25.02.1960
Efri deild: 29. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1113 í B-deild Alþingistíðinda. (234)

61. mál, einkasala ríkisins á tóbaki

Frsm. meiri hl. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Þessar umræður hér eru nú að verða með nokkuð einkennilegum hætti, kannske að vísu ekkert einkennilegri en hv. stjórnarandstæðingar hafa tíðkað hér á þessu þingi.

Ég skal ekki fara að ræða um það mál, sem tveir hv. síðustu ræðumenn gerðu hér að umtalsefni, þ.e.a.s. vissa þætti efnahagsmálalöggjafarinnar, sem hér hefur verið rædd á öðrum vettvangi, og þau atriði, sem þeir þar vitnuðu til, snerta þetta mál ekki að neinu leyti. Það er auðvitað algerlega óeðlilegt og óþinglegt á allan hátt að taka ekki afstöðu til hvers máls, eins og það liggur fyrir, heldur vera að blanda inn í það allt öðrum málum og segja, að af því að þetta hafi verið gert þarna, þá séu menn á móti þessu. Það verður að meta að sjálfsögðu þetta mál alveg út af fyrir sig, og menn geta haft skiptar skoðanir um það, hvort eigi að vera þessi hámarksákvæði á tóbaksálagningu eða ekki. En að rökstyðja andstöðuna gegn afnámi þeirra með því, að ríkisstjórnin hafi sýnt tilhneigingu til einhvers ofbeldis með því að setja ákvæði í önnur lög, sem eru allt annars eðlis en hér er um að ræða, þá séu þeir á móti þessu máli, mér finnst það a. m. k, vera mjög óeðlileg afstaða, að ekki sé meira sagt.

Hv. 3. þm.. Norðurl. v. (ÓlJ) leggur ákaflega mikið upp úr því, bæði í þessu máli og hefur áður gert hér á þingi, sem vissulega er ekki nema virðingarvert, að menn fylgi hér á allan hátt þinglegum reglum og gæti þess vandlega að samþ. ekki neitt það, sem brjóti í bága við eðlilegar þingvenjur og stjórnlög landsins. Þegar hans viðhorf að öðru leyti eru borin saman við þessar kenningar hans, þá stangast það nokkuð illilega á. Það var vitanlega mjög fróðlegt að hlusta á ræðu hans, sem er prófessor í lögum, um, hvernig líta beri á tolla- og skattaákvæði og að sjálfsagt sé, að þau brjóti ekki í bága við stjórnarskrána. Ég hygg, að það séu allir sammála um það, að enginn hv. þm.. hafi löngun til þess að samþ. neitt það, sem brjóti í bága við stjórnarskrána. En ég held, að það hefði verið fróðlegt fyrir hv. 1. þm.. Austf. (EystJ) að vera staddan hér í d., þegar þessi hv. þm.. flutti ræðu sína, því að enginn hefur lengur haft með að gera ákvarðanir um álagningu á tóbak og áfengi en hann, og það er vitanlega mjög fróðlegt fyrir hann að heyra það, að hann hafi í þeim efnum æ ofan í æ gerzt sekur um allt að því stjórnarskrárbrot, vegna þess að hann hafi ákveðið verðlagningu á þessum vörum án þess að bera það hverju sinni undir Alþingi.

Hv. 3. þm.. Norðurl. v. gerði grein fyrir því hér áðan í ræðu sinni, að raunverulega væri það algerlega óheimilt af Alþingi að afhenda ríkisstj. réttinn til þess að ákveða álagningu á vörur, þar sem um væri að ræða vörur þeirra stofnana, sem eru reknar sem tekjuöflunarstofnanir. Samkvæmt þessari kenningu brjóta væntanlega lögin um áfengiseinkasölu í bága við stjórnarskrána, vegna þess að þar er ríkisstj. veitt þetta vald, og með því að hagnýta það vald hafa þá væntanlega einnig fjmrh. að undanförnu brotíð stjórnarskrárákvæði að þessu leyti. Ég hef aldrei heyrt hér þessum kenningum áður haldið fram.

