03.05.1960
Neðri deild: 75. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 226 í C-deild Alþingistíðinda. (2313)

101. mál, Reykjanesbraut

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Hv. 5. þm. Vesturl. (BGr) minnti hér á, að það væri rík þörf á að bæta veginn til Hafnarfjarðar, og færði fyrir því ýmis rétt rök, og ekki er það á móti mínum vilja, síður en svo, heldur mundi ég vilja veita því stuðning, ef ég væri þess megnugur, og ég hygg líka, að það liði ekki á löngu, áður en sú hugmynd fær fylgi almennt hér á Alþ., alveg með sama hætti og ætti að mega ætla, að hugmyndin um Austurveg mundi einnig fagna fylgi hér, þegar frá líða stundir og áður en langt um líður. En við verðum auðvitað að gera okkur grein fyrir, að í þessum efnum sem öðrum getum við ekki gert allt í einu. Við höfum ekki mannafla og ekki verkfæri, ekki tæki til þess og kannske ekki heldur fé.

Það er alveg bert af umsögn vegamálastjórans, sem fylgdi áliti hv. fjvn. um þær till., sem þá lágu fyrir og voru afgreiddar með sameiginlegri till. fjvn. 11. maí 1959, að vegamálastjóri vill láta það skiljast, að hann telur, að svo brýn sem þörfin sé víða, eða a.m.k. á nokkrum stöðum og þá ekki sízt á Austurvegi, þá sé Reykjanesbrautin þörfust.

Það er alveg rétt, sem hv. 4. þm. Reykn. (JSk) sagði, að þessi braut er verst farin þrátt fyrir 40 ára þingmennsku mína, eins og hann orðaði það. Ég hef nú því miður ekki þann heiður að hafa verið 40 ár á þingi, en ég hugsa, að ég hafi gert gagn á við það, sem hann verður búinn að gera á 40 árum, og þetta er ekki sagt nema í góðu, eins og maður segir. En það er rétt, þetta er ekki mér til einhliða heiðurs, og það er ég sjálfur, sem fann upp, að þetta væri Ódáðahraun íslenzkra vega, með engri virðingu fyrir mínu atgervi og framkvæmdum á því sviði. Ég sagði það. En ef ég svo vil fara yfir í karlagrobbið, þá segi ég, að þessi mikla umferð í kjördæminu á rætur að rekja til margs og þar á meðal til hinna miklu framfara, sem orðið hafa síðustu áratugina í þessu kjördæmi. Ég er þó ekki orðinn svo montinn, þótt gamall sé, að ég ætli að fara að eigna mér þær sem aðalmanni. En nokkurn þátt á nú kannske þessi gamli þm. í að hafa greitt fyrir vissum framkvæmdum í kjördæminu. Ódáðahraunið er að vissu leyti afleiðing af umferðinni, sem stafar af þessum miklu framförum, sem þarna hafa orðið.

Þetta er nú utan við veginn, ef við megum svo segja, og a.m.k. er þetta enginn steinsteyptur vegur, sem við erum nú að tala um. En það er rétt, og um það erum við alveg sammála, að hér ber að láta hendur standa fram úr ermum. Ég sagði ekki, að búið væri að taka ákvörðun um að gera þetta í ríkisstj., en ég bar það undir hans mat, þó að hann þekkti mig lítið, hvort ég mundi una því, eftir að ég hef fengið þessar ágætu undirtektir Alþ. og eftir að hafa fengið þessa prýðilegu aðstöðu til þess að koma mínum hugðarefnum í framkvæmd, — hvort ég mundi þá una því að hafa hendur í vösum og láta ekkert verða úr framkvæmdum. Ég hef enga tilhneigingu til þess að hafa minn hlut stærri, ef um framkvæmdir verður að ræða, sem ég vona að verði, en samstarfsmanna minna í ríkisstj. og ekki sízt annarra þm. þessa kjördæmis, sem þar eiga sæti. En það ætti að mega ætla, að þessu máli hefði verið borgið, hvort sem slíkt frv. sem hér liggur fyrir hefði verið flutt eða ekki. En látum það alveg liggja á milli hluta. Efni málsins er, að það er ríkur áhugi í stjórnarliðinu, a.m.k. innan ríkisstj., að hrinda þessu máli fljótlega í framkvæmd. Og ég endurtek það, sem ég áðan sagði, að ég vildi mega líta á það sem stuðning andstöðuflokkanna við þá hugmynd, að tveir efnismenn úr æskulýðsfylkingu þess göfuga hóps hafa nú slegizt í fylgdina um að steinsteypa þeirra farveg suður í vikurnar hér suður með sjónum. Ég hjó í það og lýk máli mínu með því, að hv. 1, flm. sagði með mikill einlægni eitthvað á þá leið: Það vakir eingöngu fyrir mér að fá veginum hrundið í framkvæmd. — Ég segi ekki, að ég hafi þurft á þessari yfirlýsingu að halda, en samt styrkir hún mig. Ég veit þá betur, að það vakti eingöngu fyrir honum að fá veginn.