31.03.1960
Neðri deild: 59. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 227 í C-deild Alþingistíðinda. (2317)

103. mál, búnaðarháskóli

Frsm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Við lifum á mikilli öld véla og tækni, og stundum heyrist það sagt, að vélarnar séu á góðri leið með að verða manninum ofviða. Þó er það staðreynd á þessari öld, að aldrei hafa meiri kröfur verið gerðar til mannsins sjálfs, aldrei hefur meiri þörf verið fyrir sérmenntað fólk á ýmsum sviðum, aldrei hefur meira reynt á það, að maðurinn beitti hugviti sínu, ekki aðeins til þess að finna upp vélar og tæki, heldur líka til að stjórna tækjunum á hagkvæman hátt.

Þessar staðreyndir eiga ekki síður við landbúnað en aðrar atvinnugreinar, og er vissulega bæði hér á landi og í öðrum löndum þörf fyrir mikla og vaxandi menntun fyrir bændastéttina. Nútímabóndinn getur ekki látið sér nægja það, sem faðir hans og afi kunnu til búnaðar, heldur þarf hann að hafa allmikla þekkingu á málum eins og efnafræði, geta gert sér grein fyrir efnaskiptum jarðvegs og ýmsu því, sem við fyrstu sýn mætti ætla að væri lítt viðkomandi landbúnaði.

Hér á Íslandi er töluverð þörf fyrir sérmenntað fólk, ekki aðeins búfræðinga, sem útskrifaðir eru af búnaðarskólum, heldur fólk, sem hefur gengið lengra og öðlazt meiri menntun en þar er veitt. Það er áætlað, að um eða yfir 60 ráðunautar starfi hér á landi við landbúnaðinn. Þar að auki er allmargt fólk við rannsóknarstofur og ýmsar aðrar stofnanir, og áætla kunnugir, að til þess að skipa þetta lið þurfi að koma fram á hverju ári a.m.k. 7–10 manns, sem hefur lokið framhaldsmenntun í einhverjum greinum landbúnaðar.

Framhaldsmenntun eða æðri búnaðarmenntun hefur verið alllengi á dagskrá hér á landi. Búnaðarþing mun árið 1943 hafa falið mþn., sem þá var skipuð, að taka til meðferðar, hvernig bezt muni hagað framhaldsnámi í búfræði. Þessi n. athugaði verkefnið, og komu fram ýmsar tillögur á árinu 1944, en ekkert varð úr frekari framkvæmdum að sinni. Fyrsta skrefið í þessu máli var hins vegar stigið 1947, þegar Bjarni Ásgeirsson, þáv. landbrh., ákvað stofnun framhaldsdeildar við bændaskólann á Hvanneyri. Fyrsti hópur búfræðikandídata var útskrifaður þaðan árið 1949.

Það varð fljótlega ljóst, að þetta var ekki framtíðarlausn á málinu, — að hafa aðeins framhaldsdeild við bændaskólann á Hvanneyri. Árið 1954 skipaði Steingrímur Steinþórsson, sem þá var landbrh., n. til þess að athuga starfshætti framhaldsdeildarinnar og gera tillögur um æðri búnaðarmenntun. Í þessari nefnd áttu sæti Guðmundur Jónsson skólastjóri á Hvanneyri, Kristján Karlsson skólastjóri á Hólum og dr. Halldór Pálsson. Þessi nefnd skilaði áliti vorið 1956. Hún varð ekki sammála, svo að álitið kom fram í tvennu lagi. Eftir að álitsgerðir þessara þriggja manna lágu fyrir, var málið allmikið rætt og kom m.a. fyrir búnaðarþing árið 1958, hafði raunar verið rætt á búnaðarþingum á árunum þar áður, en gengið var til afgreiðslu og ákvörðunar um það á búnaðarþingi 1958. Það var samþykkt ályktun þess efnis, að búnaðarþing teldi brýna þörf á, að kennsla í búvísindum hérlendis yrði efld og aukin frá því, sem nú er, og að stofnaður skyldi fullkominn búnaðarháskóli hér á landi og hann staðsettur á Hvanneyri.

Í framhaldi af þessari ákvörðun búnaðarþings skipaði menntmrh., Gylfi Þ. Gíslason, í febrúar 1959 þriggja manna n. til þess að semja frv. um búnaðarháskóla á Hvanneyri samkv. ályktun búnaðarþings. Í þessari nefnd áttu sæti Steingrímur Steinþórsson búnaðarmálastjóri, sem var formaður n., Guðmundur Jónsson skólastjóri á Hvanneyri og Benedikt Gröndal. Þessi n. skilaði í janúar s.l. frv. og grg., sem landbn. þessarar hv. d. hefur nú flutt hér samkv. beiðni hæstv. landbrh., Ingólfs Jónssonar. Verkefni n. var að semja frv. um búnaðarháskóla á Hvanneyri, og skilaði n. því starfi af sér í einu lagi, en Steingrímur Steinþórsson búnaðarmálastjóri skrifaði undir það með fyrirvara, sökum þess að hann er ekki samþykkur nokkrum höfuðatriðum málsins, og kemur ágreiningur hans fram í fskj., sem samkv. ósk hans er prentað með frv.

