16.05.1960
Neðri deild: 82. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 260 í C-deild Alþingistíðinda. (2404)

143. mál, verkfall opinberra starfsmanna

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég veit nú ekki, hvort hv. 2. þm. Norðurl. v. (JPálm) gerir sér ljóst, hvaða verk hann er að vinna með sínum ræðum hérna núna. Mér sýnist hann vera nokkurn veginn að koma því í gegn, að það verði samþ. uppreisn á Alþ., — þetta, sem hann kallar uppreisn, að meiri hl. Alþ. mundi standa með því, og hvar stendur hann þá? Það er nefnilega venjulegt, þegar eitthvað slíkt róttækt er samþykkt, að þá er venjulega sá, sem hefur verið á móti því, skoðaður sem uppreisnarmaður á eftir.

Ég held, að hv. 2. þm. Norðurl. v. ætti að athuga ofurlítið betur, hvað hann segir. Hans samflokksmenn hér ættu að athuga, hvort hann talar hér að einhverju leyti í nafni Sjálfstfl, eða ekki.

Hér er um að ræða, hvort ákveðnir starfsmenn, sem eru 25% af þjóðinni eða hafa á sínu framfæri sem samsvarar 25% af þjóðinni, eigi að hafa viss réttindi í þjóðfélaginu, sem aðrir menn hafa, bæði verkamenn og bændur, eða hvort það eigi að halda áfram að svipta þá þeim. Og það er sérstaklega verið að athuga, hvort þeir eigi að fá þessi réttindi nú, þegar búið er að svipta þá þeim sjálfsögðu réttarbótum, sem þeir hafa haft í 20 ár, að fá hækkun á sínu kaupgjaldi samkv. vísitölu, þegar dýrtíð hækkar, m.ö.o. þegar þeir hafa ekki lengur vernd gegn því, að kjör þeirra fari síversnandi.

Hverjir eru nú þessir aðilar, sem þarna er verið um að tala, þessir starfsmenn ríkisins? Við skulum taka bara t.d. starfsmenn bankanna. Bankarnir eru einhverjar mestu gróðastofnanir í okkar þjóðfélagi. Það ætti þar með að segja við þá menn, sem þar starfa, — og ýmsir menn, sem þar starfa, eru mjög lágt launaðir menn, — að þessir menn mættu ekki hafa neinn samningsrétt við yfirboðara og eigendur þessa banka, ríkið, heldur skuli þeir ætíð verða að hlíta því, að það sé farið með þá eins og þræla, þannig að það sé ákveðið ofan frá og með lögum, hvaða lífskjör þeir skuli búa við í þjóðfélaginu.

Þeir menn, sem starfa í þjónustu ríkisins, það er ekki þeirra skylda að vernda ríkið. Það eru aðrir menn, sem eru kjörnir til þess. Það eru aðrir menn, sem eru kosnir til þess að sjá um að vernda hagsmuni ríkisins, sjá um, að það sé ekki stolið af ríkinu, t.d. hv. 2. þm. Norðurl. v., sem er kosinn af Alþ. sem endurskoðandi ríkisreikninganna og á að sjá um, hvað þar fer fram. Það er slíkra manna að segja til um og passa upp á, að það sé ekki sóað í vitleysu, og það er slíkra manna, sem þar að auki eru þm., að sjá um, að t.d. heilum fyrirtækjum upp á 300 millj. sé ekki stolið af ríkinu, eins og áburðarverksmiðjunni. Og passi hann það, sem hann er kjörinn til, standi hann með því að láta ekki stela af ríkinu, verndi hann ríkið og reyni að passa upp á, að einhverjir ræningjar láti ekki greipar sópa um eigur þess, áður en hann fer að tala á móti þeim starfsmönnum ríkisins, sem halda uppi starfsemi ríkisins, sem vinna fyrir ríkið, sem sjá um, að hlutirnir gangi, sem sjá um, að það sé ekki allt stöðvað. Hann segir, að þeir eigi að sjá um, að það sé ekki neitt gert, sem sé til niðurdreps. Hverjir eru það, sem halda t.d. áburðarverksmiðjunni gangandi? Það eru verkamennirnir og starfsmennirnir, sem vinna þar. En hverjir eru það, sem ræna henni? Hann þekkir það.

