16.05.1960
Neðri deild: 82. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 252 í C-deild Alþingistíðinda. (2397)

143. mál, verkfall opinberra starfsmanna

Flm. (Eðvarð Sigurðsson):

Herra forseti. Með frv. þessu er gert ráð fyrir, að úr gildi falli lög nr. 33 frá 3. nóv. 1915, um verkfall opinberra starfsmanna.

Verkfalls- og samningsrétturinn er sá réttur, sem verkalýðshreyfingin hefur haft hvað mest fyrir að öðlast, og sá rétturinn, sem hún telur sér helgastan. Þessi réttur er fyrir alllöngu viðurkenndur hér á landi bæði með samningum og með lögum. En einn er þó sá hluti launastéttanna, sem hefur ekki þennan rétt, og það eru opinberir starfsmenn.

Opinberir starfsmenn hafa aldrei samþykkt þennan órétt, sem þeir eru beittir umfram aðrar launastéttir í landinu, og hafa hvað eftir annað mótmælt að hafa ekki sömu aðstöðu og aðrir launamenn. Síðustu mótmæli þeirra í þessum efnum voru gerð á þingi BSRB í desember s.l. og þess krafizt, að opinberir starfsmenn fengju jafna aðstöðu, jafnan rétt við aðra launþega í þessum efnum.

Þessi samþykkt og þessar samþykktir, sem opinberir starfsmenn hafa gert í þessum efnum, hafa allar verið gerðar áður en þær ráðstafanir í efnahagsmálum voru gerðar, sem Alþingi hefur nú samþykkt. En það geta auðvitað allir sagt sér, að með samþykkt efnahagslaganna eru aðstæður opinberra starfsmanna í þessum efnum mun lakari en áður var. Það má, held ég, áreiðanlega fullyrða, að það eru engir jafnilla settir eftir samþykkt efnahagslaganna og opinberir starfsmenn með sín launamál. Með lögunum um efnahagsmálin voru felld úr gildi þau ákvæði í samningum og í lögum, að vísitala skuli greidd á kaup. Þetta er að vísu mjög mikilvægt fyrir alla launþega, en áreiðanlega mikilvægast fyrir opinbera starfsmenn. Eftir stendur þó, að hin almenna verkalýðshreyfing hefur samningsréttinn þrátt fyrir lögin. En þann rétt hafa opinberir starfsmenn ekki. Við höfum hlustað á ráðamenn ríkisstj. hér í þinginu og alveg sérstaklega hæstv. viðskmrh. nú fyrir stuttu fullyrða það, að ekki komi til mála, að kaup megi hækka, og ríkisstj. mundi engin afskipti hafa af slíkum málum, verði atvinnurekendur til þess að samþykkja kauphækkanir, þá verði þeir að gera það fullkomlega á sína ábyrgð og sína eina. Það náttúrlega gefur auga leið, að slíkar yfirlýsingar hæstvirtra ráðherra hljóta að gefa vísbendingu um það, hvaða afstöðu ríkisstj. mundi taka til launamála opinberra starfsmanna. Þeir hafa yfirleitt fylgt á eftir í almennum kauphækkunum. En ég geri ráð fyrir því, að hæstv. ríkisstj. muni, a.m.k. þar sem hún getur því svo vel við komið eins og gagnvart opinberum starfsmönnum, standa við þessar stóru fullyrðingar sínar.

Ég held, að það sé þess vegna meira en þörf á því, að opinberir starfsmenn fái einmitt núna þennan rétt, sem þeir hafa svo oft leitað eftir að fá. Og er enginn efi á því, að þeir munu náttúrlega herða róðurinn fyrir því að fá þennan rétt, og verkalýðshreyfingin í landinu mun tvímælalaust rétta þeim þá hjálparhönd, sem hún getur í þeim efnum. Og það hefur ævinlega verið afstaða almennu verkalýðshreyfingarinnar að taka undir kröfur opinberra starfsmanna varðandi þeirra jafnrétti á þessu sviði við aðra launþega í landinu.

En nú er sem sagt svo komið, að sú hjálp eða það, sem opinberir starfsmenn hafa þarna notið, þ.e.a.s. að fá vísitöluna á kaup og kaup sitt þar með hækkað með hækkandi verðlagi, það er nú afnumið hjá þeim sem öðrum. En ég vil undirstrika sérstaklega, að þeirra aðstaða er allt önnur þó heldur en annarra launþega, vegna þess að þeir geta bókstaflega enga björg sér veitt, en það geta þó hin almennu verkalýðsfélög.

Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta frv., það er svo sjálfsögð ráðstöfun, sem í því felst, bæði almennt séð og alveg sér í lagi og einkanlega eftir að efnahagsmálalögin hafa verið samþykkt. Það er fyllsta réttlætiskrafa og réttlætismál, að opinberir starfsmenn fái samnings- og verkfallsrétt til jafns við aðra launþega.

Ég legg svo til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.