13.05.1960
Neðri deild: 81. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 268 í C-deild Alþingistíðinda. (2423)

158. mál, tollskrá o.fl.

Flm. (Unnar Stefánsson):

Herra forseti. Á þskj. 422 er frv. til laga um breyt. á l. nr. 90 20. nóv. 1954, um tollskrá o.fl., um, að ríkisstj. heimilist að endurgreiða aðflutningsgjöld af blómlaukum og blómafræjum samkv. nr. 8 í 6. kafla og nr. 1 í 12. kafla tollskrárinnar. Frv. þetta er flutt að beiðni stjórnar Sölufélags garðyrkjumanna, og felst í því heimild til að endurgreiða aðflutningsgjöld af tveimur rekstrarvörum garðyrkjubænda, blómlaukum og blómafræi, sambærileg við endurgreiðsluheimild hliðstæðra gjalda af öðrum rekstrarvörum landbúnaðarins.

Um þetta frv. er ekki ástæða til þess að fara mjög mörgum orðum. Ég ætla aðeins að geta um tilefni þess, að það er fram komið.

Með ýmsum ráðstöfunum hins opinbera á undanförnum árum hefur raskazt verulega eðlileg verðmyndun í landinu og slitnað úr samhengi verðlag, sem framleiðendur fá. Vegna niðurgreiðslna, sem upp hafa verið teknar í mjög ríkum mæli mörg undanfarin ár, hefur almenningur ekki gert sér grein fyrir raunverulegu verðmæti vörutegundanna. Ef húsmóðir kemur t.d. inn í verzlun og ætlar að kaupa álegg á brauð til heimilisins, þá verður fyrir henni um að velja t.d. kjötmeti, mjólkurost, mysuost, tómata og agúrkur um sumarið. Tvær þessar vörutegunda, tómatar og agúrkur, eru á því verði, sem er undir öllum kringumstæðum eðlilegt og litlu hærra en það verð, sem framleiðendurnir fá fyrir þær, og án nokkurra niðurgreiðslna, vegna þess að garðyrkjubændur hafa ekki hlotið neins konar niðurgreiðsluuppbætur á sínar afurðir. Hins vegar eru hinar landbúnaðarafurðirnar greiddar niður, t.d. um kr. 34,35 hvert kg af smjöri. Mjólkurostur er greiddur á hvert kg niður um kr. 5,25, mysuostur um kr. 2,50. Af þessum tölum er ljóst, að vegna þess, hversu þjóðfélagið ver geysimiklum fjárfúlgum í þessar niðurgreiðslur, hefur samkeppnisaðstaða afurða garðyrkjubænda stórlega verið skert með auknum niðurgreiðslum. Sama er að segja um kartöflur og gulrófur. Kartöflur eru greiddar niður um kr. 2,40 hvert kg. Á heildsöluverði til neytenda kostar kr. 1,74 hvert kg af kartöflum, en bóndi fær fyrir sama kg kr. 4,17. Af þessu er ljóst, að þarna er slitið í sundur allt samhengi milli framleiðslukostnaðar og verðlags í verzlunum. Hins vegar eru gulrófur seldar á 4 kr. og fá engar uppbætur úr ríkissjóði.

Þetta litla dæmi er aðeins sýnishorn um það, hvernig geysimiklar niðurgreiðslur geta verkað óeðlilega á samkeppnisaðstöðu milli þeirra vörutegunda annars vegar, sem eru greiddar niður, og hinna, sem njóta ekki niðurgreiðslunnar, en það eru einmitt sérstaklega afurðir garðyrkjubænda. Eins og nú er ástatt, telja garðyrkjubændur sig ekki geta hækkað neitt afurðir sínar í verði vegna hinnar miklu samkeppni, sem þær verða fyrir frá öðrum landbúnaðarafurðum, m.a. vegna þess, að í síðustu ráðstöfunum hins opinbera hafa komið fram ýmsar ívilnanir fyrir landbúnaðarvörur aðrar en garðyrkjubændaafurðir. Ofan á þetta bætist það, að með efnahagslögunum, sem samþykkt voru síðast í febrúarmánuði, var fellt niður innflutningsgjald af nýjum og þurrkuðum ávöxtum, sem áður voru í 62% gjaldaflokki. Og núna fyllist íslenzki markaðurinn af nýjum ávöxtum, appelsínum, banönum og eplum, sem njóta sérstakra innflutningsfríðinda. Allir geta séð í huga sér, hvernig samkeppnisaðstaða íslenzkra tómata og íslenzkra garðyrkjuafurða yfirleitt verður við hliðina á slíkum vörutegundum, þegar framleiðsluvörur og rekstrarvörur þessa hluta landbúnaðarins eru fluttar inn í landið með fullum gjöldum.

Þessi till., sem hér er flutt, miðar að því, að niður verði felld aðflutningsgjöld af tveimur vöruflokkum. Við þessa breyt. yrði ríkissjóður fyrir mjög óverulegum tekjumissi, en hún mundi að nokkru leyti draga úr því misvægi, sem hefur skapazt á verðlagi garðyrkjuafurða og annarra landbúnaðarafurða, m.a. vegna niðurfellingar aðflutningsgjaldanna. Og það, sem er meira virði, hún mundi skapa garðyrkjubændum skilyrði til að reka atvinnu sína þá mánuði ársins, sem þeir geta ekki ræktað matvörur, en það er um háveturinn. En það er einmitt sá tími, sem þeir nota til þess að rækta blómjurtir.

Sölufélag garðyrkjumanna hefur nýlega ritað hæstv. landbrh., Ingólfi Jónssyni, um þessi mál og gert grein fyrir þeim, og ég hef hér í stórum dráttum sagt hv. Alþ. frá þeim vandamálum, sem garðyrkjubændur eiga nú við að etja. Ég vænti þess, að hv. alþm. líti svo á, að þessi niðurfelling á tollum sé sanngjörn og eðlileg leiðréttingarráðstöfun fyrir þessa fámennu stétt, garðyrkjubændur, sem framfleytir innan við 100 fjölskyldum, en er þó byggð á hagnýtingu jarðhitans, einni okkar mestu orkulinda, og mun án vafa eiga mikla framtíð fyrir sér í landinu.

Ég vil leggja til, að frv. verði vísað til fjhn. deildarinnar.