31.05.1960
Efri deild: 88. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 307 í C-deild Alþingistíðinda. (2484)

172. mál, sveitarstjórnarlög

Frsm. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Frv. þetta er flutt af heilbr.- og félmn. hv. þd. að beiðni félmrh. Svo sem fram kemur í grg., er frv. samið af nefnd, sem félmrh. skipaði árið 1958 til þess að endurskoða löggjöfina um sveitarstjórnarmál og semja frv. um þau efni. Í n. áttu sæti þeir Bjarni Þórðarson bæjarstjóri í Neskaupstað, Björn Björnsson sýslumaður, Hvolsvelli, Hjálmar Vilhjálmsson ráðuneytisstjóri, sem var form. n., Jón Guðjónsson bæjarstjóri á Ísafirði og Tómas Jónsson borgarlögmaður, sem var ritari nefndarinnar.

Eins og kunnugt er, gilda sveitarstjórnarlögin frá 1927 aðeins um hreppa og sýslur, en um kaupstaðina gilda hins vegar sérstök lög fyrir hvern einstakan, og þau lög eru flest mjög lík og jafnvel samhljóða. N., sem frv. samdi, taldi, að ekki væru slík brögð að sérákvæðum fyrir hvora tegund sveitarfélaga um sig, annars vegar hreppana, hins vegar kaupstaðina, að frágangssök væri, að ein og sömu sveitarstjórnarlög giltu fyrir hvor tveggja, og valdi því þann kostinn að semja eitt frv., sem tæki bæði til kaupstaða og hreppa, og væri þar sérstakur kafli, sem fjallaði um sýslufélögin. N. bendir jafnframt á, að þörf sé nýrrar löggjafar um nokkur atriði varðandi sveitarfélögin, sem frv. fjallar ekki um, svo sem um sveitarstjórnarkosningar. Hún bendir einnig á, að hagstætt geti verið, að sameinuð verði í einum lögum núgildandi ákvæði um stærð og takmörk lögsagnarumdæma kaupstaðanna, en í því efni eru að sjálfsögðu sérákvæði fyrir hvern kaupstað um sig.

Þetta frv. er í 5 köflum. Í 1. kafla eru almenn ákvæði, aðallega um nöfn sveitarfélaga og hlutverk þeirra. 2, kafli fjallar um stjórn sveitarfélaganna, þ.e.a.s. um sveitarstjórnir og framkvæmdastjórn sveitarfélaga. 3. kaflinn er um fjárreiður sveitarfélaganna, sá 4. um sýslufélög og 5. kaflinn svo um gildistökuákvæði o.fl.

Í frv. eru ýmis nýmæli, þó að hins vegar verði ekki sagt, að þar séu yfirleitt mjög róttækar breytingar lagðar til. Um nýmæli má nefna það, að í 5. gr. er lagt til, að félmrn. sé heimilað að sameina mjög fámenn hreppsfélög þeim nágrannahreppi, sem sýslunefnd telur bezt henta, en samkv. gildandi lögum er slík sameining ekki heimil, nema því aðeins að fyrir liggi beiðni hlutaðeigandi hreppsnefnda og meðmæli sýslunefndar.

Þá er í 6. og 7. gr. lagt til, að heimild til þess að skipta sveitarfélagi verði bundin því skilyrði, að nýju sveitarfélögin nái eftir skiptinguna ákveðinni lágmarkstölu íbúa.

Í 11. gr. frv. ræðir m.a. um takmarkanir á rétti sveitarfélaga til þess að ráðstafa, þ.e.a.s. selja og veðsetja kröfur til útsvars og skatts og nánar tilteknar eignir, tæki og mannvirki, sem nauðsynleg eru, til þess að sveitarfélagið geti látið íbúum sínum í té lögboðna eða félagslega nauðsynlega þjónustu. Í e-lið þeirrar greinar er lagt til, að samþykki rn. þurfi til þess, að sveitarfélag hafi með höndum áhættusaman atvinnurekstur, svo sem útgerð, iðnað og verzlun, eins og það er orðað í frv.

