04.12.1959
Efri deild: 10. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 273 í C-deild Alþingistíðinda. (2432)

25. mál, vegagerð á Vestfjörðum og Austurlandi

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Mál það, sem hér er á dagskrá, er nokkuð sérstætt, því að þar er lagt til, að farið verði inn á þá braut með vegagerð í tilteknum hlutum á landinu, að henni verði hraðað með því úrræði, að ríkissjóður taki til þess lán, og væntanlega er þá gert ráð fyrir, að það sé lán til nokkurs tíma. Þetta veldur því, að það er ekki að ástæðulausu, að menn geri sér grein fyrir þessu máli, og vil ég aðeins benda á örfá atriði í sambandi við það, áður en það fer til nefndar.

Ég vil strax taka það fram, að ég er hv. frsm. algerlega sammála um nauðsyn þess að leggja vegi hvarvetna um byggðir landsins, því að án vega er engin byggð hugsanleg, þannig að það fer ekki á milli mála, að hér er að því leyti um hið mesta nauðsynjamál að ræða. Það, sem hins vegar kemur til athugunar, er annars vegar það, hvort rétt sé að fara inn á þá braut með fjáröflun, sem hér er gert, og þá hins vegar, hvort rétt sé að takmarka þessar fjárveitingar við ákveðna hluta landsins, eins og lagt er til í þessu frv., og taka þá þessa landshluta í sérflokki.

Það hefur löngum verið eitt mesta vandamál í sambandi við afgreiðslu fjárlaga, hvernig skipta ætti fjárframlögum til ýmissa framkvæmda um landið, og eru vegirnir þar í fremstu röð. Hv. flm. gat þess í ræðu sinni, að það hefði verið fylgt þeirri reglu, að nokkurn veginn jafnar fjárhæðir væru veittar í hvert hérað. Þetta er nú ekki alls kostar rétt. Það hefur verið gerður allverulegur munur á hinum ýmsu héruðum með fjárveitingar. En hins vegar er rétt, að það er mjög vafasamt, að fjárveitingarnar séu í samræmi við þörfina í þessum einstöku héruðum, þannig að það hefur ekki verið reiknað út á grundvelli síðari athugana um ástand í vegamálum, hvort hlutföll í fjárveitingum væru eðlileg eða ekki. Það hefur komið stundum til álita í fjvn. að gera slíka útreikninga og reyna að breyta þessum hlutföllum. Það hefur hins vegar komið í ljós, að á því eru miklir erfiðleikar, m.a. vegna þess, að hvarvetna í héruðum landsins eru enn svo margir vegir ólagðir og mikils fjár þörf í vegamálum, að það hefur ekki þótt auðið að lækka fjárveitingar til neinna héraða. Hins vegar hefur aldrei verið fyrir hendi möguleiki til þess að auka fjárveitingar svo, að hægt væri að ná jöfnuði með þeirri aðferð.

Ég geri ráð fyrir því, að þetta frv. sé flutt af þeim ástæðum, að flm. telji ekki miklar líkur til, að hægt sé að auka fjárveitingar í fjárlögum og breyta þannig hlutföllum milli héraða, að sá tilgangur náist, sem þeir hafa í huga með sínu frv., og er það sjónarmið út af fyrir sig eðlilegt og skiljanlegt. En hins vegar rís þá sú spurning, hvort eðlilegt sé, ef þetta fé væri fyrir hendi, að gera þann greinarmun á héruðum, sem hér er lagt til í þessu frv., og það held ég að verði ákaflega erfitt að ná samkomulagi um eða finna grundvöll undir, að þessu fé, ef til staðar væri, yrði nákvæmlega varið til þessara tilteknu tveggja landshluta. Vissulega er það svo, eins og ég áðan sagði, að það er nauðsynlegt að koma öllum býlum í samband við akvegakerfið. En hinu má ekki heldur gleyma, að nauðsyn veganna fyrir framleiðslu þjóðarinnar, framleiðslukerfi hennar, er mjög mismunandi, og kemur þar m.a. til greina munurinn, sem er eftir atvinnuháttum, þannig að um þau byggðarlög, sem t.d. byggja algerlega á mjólkurframleiðslu og þurfa að koma þeim vörum frá sér daglega, eru vegir algert frumskilyrði þess, að hægt sé að stunda slíka búskaparhætti sem mjólkurframleiðsluna. Og vitanlega kemur einnig til greina, sem hafa verður í huga, að það hlýtur að vera brýnni þörf fyrir vegi, þar sem umferðin er mikil, heldur en þar, sem umferð er lítil. Þessum sjónarmiðum er ekki hægt að ganga fram hjá þegar þetta mál er metið. En með því að benda á þau er ég ekki á nokkurn hátt, eins og ég tók fram áðan, að gera lítið úr þörf fólksins á Vestfjörðum og Austfjörðum fyrir vegi, heldur eru þetta almenn sjónarmið, sem menn verða að hafa í huga, þegar tekin er heildarafstaða til þessa máls, eins og það liggur fyrir. Ef það því þætti rétt að taka lán til vegagerðar, þá er ég þeirrar skoðunar, að það væri eðlilegt, að það lán væri í svipuðu formi og lán, sem tekið er til hafnargerðar, þ.e.a.s. að það væri notað til þess að bæta úr þörfum fyrir bætta vegi, þar sem þær eru brýnastar, og yrði þá einhverjum aðila falið að sjá um úthlutun og ráðstöfun þess fjár á grundvelli þeirra athugana.

