04.12.1959
Efri deild: 10. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 280 í C-deild Alþingistíðinda. (2436)

32. mál, framleiðslu- og atvinnuaukningarsjóður

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Ég var að hugsa um það hér áðan, þegar ég hlýddi á hina ágætu ræðu hv. 4. þm. Vestf. (SE), að ég hefði sennilega átt að harma það að hafa ekki fyrr átt kost á því að taka sæti í þessari hv. d. Ástæðan er sú, að það mál, sem hér er nú flutt í þessari d., er að meginefni til samhljóða frv., sem ég hef haft forgöngu um að flytja í hv. Nd. allt frá 1954 og því miður hefur aldrei náð þar fram að ganga.

Ég segi, að það sé ástæða til að fagna því, að þetta mál virðist eiga meiri skilningi að fagna hér í hv. Ed., vegna þess að flokksbræður hv. frsm. málsins í Nd. hafa allt til þessa aldrei haft hinn minnsta áhuga á framgangi þessa máls og aldrei viljað ljá sitt lið til þess, að það næði lögfestingu. Er þó, eins og ég áðan sagði, frv. það, sem ég hef ásamt fleiri hv. þm. í Nd. flutt undanfarin þing, að meginefni til samhljóða því frv., sem hér er flutt nú.

Ef til vill kann það að vera skýringin á því, að þetta frv. er nú flutt, að hv. flm. telji nauðsynina á þessari starfsemi fyrst hafa komið til nú, þannig að það hafi ekki verið ástæða til að skipuleggja hana með löggjöf fyrr. Um það skal ég ekki segja. En manni kemur það óneitanlega til hugar, úr því að þessi mikli áhugi birtist fyrst nú og þetta mál mitt hefur verið tekið hér upp.

Nú er að vísu vitnað í það í grg. frv., sem hér liggur fyrir, að að meginefni til sé þetta frv. byggt á frv., sem flutt hafi verið af ríkisstj. á öndverðu ári 1956, eða á aðalþinginu 1955, og er það að vísu rétt. En því einkennilegra er, að það skuli ekki hafa náðst áður samstaða um það frv., sem ég hef ásamt nokkrum þingbræðrum mínum flutt síðan og hefur að meginefni einnig verið byggt á þessu sama frv., eftir að það kom fram, því að þá var, á árinu 1956, breytt frv. mínu og þeirra manna, sem að því stóðu þá, til samræmis við þetta stjórnarfrv., sem vitnað er til í grg.

Frv., sem síðan hefur verið flutt þing eftir þing og aldrei hefur hlotið þann stuðning, að það næði fram að ganga, og aldrei hefur hlotið meðmæli flokksbræðra hv. flm. hér í hv. fjhn. Nd., er í öllum verulegum atriðum samhljóða því frv., sem nú er flutt. Það, sem ég því segi hér, er alls ekki til þess að fetta á neinn hátt fingur út í þær röksemdir, sem hv. 4. þm. Vestf. hefur hér flutt, heldur get ég efnislega tekið undir þær frá orði til orðs. Ég sé mér hins vegar skylt að þakka honum og meðflutningsmönnum hans fyrir það, að þeir skuli nú hafa tekið upp þetta mál og að meginefni til á þann veg, sem ég tel æskilegt að lög um þetta efni séu.

Það eru að vísu í þessu frv. nokkur atriði, sem ég er ekki ásáttur með, og efnislega hefði það mátt vera líkara því frv., sem vitnað er til í grg., að ríkisstj. hafi flutt 1956, því að það mál var tvíþætt, annars vegar kerfisbundnar athuganir og rannsóknir á atvinnulífi þjóðarinnar, hins vegar stofnun jafnvægissjóðs og lánastarfsemi hans. Það er að vísu að því vikið í 6. gr. þessa frv., að ríkisstj. sé heimilt að fela stjórn þessa sjóðs athugun þeirra mála, sem svokölluð atvinnutækjanefnd hefur haft með höndum að undanförnu, en ég tel, að það hefði verið þörf á, að hér væri ekki aðeins um heimild að ræða, heldur væri þetta eitt af meginverkefnum stjórnar þessa sjóðs, því að til þess að hún geti sinnt sínu hlutverki, verður hún að hafa við að styðjast þær upplýsingar, sem gert er ráð fyrir í þessari gr. að heimilt sé að fela stjórn sjóðsins að vinna eð. Ef þessi sjóður, hvað sem hann á að heita, á að geta sinnt sínu hlutverki, er forsendan sú, að jafnan sé fylgzt af hálfu stjórnar sjóðsins rækilega með atvinnuafkomunni á hverjum stað og framkvæmdir allar við það miðaðar, að það sé hægt að leysa úr þörfinni á sem hagkvæmastan hátt.

Ég hef ár eftir ár hér í þingi í sambandi við frv. mitt, sem aldrei hefur komið meira en til 1. umr., lagt áherzlu á, að það hafi komið að mun minni notum, þetta atvinnuaukningarfé, einmitt fyrir þá sök, að ekki hefur verið til löggjöf, og af því hefur leitt, að það hefur ekki verið hægt að vinna skipulega að framkvæmd þessarar atvinnujöfnunar og því miður bæði fyrr og síðar verið allt of handahófskennd úthlutun þessa fjár.

Ég ætla ekki, herra forseti, að lengja umr. með því að orðlengja frekar um þetta mál. Ég vil aðeins ítreka það, að ég læt í ljós ánægju mína yfir því, að hv. framsóknarmenn hér í Ed. — og ég vona, að þeir njóti þá einnig stuðnings sinna flokksbræðra í Nd., — hafa nú horfið frá sinni fyrri afstöðu til þessa máls og virðast hafa áhuga á því, að það nái fram að ganga, og tel ég það vissulega gleðiefni og vænti þess, að á þessu þingi verði auðið að afgr. löggjöf um þetta efni, sem að haldi megi koma og geti lagt grundvöll að því mikilvæga starfi að stuðla að því, að land okkar geti verið fullnýtt og hvarvetna verði notaðir til fulls þeir möguleikar til framleiðslu, sem landið og hafið í kringum það bjóða.