Í 2. kafla, sem fjallar um stjórn sveitarfélaga, hefur n. tekið upp nokkur ákvæði úr l. um sveitarstjórnarkosningar frá 1936, sem n. taldi að eðli málsins skv. ættu betur heima í sveitarstjórnarlögum. Þar má nefna það nýmæli t.d., að í 17. gr. er lagt til, að við almennar sveitarstjórnarkosningar verði einn og sami kjördagur fyrir alla hreppa og kaupstaði, þ.e.a.s. síðasti sunnudagur í maímánuði.

Í 19. gr. er lagt til, að skilyrði fyrir kjörgengi sé auk lögheimilis í hlutaðeigandi sveitarfélagi einnig kosningarréttur þar, en samkv. núgildandi lögum er kosningarréttarskilyrðið frávíkjanlegt undir vissum skilyrðum.

Í þessum kafla eru m.a. nokkur nýmæli varðandi tölu fulltrúa í sveitarstjórnum, þóknun til sveitarstjórnarmanna, þar er m.a. lagt til, að tekið verði upp sameiginlegt heiti fyrir oddvita hreppsnefnda og forseta bæjarstjórna, sem sé heitið formaður sveitarstjórnar. Einnig er lagt til, að felld verði niður sú regla, að atkv. oddvita ráði úrslitum, ef atkv. eru jöfn. Það er lagt til, að um fjárhagsáætlun sveitarfélaga allra skuli hafa tvær umr., með vissum undanþágum þó fyrir fámennari sveitarfélög, og einnig, að félmrn. skuli með reglugerð setja fundarsköp, sem gildi fyrir allar sveitarstjórnir.

Í þann hluta 2. kafla, sem fjallar um framkvæmdastjórn sveitarfélaga, eru m.a. tekin upp ákvæði l. frá 1951 um sveitarstjóra, með nokkrum breyt. þó, m.a. varðandi ráðningu þeirra og ráðningartíma. Í gildandi lögum er heimild til handa borgarstjóra, bæjarstjóra og í sumum tilfellum forseta bæjarstjórnar að fella úr gildi til bráðabirgða vissar ákvarðanir bæjarstjórnar. Þessari heimild mun tæpast hafa verið beitt, og er lagt til, að hún falli niður, en í stað þess verði bæjarstjórum, þar með talinn borgarstjóri í Reykjavík, fengið slíkt vald, þegar bæjarstjórn stofnar til verulegra útgjalda, sem hefur ekki verið gert ráð fyrir í gildandi fjárhagsáætlun. Einnig er í þessum kafla lagt til, að bæjarráðum, þar sem þau eru, sé fengið vald til þess að taka fullnaðarákvörðun um minni háttar fjárhagsatriði.

3. kaflinn fjallar um fjárreiður sveitarfélaganna. Þar er m.a. í kaflanum um bókhald lagt til að skylda sveitarfélög, sem hafa 500 íbúa eða fleiri, til þess að hafa tvöfalt bókhald. Þar eru nokkur nýmæli varðandi fjárhagsáætlun sveitarfélaga, ársreikninga, endurskoðun o.fl., og í þennan kafla hafa verið tekin upp mörg ákvæði l. um eftirlit með sveitarfélögum frá 1940, með allmiklum breyt. þó og viðaukum.

Og í 4. kafla, sem fjallar um sýslufélögin, er einnig um nýmæli að ræða.

Ég hef nú aðeins drepið á fáein nýmæli, sem frv. hefur að geyma. Þau eru að sjálfsögðu langtum fleiri, og vísast að öðru leyti til grg. þeirrar, sem frv. fylgir frá n., sem frv. samdi.

Eins og ég áður sagði, er frv. flutt af heilbr.- og félmn. að beiðni félmrh., en n. í heild og einstakir nm. áskilja sér rétt til að flytja við það brtt. og fylgja brtt., sem fram kunna að koma. Ég leyfi mér svo að óska þess við hæstv. forseta, að málinu verði vísað til 2. umr.