Ég held þess vegna, að hv. 2. þm. Norðurl. v. ætti að tala alveg rólega í þessum efnum og vera ekki að slengja fram óhugsuðu máli, neinum slagorðum, eins og uppreisn eða öðru slíku. Hann talar hér um ásókn í fastlaunuð störf. Hefur hann nokkra hugmynd um, hvernig ástandið er í þessum málum núna? Kannast hann nokkuð við, hvernig muni vera með verkfræðingana nú sem stendur hjá ríkinu? Veit hv. þm., að það hefur verið erfitt undanfarin ár að fá verkfræðinga til þess að sætta sig við að vera í fastlaunuðu starfi hjá ríkinu? Veit hann það, að fyrir nokkrum árum gerðist það, að svo að segja allir verkfræðingar — eða fjöldinn allur af þeim — sögðu upp öllu sínu starfi hjá ríkinu og vildu ekki sætta sig við þau laun, sem ríkið skammtaði þeim með launalögum, og var samt vísitala á þeim þá? Og veit hann, að ríkisstj. verður að gera sérstaka samninga við alla þessa menn utan við öll launalög, samninga um að borga þeim 6–8 þús. kr. á mánuði? Og veit hann, að núna stendur til, að jafnvel þessir menn fari fram á að fá þau laun, sem verkfræðingar í Svíþjóð hafa? Og hver eru þau laun? 15 þús. kr. á mánuði eftir nýjustu ráðstafanir ríkisstj. þeirrar, sem hann styður. M.ö.o.: við stöndum frammi fyrir því, að það er ekki hægt að fá verkfræðinga í fastlaunuð störf, nema þessa fáu, sem eru embættismenn, sem eru skipaðir ævilangt. Haldið þið, að þetta sé ekkert til þess að athuga, þegar ástandið er búið að vera svona á undanförnum 3 árum, að það er ekki hægt að fá þá sérmenntuðu menn, sem eru undirstaðan að öllum þeim framkvæmdum hjá ríkinu, sem hann og aðrir þm. eru að heimta, það er ekki hægt að fá þá til þess að vinna þetta, vegna þess að launin eru svo léleg, sem þeim eru kjörin? Hann heldur, að það sé eitthvað öruggara að vera hjá ríkinu en að vera hjá einstökum atvinnurekendum. Þessir verkfræðingar hafa heimtað að fá að vera einstakir atvinnurekendur, einmitt vegna þess, að þeir vilja ekki sætta sig við þau kjör, sem ríkið býður þeim upp á. Hv. 2. þm. Norðurl. v. verður að gá að því, að sá tími er liðinn, sem við einu sinni bjuggum við, að það þætti það dýrmætasta, sem til var, að vera í þjónustu ríkisins. En það er líka orðin nokkuð mikil breyting á síðan. Það er ekki lengur þannig, eins og á seinni hl. 19. aldarinnar, að biskup landsins og hæstlaunuðu mennirnir hafi laun, sem samsvari 1950 280 þús. kr., á sama tíma sem verkamenn áttu að hafa 30–40 þús. kr. árslaun. Það er ekki alveg sama með embættismennina og var fyrir 80 árum, þegar þeir voru hálaunastétt á Íslandi, og við skulum ekki tala út frá því sjónarmiði. En þýðing þessara stétta fyrir þjóðfélagið hefur margfaldazt. Sú tækni, sem við nú byggjum á, byggist á því, að við fáum þessa menn í okkar þjónustu. Og ég álit, að við eigum að fá þá í þjónustu ríkisins. Það þýðir, að við þurfum að semja við þessa menn og það um laun, sem þeir vilja sætta sig við.

Þegar hv. 2. þm. Norðurl. v. talar um verkfall sem uppreisn, þá hugsar hann enn þá eins og þrælaeigendur forðum daga. Verkfall er nú á tímum bara það að neita að selja sína vöru. Vinnuaflið er vara verkamannsins. Þeir vilja ekki selja hana fyrir þetta verð, og það er það sama sem gerist daglega í hverri búð hérna í Reykjavík. Kaupmaðurinn segist ekki selja sína vöru nema á hagkvæmu verði, og það er ekki kallað uppreisn, þegar það eru kaupmenn, sem gera það. Svo talar hv. 2. þm. Norðurl. v. um, að það sé uppreisn gegn atvinnurekendunum að neita að selja þeim vinnuaflið, sem þeir hafa allan gróðann af, sem þeir lifa af.