Í sambandi við þetta mál eru tvö höfuðatriði, sem mest hefur verið rætt og deilt um. Fyrra atriðið er, hvort byggja eigi framhaldsbúnaðarmenntun hér á landi á því, að þeir, sem fái slíka menntun, skuli hafa lokið stúdentsprófi. Margir þeir, sem aðhyllast þessa skoðun, hugsa sér þróun þessara mála þannig, að stofnuð yrði deild við Háskóla Íslands og búnaðarfræðslan færi þar fram, m.ö.o., að búnaðarfræðslan yrði felld algerlega inn í háskólakerfi það, sem við nú höfum. Aðrir eru þeirrar skoðunar, að það sé ekki lífsnauðsynlegt, að þeir menn, sem stunda slíkt nám, hafi lokið stúdentsprófi, þeir þurfi á öðrum undirbúningi að halda engu síður, og er þá sérstaklega lögð áherzla á, að þau störf, sem þetta fólk hlýtur að inna af hendi fyrir þjóðfélagið að námi loknu, hvort sem væru ráðunautsstörf eða tilraunastörf, séu svo nátengd sveitunum og búnaðinum sjálfum, að það sé miklu meira virði að fólkið hafi innt af hendi nauðsynlegt starf um ákveðinn tíma til sveita, heldur en hitt, að það hafi lokið stúdentsprófi í latínu, frönsku, veraldarsögu eða öðrum slíkum greinum. Segja má, að með því frv., sem hér er lagt fram, sé farið bil beggja. Það er ekki lagt til, að stúdentspróf í heild sinni sé gert að skilyrði fyrir inngöngu í búnaðarháskóla, heldur að í fyrsta lagi hafi sá, sem vill fá inngöngu í þennan skóla, lokið búfræðiprófi með fyrstu einkunn og í öðru lagi hafi hann stúdentspróf eða miðskólapróf og framhaldsmenntun í stærðfræði, íslenzku, dönsku og ensku, sem svari því sem næst til stúdentsprófs máladeildar í stærðfræði, stúdentsprófs í dönsku, prófs úr 2. bekk menntaskóla í ensku og íslenzku.

Á það hefur verið bent, að væri þetta framhaldsnám algerlega fellt inn í háskólakerfi okkar, mundu líkur til þess, að í þessa deild færu ýmsir menn, sem hafa langa skólagöngu að baki og vilja tiltölulega stutt nám, því að þetta yrði væntanlega ekki nema þriggja ára, e.t.v. síðar fjögurra ára nám. Á hinn bóginn eru taldar miklar líkur til þess, að fram komi ungir menn, sem hafa áhuga á landbúnaði og vilja helga honum ævistarf sitt, en hafa ekki gengið menntaveginn eftir venjulegum menntaskólaleiðum og hafi því ekki stúdentspróf. Slíkum mönnum, sem mjög væri æskilegt að fá inn í stétt þeirra, sem hafa æðri búnaðarmenntun í landinu, ætti að vera kleift að ljúka skilyrðum eins og stúdentsprófi í stærðfræði, eins og það er í máladeild, prófi í dönsku, íslenzku og ensku, eins og kennt er í öðrum bekk menntaskóla. Hitt skilyrðið er algerlega óhjákvæmilegt, að umsækjandi sé búfræðingur.

Hitt deiluefnið, sem hefur verið umhverfis væntanlegan búnaðarháskóla, er, hvort þessi skóli skuli aðeins verða deild úr Háskóla Íslands í Reykjavík eða hvort hann á að verða sjálfstæð stofnun, og er þá fyrst og fremst talað um slíka stofnun á Hvanneyri, þar sem hún mundi starfa við hlið bændaskólans, sem þar hefur verið um margra áratuga skeið. Sú skoðun hefur orðið ofan á á búnaðarþingi og hefur verið ráðandi við undirbúning þessa frv., að það sé ekki æskilegt að hafa búnaðarháskóla Íslendinga í Reykjavík og miklu æskilegra, að hann sé á hentugum stað utan Reykjavíkur, og hafa menn þá staðnæmzt fyrst við Hvanneyri. Ég mun ekki á þessu stigi málsins fara út í ýtarlegar umr. um þessi sjónarmið, en vildi aðeins gera grein fyrir þeim, því að umr. um þetta mál hafa að verulegu leyti snúizt um þessi atriði.

