundi styttast verulega, og þess vegna yrði það að miklu gagni, ef þessi háttur yrði á hafður með þessa vegargerð.