Þetta held ég að sé sú lausn, sem hlýtur að verða að hafa á þessu máli, ef á annað borð þykir tiltækilegt að leggja út á þá braut að taka lán til vegagerðar.

Nú er það einnig svo, að samkvæmt þessu frv. kann vel að fara þannig, að ríkissjóður verði beint að leggja út þetta fé, vegna þess að skv. frv. ber honum skylda til að verja 6 millj. kr. á ári til umræddra vega, en í 2. gr. er ríkisstj. heimilað að taka innlent lán. Nú er auðvitað engin vissa fyrir því, að ríkisstj. fái slíkt lán. Hennar lánbeiðnir eru margvíslegar, og við vitum öll, að það eru margar lánsþarfir, sem enn eru óuppfylltar, og margvíslegar heimildir, sem ónotaðar eru, þannig að það kynni vel að fara svo, að það yrði að reikna með þessu fé sem árlegu framlagi á fjárl. til þessara vega.

Ég er því ákaflega hræddur um það, að á þessu yrði ekki heppileg útkoma og nánast sagt næsta klúðurslegt að fara annars vegar að verja fé í fjárl. og síðan ætti í ofanálag að fara eftir einhverjum öðrum reglum á Alþingi að úthluta sundurliðuðum fjárveitingum í einstaka vegi í tilteknum landshlutum.

Nú er það svo, að það er fé veitt af benzínskatti til svokallaðra millihéraðavega, og það var hugsunin að reyna með því fé að greiða fyrir því, að það væri hægt að gera stærri átök í vegamálum en gert er með hinum venjulegu fjárveitingum í Alþingi, þar sem bútað er niður í mjög smáar fjárveitingar. Þetta held ég að hafi gefið góða raun. Það má að vísu segja, að þetta fé sé kannske of mikið bútað niður, og það er alltaf sú hætta, sem við stöndum andspænis hér á Alþingi, af því að þarfirnar eru hvarvetna til staðar, að þá hættir mönnum til að fara inn á þá braut, þegar féð er takmarkað, að skipta því of mikið.

Ég álít, að það væri mjög æskilegt, ef það væri hægt að auka þetta fé, því að með því er greidd gatan fyrir stofnæðar vegakerfisins, en þær eru auðvitað undirstaða vegakerfisins í heild. En því miður hefur þessum stofnæðum of lítið verið sinnt, vegna þess að einstök kjördæmi hafa haft takmarkaðan áhuga á því, og þess vegna hafa greinarnar út úr stofninum verið látnar sitja fyrir.

Það er því mín skoðun, ef Alþingi fellst á að fara inn á þá braut að taka lán til vegagerða, að þá eigi að hafa þann hátt á að binda það ekki við ákveðna landshluta, eins og gert er í þessu frv., heldur að því skuli ráðstafað með einhverjum aðferðum eða reglum, sem Alþingi setur, og þá að sjálfsögðu á þann veg, að það verði metið, hvar þarfirnar séu brýnastar og nauðsynin mest fyrir bætta vegi, og það hlýtur þá að sjálfsögðu að koma fyrst og fremst til hagsbóta þeim landshlutum, sem verst eru þar á vegi staddir.

Þá kemur hin hliðmálsins, hvort yfirleitt sé fært að fara út á þá braut að taka lán til vegagerða. Um þetta eru vafalaust skiptar skoðanir. Það hafa komið hér fram till., að vísu hygg ég mjög fáar, um það að taka lán til vegagerðar og þá verið miðað við einstaka vegi. Það hefur þannig legið hér fyrir till. um lán til hins svokallaða Strákavegar, sem byggist á því, að þar er um mjög mikla vegaframkvæmd að ræða, sem vinna verður helzt í einum áfanga og kostar milljónir króna. Og það hafa jafnframt verið uppi hugmyndir um það að taka lán í því skyni að steinsteypa vegi, og þá hefur hugsunin að baki lántökunnar verið sú, að lánið væri hægt að endurgreiða með skatti á bíla, sem færu eftir þessum vegum, þannig að það væri fyrir hendi sérstök fjáröflun til að standa straum af þessum lántökum. Og það hefur meira að segja í sambandi við hina lántökuna, sem ég gat um, til Strákavegar við Siglufjörð, verið uppi sams konar hugmynd, að skattlagðir yrðu þeir bílar, sem nota þau jarðgöng, sem þarf að gera.