Það eru margir kostir við að hafa slíkan skóla á Hvanneyri. Þar hefur þegar verið starfandi framhaldsdeild um nokkurra ára skeið. Þar er stór og mikill búnaðarskóli. Þar er fjölbreytt land til hvers konar tilrauna í jarðrækt, skógrækt o.fl. Þar er eitt af stærstu kúabúum landsins. Þar er stórt fjárbú og þar að auki sauðfjárræktarbú ríkisins á næsta leiti, að Hesti. Þar hefur verkfæranefnd ríkisins aðsetur. Þar er tilraunastöð í jarðrækt. Og mætti svo lengi telja. Þar að auki er Hvanneyri það nálægt Reykjavík, að ef þörf gerist að sækja til einstakra námskeiða sérstaklega lærða menn, sem hvergi finnast nema hér, þá er vandalaust að fá þá upp eftir. Er reynsla af því úr öðrum skólum í nágrenninu, að það er ekki alvarlegt vandamál.

Ég mun ekki gera grein fyrir þessu frv. á þann hátt að fara í gegnum það grein fyrir grein, enda er það óþarfi, vil aðeins benda á það, að í 2. gr. er skilgreint hlutverk Búnaðarháskóla Íslands, sem er að veita æðri menntun í búfræði og undirstöðugreinum hennar og sé kennslan byggð á vísindalegum grundvelli og í öðru lagi að vinna að fræðilegum rannsóknum á sviði landbúnaðarins. Í 3. gr. er gert ráð fyrir, að skólinn hafi þau afnot af jörð og búi á Hvanneyri, sem hann þarf. Í 4.–8. gr. eru ýmis ákvæði varðandi skipun skólastjóra og kennara, kennararáð o.fl. Í 9. gr. er gert ráð fyrir, að nám í þessum skóla yrði 4 missiri, þrír vetur og eitt sumar. Í 10. gr. er gert ráð fyrir inntökuskilyrðum, sem ég hef þegar lýst. Og þær greinar, sem eftir eru, eru um stjórn skólans og önnur ákvæði, sem má heita að séu hliðstæð við löggjöf um flesta aðra skóla í landinu.

Segja má, að ætti í skyndingu að koma upp myndarlegum búnaðarskóla í þessu landi, væri hægt að gera það á æskilegasta hátt með því að verja til þess nokkrum tugum milljóna króna. Þetta frv. gerir ekki ráð fyrir, að þær aðstæður séu fyrir hendi, að það þýði að tala um slíka þróun, því að vissulega eru mörg önnur verkefni, sem kalla á hvað fjárhag ríkisins snertir. Hér er gert ráð fyrir, ef þetta frv. verður að lögum, að sú framhaldsdeild. sem þegar er til á Hvanneyri og hefur starfað þar með góðum árangri síðan 1947, verði látin þróast áfram, eftir því sem efni og aðstæður heimila, og verði með tímanum að þeim búnaðarháskóla, sem íslenzkur landbúnaður þarfnast.

Ég skal geta þess, að framhaldsdeildin og raunar bændaskólinn á Hvanneyri búa að ýmsu leyti við þröngar aðstæður. Bæði framhaldsdeild og heimavist eru í húsi, sem var byggt fyrir fyrra stríð. Þar er um að ræða húsakynni með töluvert alvarlegri brunahættu og fleiri vanköntum. Hefur undanfarið verið í undirbúningi að reisa þarna eina byggingu, sem leysti þessi vandamál, og bæði s.l. ár og í ár hefur nokkur byrjunarfjárveiting til þeirra framkvæmda verið tekin inn á fjárlög. Þegar reist verður myndarleg bygging, er tækifæri til að haga henni þannig, að þar verði viðunandi húsnæði bæði fyrir þann hluta bændaskólans, sem mesta þörf hefur fyrir slíkt, og fyrir búnaðarháskólann fyrst um sinn, þannig að hann geti vaxið þar upp og þróazt. Landrými er þarna nægilegt, og kemur sjálfsagt að því síðar meir, að þessi skóli fái algerlega sjálfstætt húsnæði. Aðstæður til þess að koma málinu fram á næstu 2–3 árum virðast ekki góðar á annan hátt en þann, sem ég hér lýsti. Þessi skóli þarf að sjálfsögðu töluverða aðstöðu fyrir rannsóknar- og kennslustofur, því að hvort tveggja fer að verulegu leyti saman. Byrjun á slíkri aðstöðu er þegar til á Hvanneyri, að vísu á fjóslofti, en þó engan veginn óviðunandi. Við það að sú bygging, sem þegar er hafinn undirbúningur að og búið að veita byrjunarfjárveitingar til, kemst upp, mun rýmka svo í eldra húsinu, að þar mætti skapa allgóðar aðstæður til rannsókna.

Ég mun ekki fara um þetta mál fleiri orðum á þessu stigi. Málið er flutt af nefnd samkv. ósk hæstv. landbrh., og er því ekki ástæða til að vísa því til n. En n. hefur ekki fjallað um það ýtarlega og flytur það á venjulegan hátt, með því að einstakir nm. áskilja sér rétt til að styðja eða standa að brtt. Ég geri ráð fyrir því, að n. muni taka málið til ýtarlegri umr. milli 1. og 2. umr. og þá koma fram nál., ef n. sýnist svo.