Ég ætla ekki að fara að tefla minni litlu lagaþekkingu á móti lagaþekkingu þessa hv. þm.. En vissulega er mjög fróðlegt að heyra, að þessi lög og meðferð þeirra á undanförnum árum hafi verið lögleysa nánast eða jafnvel stjórnarskrárbrot. Og það er í þessu efni sem fleira mjög fróðlegt fyrir hv. framsóknarmenn að hlusta á þennan hv. þm.., því að hann hefur flutt bæði í þessu máll og áður hér á þingi mjög innfjálgar ræður, þar sem lýst var yfir, hver spilling væri ríkjandi á ýmsum sviðum í okkar þjóðlífi, og það ber víssulega að fagna því, ef það merkir, að það verði tekin upp sérstök umbótastarfsemi innan hans flokks, því að það hefur jafnan hitzt svo á, að þau atriði, sem hann hefur verið að fordæma, hafa ekki hvað sízt verið mjög í heiðri höfð af hans flokksbræðrum. Að þessu leyti er það vissulega gleðiefni, ef hér fer að renna upp ný öld að því leyti, að þessi virðulegi flokkur fari í þessum efnum sem ýmsum öðrum að taka upp nýja og heilbrigðari starfshætti. Út í það skal ég ekki að öðru leyti hér fara. En óneitanlega hljómar það dálítið einkennilega við meðferð þessa máls, þegar þessir hv. þm.. breiða úr sér yfir þeirri óhæfu, sem hér sé verið að framkvæma, þegar þess annars vegar er gætt, að verð áfengis er óbundið í lögum og að það hefur verið hækkað æ ofan í æ á undanförnum árum, án þess að þeir tveir flokkar, sem þessir hv. þm.. eru talsmenn fyrir, hafi hreyft litlafingur til þess að mótmæla þeim verðhækkunum, heldur hafa jafnvel oftast átt þátt í þeim, eins og Framsfl. hefur lengst af átt, og þegar þess enn fremur er gætt, að hvað eftir annað hefur verið hækkuð þessi álagningarheimild á tóbaki, eins og hv. 5. þm.. Norðurl. e. réttilega vék að í sinni ræðu, og ég man ekki eftir því, að nokkurn tíma hafi verið hreyft andmælum gegn því, að þessi hækkun ætti sér stað. Það hefur því nánast verið hreint formsatriði, hvort þessi álagningarprósenta hefur verið í lögum eða ekki, vegna þess að hún hefur aldrei hindrað verðhækkun á tóbaki. Það hefur þá bara verið fengin nægilega rúm heimild, eins og oftast nær hefur verið gert, þegar þessum lögum hefur verið breytt, — nægilega rúm heimild, til þess að auðið væri innan þess ramma að gera verulegar hækkanir frá því, sem verið hefur. Og vitanlega hefði alveg eins mátt hugsa sér þetta nú, að hækka þessa heimild allverulega til þess að geta innan þess ramma haft frjálsar hendur, þannig að hér er vitanlega um algerlega óraunhæfa andstöðu gegn þessu máli að ræða og andstöðu, sem byggist á ákaflega einkennilegum og lítt skiljanlegum sjónarmiðum, miðað við allt, sem á undan er gengið í þessum sömu málum á undanförnum áratugum. Og maður freistast til að halda, að það sé ekki málefnið og sízt af öllu löngunin til þess að verja hina almennu borgara, sem njóta þessarar vöru, sem hér sé að verki, heldur séu það einhver önnur einkennileg sjónarmið, sem hér komi til greina.

Ég vék að því hér í minni frumræðu, að það hefur verið háttur tóbakseinkasölunnar að hækka mismunandi mikið einstakar vörutegundir, og það, sem hv. 3. þm.. Norðurl. v. og hv. 5. þm.. Norðurl. e. voru hér að víkja að áðan, að það mundi að öllu óbreyttu verða viss hækkun á þessum vörum, sem ætti að verða nægileg án þess að breyta þessum ákvæðum, þá kemur einmitt það hér til greina, sem forstjóri tóbakseinkasölunnar hefur bent á, að það hefur jafnan verið talið eðlilegt að hækka mismunandi mikið hinar einstöku vörutegundir, sem tóbakseinkasalan hefur til sölu. Í mörgum greinum nægir sú álagning, sem nú er, og það er alls ekki einu sinni lagt það mikið á vörurnar, en í öðrum greinum nægir hún ekki. Og miðað við þær verðbreytingar, sem nú má gera ráð fyrir að verði, þá er það einmitt ætlun forstjórans, að það geti reynzt nauðsynlegt að hafa mismunandi hækkun á hinum ýmsu vörutegundum, sem tóbakseinkasalan hefur, en hafa þar ekki sömu prósentu alls staðar.

Efnislega er það alveg ljóst, að hér er ekki verið að fara inn á neina nýja braut, og allar fullyrðingar um það, að hér sé verið að fremja eitthvert ódæði, að manni skilst, stjórnarskrárbrot, sem er nú raunar það ljótasta, sem hægt er að segja, að þm.., sem unnið hafa eið að stjórnarskránni, séu vísvitandi að ganga út í, eru fjarstæða. Hér er ekkert verið að gera annað en það, sem hefur verið talið eðlilegt og sjálfsagt á undanförnum áratugum, ekki nokkurn hlut annan efnislega, — þó að í stað þess að leita eftir því, að álagningarheimildin verði hækkuð um eitthvað tiltekið prósentumagn, eins og gert hefur verið á undanförnum árum, ætíð andmælalaust, þá er sú leið farin að hafa hér á þessu sömu tilhögun og er varðandi áfengiseinkasöluna og mér er ekkí kunnugt um að nokkurn tíma hafi verið hreyft andmælum gegn og í fyrsta sinn því haldið fram hér, að þar væri um að ræða lög, sem brytu í bága við stjórnarskrána.

Ég held, að það sé því alveg augljóst, að hér sé ekki um það að ræða, að það eigi að fara á nokkurn hátt með öðru móti ofan í vasa skattgreiðenda í landinu, eftir að þetta frv. hefur verið samþ., heldur en ætíð hefur verið gert á undanförnum árum og talið af öllum sjálfsagt, að hér væri um tekjustofn að ræða, sem jafnan hefur verið notaður til hins ýtrasta á hverjum tíma, og að því leyti er hér aðeins um að ræða formsbreytingu, sem auðveldar framkvæmd fyrir þessu ríkisfyrirtæki, sem hér á hlut að máll, en ekki neitt annað.