25.02.1960
Efri deild: 29. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1119 í B-deild Alþingistíðinda. (237)

61. mál, einkasala ríkisins á tóbaki

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forsetl. Þetta mál hefur nú verið skýrt svo rækilega af hv. frsm. meiri hl. fjhn. og hv. 11. þm.. Reykv. (ÓB), að ég þarf ákaflega fáu þar við að bæta. En í þessum umræðum hefur komið fram það álit, að með þessu frv. væri höggvið nokkuð nærri anda stjórnarskrárinnar, eins og það var orðað.

Í 40. gr. stjskr. segir: „Engan skatt má á leggja né breyta né af taka nema með lögum.“ Og eins og hér hefur verið tekið fram, tekur orðið skattur þarna að sjálfsögðu bæði til beinna skatta og óbeinna.

Í þessu sambandi vil ég taka það fram, að hingað til hefur mér vitanlega ekki verið litíð svo á, að álagning verzlunarfyrirtækja ríkissjóðs félli undir þetta stjórnarskrárákvæði. Eg hef ekki heyrt þess getið fyrr, og ég ætla, að sú reynsla, sem við höfum við að styðjast í því efni, bendi einnig til þess, að ríkisstj. og þm.. á hverjum tíma á undanförnum áratugum hafi ekki verið þessarar skoðunar. Ég man í bili t.d. eftir þrennum lögum um einkasölu ríkisins, þar sem er ekkert slíkt hámarksákvæði um álagningu. Það er t.d. í l. um útvarpsrekstur ríkisins, þá er heimild fyrir ríkisstj. til þess að taka einkasölu á viðtækjum, og hefur sú verzlun verið rekin lengi. (Gripið fram í.) Þetta er verzlunarfyrirtæki ríkissjóðs, að nokkru í tekjuöflunarskyni, eins og kemur fram í því, að Alþingi hefur sjálft ráðstafað sérstaklega til vissra menningarmála rekstrarafgangi viðtækjaverzlunar. Um allmargra ára skeið hefur rekstrarhagnaður viðtækjaverzlunar verið látinn taka þátt í kostnaði við rekstur þjóðleikhússins, svo að að því leyti má segja, að þetta fyrirtæki hafi öðrum þræði verið notað sem fjáröflunarfyrirtæki fyrir ríkið. En í þessum l. um heimild til að reka einkasölu á viðtækjum er ekkert hámarksákvæði um álagningu, hún er algerlega í höndum ríkisstjórnarinnar.

Ég man eftir því, að 1935 voru sett l. um heimild fyrir ríkisstj. — og þau lög munu vera í gildi enn — til þess að taka einkasölu á bifreiðum, rafvélum og rafmagnsáhöldum og nokkrum fleiri tegundum. Slík einkasala var síðan sett á stofn og rekin hér um nokkur ár, var síðan lögð niður. Í þeim lögum er það algerlega lagt á vald ríkisstj., hver álagning skuli vera á þessar vörutegundir, og ekkert hámark þar sett.

Í þriðja lagi og það, sem skiptir náttúrlega langsamlega mestu máli um tekjur ríkissjóðs, er áfengisverzlunin eða einkasala ríkisins á áfengi. Þar er ekki nein hámarksálagning, heldur algerlega á valdi ríkisstjórnarinnar.

Ég nefni þessi þrjú dæmi hér, og í sambandi við þau ætla ég, að það hafi ekki komið fram, að slík ákvæði hyggju nærri stjskr. eða 40. gr. stjskr., þar sem bannað er að leggja á skatta nema með l., gæti átt við, að það væri skylt að ákveða tiltekna hundraðstölu álagningar í lögum um hvert verzlunarfyrirtæki ríkisins. Þetta er að mínu viti ný kenning og stangast algerlega á við „praksís“ í þessum efnum.

Hér hefur verið greint, hverjar ástæður liggja til þess, að nú er farið fram á, að sama regla gildi um tóbaksverzlun ríkisins að þessu leyti eins og um hin fyrirtækin og fyrst og fremst um áfengisverzlunina, og þarf ég í rauninni ekki að rekja það nánar. En ég vil þó taka hér eitt atriði fram til viðbótar því, sem sagt hefur verið.

