25.02.1960
Efri deild: 29. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1107 í B-deild Alþingistíðinda. (232)

61. mál, einkasala ríkisins á tóbaki

Frsm. minni hl. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Eins og fram hefur komið í ræðu hv. frsm. meiri hl. fjhn., erum við hv. 1. þm.. Norðurl. e. (KK) andvígir þessu frv. og höfum skilað séráliti þar að lútandi á þskj. 129.

Meginástæðan til þess, að við getum ekki fallizt á að samþ. þetta frv., er sú, að við teljum, að með samþykkt þess sé verið að draga úr höndum Alþingis vald, sem því beri að hafa, og fá það í hendur ríkisstj. Teljum við slíkt varhugavert, jafnvel þótt ekki sé hér e.t.v. um mjög stórt mál að ræða, ef það er skoðað eitt fyrir sig. En það fer ekki hjá því, að höfð sé í huga í þessu sambandi sú augljósa tilhneiging, sem orðið hefur svo mjög vart hjá núverandi hæstv. ríkisstj. þann tíma, sem hún hefur setið að völdum, að draga til sín, jafnvel í stórmálum, völd, sem þingræðisvenjur bjóða að séu í höndum Alþingis. Er þess skemmst að minnast, er hv. stjórnarflokkar knúðu fram fyrir fáum dögum með meirihlutavaldi sinu, að ríkisstj. hlyti vald til þess að breyta með einföldum tilskipunum áður gildandi lagaákvæðum um fjölda hinna mikilvægustu fjárfestingarsjóða í landinu, — lagaákvæðum, sem sett hafa verið á Alþingi á löngu árabili og engum mun hafa til hugar komið að unnt væri að hagga við nema eftir löggjafarleiðum í hverju tilfelli fyrir sig.

Ég hef líka bent á það hér í hv. deild áður, að hæstv. ríkisstj. hefur haft uppi tilburði til þess að ráða að nokkru kaupgjaldi með tilskipunum, en slíkt er að sjálfsögðu, þegar frá eru skilin launakjör opinberra starfsmanna, ekki einasta utan eðlilegs valdsviðs ríkisstj., hver sem hún annars er, heldur einnig utan eðlilegs sviðs löggjafarvaldsins.

Fleira mætti að sjálfsögðu tilgreina úr stuttri sögu núverandi hæstv. ríkisstj., sem sannar, að hún er haldin óheillavænlegri tilhneigingu til þess að sölsa undir sig með sínum nauma þingræðislega meiri hl. völd, sem henni ber ekki samkvæmt hefðbundnum og eðlilegum venjum.

Með þessu frv., sem hér liggur fyrir, er seilzt í þessu efni inn á nýtt svið löggjafarvaldsins, þ.e.a.s. skattheimtuna, og lagt til, að ríkisstj. fái heimild til að ráða ein án íhlutunar Alþingis skattlagningu á vissan hóp manna í landinu, þ.e.a.s. þá, sem neyta tóbaks. Sá hagnaður, sem nú nemur nálægt 100 millj. kr. á ári, sem rennur til ríkissjóðs frá tóbakseinkasölunni, er í eðli sínu skattur á ákveðinn hóp manna í landinu, þó að hann sé ekki nefndur því nafni, og er greinilegt, þegar litíð er til hinnar fyrstu löggjafar um einkasöluna og þeirra breytinga, sem siðar hafa verið á henni gerðar, að svo hefur ætíð verið álitið, enda er auðsætt, að vel væri hugsanlegt að hafa t.d. tóbakstoll svo háan, að hann jafngilti þeim hagnaði, sem einkasalan gefur ríkissjóði.

Í anda 40. gr. stjórnarskrárinnar, þar sem segir, að engan skatt má á leggja né breyta né af taka nema með lögum, hefur frá fyrstu tíð verið ákveðið í lögum um tóbakseinkasöluna, hvert hámark álagningar á vörur hennar væri heimilt, og ætíð verið leitað nýrrar heimildar Alþingis, þegar nauðsynlegt hefur verið talið að auka skattheimtu af tóbaksvörum. Í fyrstu lögunum, sem sett voru um einkasölu ríkisins á tóbaki 1931, var álagning hennar ákveðin 10–75% á vörurnar án tolls. Ári siðar var álagningin ákveðin 10–50% á verð varanna, en þá reiknað með verðinu eins og það var, þegar varan var komin í hús og tollur hafði verið greiddur. 1943 var álagningarheimildin hækkuð í 150%, 1947 í 250% og enn 1949 í 350%, og hefur sú heimild staðið óbreytt síðan og þar til nú.