Þessar lántökuhugmyndir eru því nokkuð sérstaks eðlis, vegna þess að gert er ráð fyrir, að hægt sé að greiða þau lán, án þess að þurfi að koma til bein fjárframlög úr ríkissjóði. Lán það, sem hér um ræðir, er hins vegar nákvæmlega sama eðlis og aðrar fjárveitingar úr ríkissjóði til vega, að það er ekki reiknað með því, enda ekki hægt, — þarna er um alls konar minni háttar vegi að ræða, sem dreifast víðs vegar út um byggðirnar, — að taka upp neina tekjuöflun sérstaka til þess að endurgreiða þetta lán, heldur yrði að sjálfsögðu að taka upp fjárveitingu í fjárl. til endurgreiðslu þessa fjár, sem yrði þá eins og venjulegt framlag til vegagerðar, að því undanteknu, að hér væri þetta miðað við ákveðna vegi á ákveðnum landssvæðum.

Nú skal ég ekki fella neinn dóm um það, hvort rétt sé að fara inn á þá braut að taka almenn lán til vegagerðar eða ekki. Það er ekkert undarlegt, þó að hugmynd um það komi fram, vegna þeirrar miklu þarfar, sem er fyrir hendi, og ég skil ákaflega vel þm. Vestfirðinga og Austfirðinga, að þeir hafa fyrr og síðar vakið máls á því hér á þingi, að það væri nauðsynlegt að auka fjárveitingar til vegagerðar í þessum landshlutum.

Hins vegar kemur aftur matið á því, hvort hægt er að fara út á þessa braut, og ég geri ráð fyrir, að allir hv. þm. og flm. þessa frv. muni fullkomlega gera sér grein fyrir því, að þarfirnar til ýmiss konar vegaframkvæmda eru svo miklar víðs vegar um landið, utan Vestfjarða og Austfjarða, að með allri virðingu og viðurkenningu fyrir þörfum þessara landshluta held ég, að það verði ákaflega erfitt fyrir þm. annars staðar að hafast ekki að, þegar uppi eru hugmyndir um aukin fjárframlög til vegaframkvæmda.

Ég ætla ekki á þessu stigi málsins að fara að hreyfa neinni brtt. við þetta frv. Ég vildi aðeins vekja athygli á tveimur atriðum í sambandi við þetta mál, sem þarf að íhuga. Í fyrsta lagi er það atriði, hvort á að fara inn á þá braut að taka lán til vegagerða almennt, án þess að um sé að ræða vegaframkvæmdir, sem gert er ráð fyrir að geti staðið undir þeim lántökum sjálfar. Þetta þarf íhugunar við. Og í annan stað vildi ég benda á hitt atriðið, að ef úr því yrði, að talið væri fært að fara inn á þá braut, þá tel ég, að það þurfi að breyta frá þeirri skipan, sem hér er gert ráð fyrir í þessu frv., að þetta fé verði þá lagt í einhvern sérstakan sjóð, svipað og benzínfénu nú er varið til millihéraðavega, og að þessu fé, sem verður til ráðstöfunar á hverjum tíma, verði annaðhvort úthlutað á Alþingi með venjulegu móti eða þá að það verði fengið til ráðstöfunar einhverri n. eða einhverjum aðila, sem sérstaklega fengi þá það hlutverk að rannsaka og meta, hvar væri mest nauðsyn aukinna vegaframkvæmda og bættra vega, og ráðstafa þessu lánsfé þá í samræmi við það, án þess að ákveðið sé um það, að því megi alls ekki verja til neinna vega nema í tilteknum landshlutum. Þetta ætti ekki að þurfa að spilla fyrir því, að þessir landshlutar kæmu þar til greina í fremstu röð, því að ef svo er ástatt sem hv. flm. hér lýsti og ég er síður en svo að draga í efa, að þessir landshlutar séu verst settir, þá kemur auðvitað til álita við mat á öllum aðstæðum fyrst og fremst þörf þeirra, sem við lakastan hag búa í þessu efni.

Ég vildi láta þessi orð falla hér við 1. umr. og til athugunar fyrir þá hv. n., sem fær þetta mál til meðferðar.