Bændur fóru dálítið harðvítugar að en verkamenn gera, þegar þeir voru að berjast fyrir sínu frelsi í þessum efnum. Leiguliðarnir og bændurnir fyrr á öldum áttu til að nota önnur og harðvítugri vinnubrögð en tíðkast í uppreisn nútímans. Og bændur Íslands eru stoltir af því í dag, að þeir skuli hafa þorað að sýna kúgurum sínum í tvo heimana og það jafnvel þó að það hafi þá kostað blóð, sem til allrar hamingju hefur aldrei þurft að útheila í verkfallsbaráttu íslenzkra verkamanna.

Hv. 2. þm. Norðurl. v. er bóndi og skoðar sig sem fulltrúa bænda. Athugar hann, hver er afstaða bænda í dag gagnvart þjóðfélaginu? Bændur hafa sérstakan samning við þjóðfélagið, sem hefur öðlazt sérstakt lagagildi, þannig að þeir eru launaðir með sérstökum ákvæðum, sem eru í samræmi við þau laun, sem verkamenn fá. Þeir eru eins og starfsmenn þjóðfélagsins. Vill hann álíta, ef bændur heimta bætt kjör, hærri laun, hærra kaup fyrir sína vinnu, betra verð fyrir mjólk og kjöt, að það sé uppreisn gegn þjóðfélaginu, uppreisn bænda gegn þjóðfélaginu?

Hv. 2. þm. Norðurl. v. fer að tala um, að samtökin, sem verkamenn geri, séu eitthvað voðalegt. Hvað er það, sem hefur einkennt íslenzka bændur síðustu 50–60 ár? Það er það, að þeir hafa myndað samtök. Hvað er það, sem hefur lyft þeim upp úr fátæktinni, sem þeir bjuggu við? Það er, að þeir hafa myndað samtök, samtök m.a. um að selja sínar vörur. Og þeir hafa hækkað sínar vörur í skjóli slíkra samtaka, alveg nákvæmlega eins og það, sem verkamannastéttin hefur gert. Það, sem hefur gert þessar vinnandi stéttir sterkar, eru þau samtök, sem þær hafa myndað. Hvað væru þeir sem einstaklingar?

Svo talar hv. 2. þm. Norðurl. v. um, að þessi verkfallapólitík síðustu 30–40 árin hafi margfaldað kaupið í landinu. Er það hún, sem hefur gert það? Eru það ekki aðrir menn, sem hafa haft áhuga á að hækka verðlagið jafnóðum? Það eru ekki verkamennirnir, sem hafa gert það. Það hefur ekki verið nein raunveruleg hækkun, sem þeir hafa fengið á kaupi síðustu 20 árin. Vill hv. 2. þm. Norðurl. v. athuga það, þegar þetta mál kemur til umr. aftur, hvernig hlutfallið muni vera í dag á milli verkakaups og verðs á mjólkurlítra og kjöti, dilk eða kú? Hann er sjálfur að leggja til hérna að innleiða landaurakerfið. Skyldi það ekki hafa haldizt nokkuð mikið í hendur, a.m.k. síðustu 20 árin, verðið fyrir bændurna á þeirra afurðum og fyrir verkamanninn á hans kaupi? Ég er hræddur um, að það komi a.m.k. úr hörðustu átt, ef hann vill að einhverju leyti tala sem fulltrúi bænda, þegar hann er að tala á þennan máta. Hann segir, að það sé útilokað að reka landbúnað á Íslandi vegna þessara ráðstafana. Er hann ekki sjálfur öðru hverju með frv. hérna í þinginu til þess að tryggja kjarabætur til handa bændum, jafnvel til þess að stækka þeirra bú, og það jafnvel á þann veg að taka af þeim, sem fátækastir eru og minnst hafa búin og enga möguleika hafa á að hafa launþega í sinni þjónustu, til þess að stækka búin þannig, að þeir geti haft launþega í sinni þjónustu? Ég held hann ætti að athuga dálítið betur, hvað hann er sjálfur að leggja til.