Þegar álagning er heimiluð í hundraðstölu, eins og er mjög algengt og m.a. er í núgildandi lögum um tóbaksvörur, þá eru vissulega ákaflega miklir annmarkar á þeirri aðferð. Aðalannmarkinn á þeirri aðferð er sá, að slík álagningarákvæði fremur hvetja en letja til óhagkvæmra og dýrra innkaupa. Sá, sem kaupir dýrt inn, fær í krónutölu meiri álagningu, meiri hagnað, vegna þess að prósentutalan er sú sama. Sá, sem vill kaupa inn sem hagkvæmast og ódýrast, fær lægri krónutölu í álagningu. Þetta er viðurkenndur mjög alvarlegur annmarki yfirleitt á þessum álagningarreglum, þegar miðað er við prósentutölu. Samt sem áður, þegar verðlagsákvæði þarf að viðhafa í þjóðfélagi, er þetta einna algengast, þó að hin aðferðin þekkist einnig, að hafa álagningu ekki í hundraðstölu, heldur í krónutölu á vissa einingu.

Þetta óhagræði hefur komið skýrt fram í sambandi við tóbaksverzlunina, eins og hv. 11. þm. Reykv. skýrði hér greinilega og forstjóri tóbakseinkasölunnar ræddi á fundi fjhn. Forstjóri tóbaksverzlunarinnar hefur það verkefni m. a. að ná inn þeirri upphæð, sem Alþingi ákveður á hverjum tíma í fjárlögum að ná inn sem tekjum fyrir ríkissjóð. Og þarna, eins og hv. 11. þm. Reykv. tók fram, stangast þau sjónarmið á, sem hér koma til greina, annars vegar sú nauðsyn að spara sem mest gjaldeyri, eftir því sem unnt er, og að fá sem ódýrust og hagkvæmust innkaup fyrir neytandann, en svo er hins vegar tekjuöflunarsjónarmið ríkisins, og það bendir til þess, meðan slíkar álagningarprósentur eru, að betra sé að kaupa dýrt inn og eyða meiri gjaldeyri, því að þá verður gróðinn fyrir ríkissjóð í krónutölu meiri.

Þetta er varðandi þennan ágalla. En auk þess hefur að sjálfsögðu komið í ljós, að það getur verið hentugt að hafa mismunandi álagningarprósentu á ýmsar vörutegundir tóbaksverzlunarinnar, og skal ég ekki fara út í það hér frekar.

En þegar það nú er haft í huga, að í rúman aldarfjórðung hefur það verið í l. um einkasölu ríkisins á áfengi, að þar er engin hámarkstala ákveðin, heldur ríkisstjórninni alveg í sjálfsvald sett, hver álagningin er, og þegar það er enn fremur haft í huga, að gert er ráð fyrir því í fjárlagafrv. nú, að hún skili 143 millj. kr. í ríkissjóð, þá virðist manni undarlegt, ef þetta allt saman hefur verið löglegt og sjálfsagt og eðlilegt, en er nú orðið óeðlilegt, er orðið einræðísbrölt og heggur nærri stjskr. að hafa sams konar ákvæði um tóbaksverzlunina, sem er þó ekki gert ráð fyrir að afli ríkissjóði nema tæpra 100 millj. á þessu ári.

En vegna þess, að hér hefur ekki eingöngu verið rætt um málið frá þessu sjónarmiði, því lagalega, og hvað eðlilegast verður að teljast, heldur hafa af tveim hv. stjórnarandstæðingum verið dregin inn í þetta allt önnur og óskyld atriði og almennt vantraust og gagnrýni á ríkisstjórnina, þá vildi ég þó benda þeim hv. þm. á það og þó alveg sérstaklega hv. 3. þm. Norðurl. v. (ÓlJ), að þegar formaður Framsfl. myndaði sína fyrstu ríkisstj. 1934 og formaður þingflokks framsóknarmanna var fjmrh., þá var það eitt af fyrstu verkum þeirrar ríkisstj. að flytja frv. um að afnema þau hámarksákvæði, sem þá höfðu verið í lögum áður um einkasölu ríkisins á áfengi. Í lögum frá 1928 um áfengiseinkasöluna var svo ákveðið, að leggja mætti á áfengið 25–75% hæst. Ríkisstj. Hermanns Jónassonar með Eystein Jónsson sem fjmrh. beitti sér fyrir því og fékk það lögfest, að þetta hámarksákvæði var úr lögum numið og ríkisstj. alveg í sjálfsvald sett, hver álagningin yrði, og þannig hefur það verið nú í rúman aldarfjórðung.

Þegar allt þetta er haft í huga, held ég, að taka verði með nokkurri varúð aðfinnslum þessa hv. þingmanns.