20.05.1960
Sameinað þing: 85. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 267 í C-deild Alþingistíðinda. (2418)

155. mál, tollskrá o.fl.

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Á þskj. 417 er frv. til l. um breyt. á l. nr. 90 25. nóv. 1954, um tollskrá o.fl., sem hv. þm. Daníel Ágústínusson flutti, meðan hann sat hér á Alþingi.

Breytingin, sem felst í þessu frv., er sú að heimila hæstv. ríkisstj. að fella niður aðflutningsgjöld af kvikmyndavélum til félagsheimila og samkomuhúsa í sveitum og kauptúnum með færri íbúa en 500. Á þessum stöðum býr um 26% af þjóðinni, sem nýtur ekki þeirrar gerðar af kvikmyndum, sem frv. þetta fjallar um, en ekki þarf orðum að því að eyða, að kvikmyndir eru ódýr og þægileg skemmtun. Fordæmi fyrir því, að slíkt mætti gerast, eru hljóðfæri til samkomuhúsa, skóla og kirkna, sem einnig eru undanþegin slíkum aðflutningsgjöldum. Ekki ætti hér að vera um mikil fjárútlát að ræða frá hendi ríkisins, því að ekki er hægt að reikna með því, að kvikmyndavélar yrðu annars fluttar inn til þessara staða, vegna þess að það er ekki hægt að reka þar kvikmyndahús með hagnaði.

Hér er um 175 þús. kr. gjöld að ræða, sem yrðu eftir gefin, ef þessi heimild yrði notuð. Frv. býr svo um hnútana, að ekki sé hægt að misnota þessa undanþágu, þó að veitt verði, þar sem aðeins er hægt að njóta þessa í eitt skipti fyrir öll á hverjum stað. Hér er um breytingu að ræða, sem gæti orðið til þess, að þau 26% af þjóðinni, sem eiga ekki aðgang að kvikmyndum af eðlilegri stærð, ættu kost á því, ef frv. næði fram að ganga.

Í trausti þess, að hv. Alþingi geti fallizt á það, er þetta frv. flutt, og ég leyfi mér, herra forseti, að leggja til, að því verði vísað til fjhn. d. að umræðunni lokinni.