Það getur tæpast verið tilviljun, að engum hefur hugkvæmzt fyrr en nú að hafa álagningarheimildina óbundna með öllu og á valdi ríkisstj. einnar, heldur er alveg vafalaust að baki sá skilningur, að um hliðstæðu sé hér að ræða við venjulega skattheimtu og því beri Alþingi að hafa úrslitavald um þunga hennar.

Í grg. þessa frv. er talið, að takmörkun álagningar á tóbaksvörur sé óeðlileg, þar sem engin slík ákvæði gildi um Áfengisverzlun ríkisins, og þetta reyndar talin aðalástæðan fyrir flutningi þessa frv.

Ég held, að það muni ekki margir trúa því, að hér sé aðeins að verki hárfínn skilningur hæstv. ríkisstjórnar eða smekkur á samræmi í löggjöf, heldur sé hitt nær lagi, sem reyndar er auðsætt, að enn er horft löngunaraugum til þess að gera tóbaksneyzlu landsmanna að arðmeiri féþúfu en hingað til hefur gerzt. En því þá ekki að ganga hreint til verks og segja eins og er, og því ekki að æskja þá ákveðinnar heimildar, ef slíkt telst nauðsynlegt og sanngjarnt, eins og alltaf hefur verið gert hingað til og ég hef hér rakið?

Auðvitað er engu saman að jafna um áfengisverzlunina og tóbakseinkasöluna, þótt fyllilega gæti að mínu viti talizt eðlilegt, að álagning færi þar eftir lagaákvæðum. Ýmsir mundu t.d. vilja ákveða verðlag á áfengi svo hátt, að það verkaði til verulegrar takmörkunar á áfengisneyzlu eða jafnvel kæmi í veg fyrir hana að verulegu leyti. Aðrir vilja banna áfengissölu með öllu. En engum dettur slíkt í hug varðandi tóbakssöluna, því að hvort sem mönnum er það ljúft eða leitt, þá verður að viðurkenna, að tóbaksvörur eru næsta almenn neyzluvara, sem verður ekki bannfærð, hvorki með lögum né skattheimtu.

Í viðtali við fjhn. hefur forstjóri tóbakseinkasölunnar upplýst, að vegna gengisfellingarinnar hækki tóbaksvörur sjálfkrafa um 8.8% og væntanlegur söluskattur hækki hana um 3%, eða að hækkanir vegna efnahagsaðgerðanna, sem nú eru, verði a.m.k. 12%. Og augljóst er, að vegna gengisfellingarinnar verður hagnaður meiri en áður, miðað við sömu sölu, þar sem álagningin kemur nú á hærri grunn en áður. Að óbreyttri sölu, upplýsti því forstjórinn, er öruggt, að sú upphæð, sem gert er ráð fyrir að náist í ríkissjóð á fjárlögum, 98 millj., náist örugglega án allra breytinga á álagningu, — og að óbreyttri sölu næst meira. Og maður skyldi ætla, að það væri aðalatriðið, að álagningarheimild væri svo rúm, að sú upphæð, sem gert er ráð fyrir að náist á fjárlögum, stæðist.

En þrátt fyrir þessar upplýsingar forstjórans leggjum við, sem stöndum að þessu nál., að svo komnu máli ekki dóm á það, hvort frambærilegt geti talizt að hækka álagningarheimildina fram yfir þau 350%, sem nú eru heimiluð. En það er ekki heldur aðalatriðið í þessu máll. Aðalatriðið og það, sem um er deilt, er þetta: Á að styrkja þá tilhneigingu, sem hér örlar svo greinilega á, — þá tilhneigingu að draga valdið til að ákveða skattheimtu í landinu úr höndum Alþingis í hendur ríkisstjórnarinnar, eða á Alþingi að halda sínu eðlilega og hefðbundna valdi í þessum efnum sem öðrum ?

Við, sem skipum minni hl. fjhn., teljum, að skipa beri þessum málum með lögum, en ekki með tilskipunum.