Hann segir, að hann muni aldrei eftir, að kaupíð hafi lækkað. Hefur það staðið til yfirleitt á Íslandi? Ég hef einu sinni ásamt þessum hv. þm. gert eina ráðstöfun hér á Alþ., sem hefur haft mikil áhrif á okkar efnahag í síðustu 20 ár. Við vorum saman í fjhn. 1943 um ákveðnar ráðstafanir. Hverjar voru þær ráðstafanir? Þær ráðstafanir voru þær, að við samþ. þá og fengum Alþ. til að samþykkja það, að tvær stéttir á Íslandi, sem höfðu myndað sterk samtök sín á milli, annars vegar verkamenn og hins vegar bændur, skyldu fá að semja sín á milli um, hvaða laun þessar stéttir ættu að hafa. Og einmitt samtök þessara tveggja stétta skyldu semja um þetta. Við gengum hvorugur okkar út frá því, að þær mundu fara að lækka launin. Nei, þvert á móti. Við vissum báðir fullvel, að það, sem stóð til, var, að þessar stéttir semdu um að hækka launin. Og hvað gerðum við? Við lögðum til við Alþ., að það, sem þessar tvær stéttir samþ., það skyldu vera lög, m.ö.o.: að samtök verkamanna og samtök bænda skyldu ákveða í efnahagsmálunum, hver skyldu vera launin og hvar skyldi vera grundvöllur, sem verð landbúnaðarvara væri reiknað eftir, og það, sem þeir kæmu sér saman um, skyldu vera lög. Og það er búið að vera svo síðan í tæp 20 ár. Var það uppreisn, sem þessar stéttir voru að gera? Nei, það var verið að gera eina skynsamlegustu ráðstöfun, sem gerð hefur verið, að viðurkenna þá staðreynd, að samtök þessara vinnandi stétta, verkamanna og bænda, eru grundvallarvaldið í okkar þjóðfélagi. Verkamenn, opinberir starfsmenn og bændur eru 90% þjóðarinnar, og það væri blinda af Alþingi að sjá ekki, að það er á þessum stéttum og þeirra starfi, sem þjóðfélagið hvílir, og raunverulega á það að vera fyrir þær, allt það, sem gert er. Það var ákveðið með þessum lögum, að þaðan í frá skyldi hver kauphækkun, sem verkamenn með sínum verkföllum — og þau hafa verið mörg síðan — knýði fram, skyldi koma bændum um leið til góða, samkvæmt lögum, sem við tveir áttum frumkvæði að ásamt þrem öðrum mönnum í fjhn. Ég er hræddur um, að hv. 2. þm. Norðurl. v. sé farinn að gleyma ofur lítið, hvað það er, það bezta, sem hann hefur tekið þátt í hér á Alþingi. Þá er ég hræddur um, að hann verði að fara að læra.

Nei, það, sem hér er um að ræða, er að tryggja rétt þeirra manna, sem starfa í þjóðfélaginu, tryggja þeim batnandi afkomu. Það, sem hefur vantað síðustu tuttugu árin, er, að kjör þessara stétta færu batnandi, vegna þess að sú auðmannastétt, sem hér hefur ráðið allmiklu öll þessi ár, hefur í sífellu getað aukið verðbólguna að sama skapi sem launin hafa verið hækkuð, og það er það, sem verður að afnema. Hins vegar hefur á þessum tuttugu árum verið lagður grundvöllurinn að efnahagslegu sjálfstæði landsins. Það er fjarri því, að það sé verið að glata því. Þess vegna er hér um að ræða réttindamál, sem er sjálfsagt fyrir Alþingi að samþykkja, og svona raddir, eins og hv. 2. þm. Norðurl. v. hér hefur komið með, eiga ekki að heyrast á Alþingi. Þær eru aftan úr fornöld, og þær eru í mótsetningu við allt, sem verkamenn og bændur á Íslandi hafa verið að gera á síðustu áratugum. Þann rétt, sem þeir hafa tekið sér sjálfir, verkamenn og bændur, fengið viðurkenndan, fengið lögfestan, hann eiga þeir ekki að neita þeim mönnum um, opinberum starfsmönnum, sem nú hafa af ríkinu verið sviptir þeirri tryggingu, sem þeir hafa haft fram að þessu, að fá vísitölu á kaupgjald, eftir því sem dýrtíðin yxi.