07.12.1959
Sameinað þing: 8. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 8 í D-deild Alþingistíðinda. (2492)

22. mál, frestun á fundum Alþingis

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Kosningum er nú nýlega lokið, og það er dálítið fróðlegt að rifja upp þær skyndilegu breytingar, sem hafa orðið á viðhorfum eftir kosningarnar frá því, sem áður var. Ég ætla að minna ykkur á það, kjósendur Alþfl., að þið brugðuzt aldrei reiðari við en ef ég sagði við ykkur, að ráðamenn flokksins mundu nota atkv., sem þið greidduð frambjóðendum hans, til þess að koma Sjálfstfl. til valda. Þið sögðuð mörg við mig, að þetta væru ósannindi og áróður. Hverjar eru nú staðreyndirnar, kjósendur góðir? Ráðamenn Alþfl. létu blað sitt segja eftir kosningarnar, að málefni mundu ráða, með hverjum yrði unnið. Þið, sem enn trúðuð, hélduð því, að samið hefði verið um málefni, er ríkisstj. var mynduð. Nú er komið í ljós það gagnstæða. Stjórn hefur verið mynduð án málefnasamnings um höfuðatriðin og ekki með einu orði reynt í samtölum við aðra flokka en Sjálfstfl. að prófa það, hverjir ættu helzt samleið um málefnin. Ráðamenn Alþfl. telja það svo sjálfsagt, að þeir eigi samleið með íhaldinu einu, að þeir neita því sem fjarstæðu að ræða við Framsfl. og Alþb. Í þeirra augum getur slíkt ekki komið til mála. Þið, kjósendur Alþfl., sem urðuð okkur reiðastir, er við sögðum ykkur allt þetta fyrir kosningarnar, hvað segið þið nú?

Ráðamenn Alþfl. töluðu mikið um þann sparnað að hafa ráðh. aðeins fjóra, þessi ráðdeildarsemi væri til eftirbreytni framvegis. Við sögðum ykkur, að þetta væru blekkingar fyrir kosningar. Hvað segið þið nú um ráðherrana 7 eftir kosningar? Nú er ekki talað um kostnaðinn, heldur að fólkið lifi um efni fram.

Eins og landsmönnum er í fersku minni, var það mest áberandi málið í kosningabaráttunni. að Alþfl.-ráðherrunum hefði — að eigin sögn — tekizt að stöðva dýrtíðina, enda væru það einu mennirnir í landinu, sem þyrðu að stjórna. Hagur ríkissjóðs og útflutningssjóðs, sögðu þeir, að stæði með blóma.

Enginn efi er á því, að margir kjósendur kusu stjórnarflokkana í þakklætisskyni fyrir að hafa komið öllu þessu til leiðar, enda væri þeim einum trúandi til að halda áfram stöðvunarstefnunni. Nú er fyrst kosið um stöðvunarstefnuna, sagði einn mikilsmetinn Alþýðuflokksmaður við mig, þegar hann var að fara á kjörstað. Er þá ekki allt í bezta lagi eftir kosningarnar? Ríkisstj. Alþfl., sem Sjálfstfl. myndaði s.l. vetur, tók við úr hendi vinstri stjórnarinnar tekjuafgangi hjá ríkissjóði, sem mun í reynd nema 70–80 millj, kr., auk einhvers tekjuafgangs hjá útflutningssjóði. Arfurinn, sem stjórnarflokkarnir tóku við úr eigin hendi, var hins vegar kauphækkunaraldan mikla, sem þeir komu á til þess að fella vinstri stjórnina, eins og kunnugt er.

Það eina, sem fyrrv. stjórn gerði, var að hækka útflutningsuppbætur og niðurgreiðslur um 250–300 millj. kr., sóa í þessa hít tekjuafganginum frá vinstri stjórninni. skera niður verklegar framkvæmdir, hrúga inn hátollavarningi meira en dæmi eru til, skilja eftir sig vanskilavíxla utan lands og innan fyrir því, sem ekki var hægt að skrapa saman. Þetta eru blákaldar staðreyndir, sem blasa við eftir kosningar. Hver er svo afleiðingin, er í ljós kemur eftir kosningar? Haldið þið ekki, að það hafi verið stöðvun verðbólgunnar, eins og lofað var og þið kusuð þá fyrir að hafa framkvæmt? Nei, hér er farið með svo ferlegar blekkingar, að afleiðingar stjórnarstefnunnar eru allt annað en það, sem þjóðinni var talin trú um og lofað í kosningunum.

Þegar myndun hæstv. núv. ríkisstj. var lýst hér á Alþ., var gefin stutt yfirlýsing og almennt orðuð um stefnu stjórnarinnar, ekki eitt orð sagt um stöðvun stjórnarflokkanna á verðbólgunni, sem hafði verið aðalkosningamálið. En í þess stað fór hæstv. forsrh. á fund í Sjálfstæðishúsinu og sagði flokksmönnum sínum, að ástand og horfur væru miklu verri en stjórnarflokkarnir hefðu getað gert sér í hugarlund fyrir kosningar. Vanta mundi um 250 millj. kr. til þess, að ríkissjóður og útflutningssjóður gætu staðið við nauðsynlegar skuldbindingar sínar á næsta ári. Jónas Haralz, sérfræðingur ríkisstj. í efnahagsmálum, talaði 1. desember s.l. Hann talaði heldur ekkert um stöðvunarstefnu stjórnarflokkanna, sem mest var talað um fyrir kosningar. Og því fór svo fjarri, að hann teldi fyrrv. ríkisstj. hafa stöðvað verðbólguna, að eftir stjórnartímabil hennar taldi hann ekki verðbólgu yfirvofandi, heldur óðaverðbólgu. Í kosningunum var ykkur sagt, að með því að kjósa stjórnarflokkana væruð þið að kjósa stöðvunarstefnuna. Eftir kosningarnar upplýstist, að þið voruð að kjósa þá, sem hafa leitt yfir þjóðina óðaverðbólgu.

En þetta sögðum við framsóknarmenn þjóðinni í kosningunum. Við sögðum, að það væri blekking og ósannindi, að fyrrv. ríkisstj. hefði stöðvað verðbólguna, heldur væri hún að gera ástandið enn þá verra en áður með því að sóa fjármunum til þess eins að fela dýrtíðina þangað til eftir kosningar, til þess eins að blekkja kjósendur til fylgis við sig með vísvitandi ósannindum. Nú er þetta staðfest, og sönnunargögnin eru hæstv. forsrh. og sérfræðingur ríkisstj. í efnahagsmálum.

Það hefur verið ófrávíkjanleg hefðbundin venja, að fjmrh. héldi fjárlagaræðu sína um fjárlagafrv. fyrstu daga þings — og þingmönnum og þjóðinni þannig í heyranda hljóði gerð grein fyrir staðreyndum um fjárhagsafkomuhorfur, áður en störf þingmanna við vandamálin hefjast. Frá þessari grundvallarreglu þingræðisins hefur ekki þótt fært að víkja, þó að nýr fjmrh. hafi tekið við í byrjun þings og fráfarandi fjmrh. hafi samið fjárlagafrv. Nú mun það mála sannast, að sjaldan eða aldrei hefur verið meiri ástæða til að gefa þessa hefðbundnu skýrslu en einmitt nú. En þá upplýsist, að hæstv. ríkisstj. ætlar að láta það verða sitt fyrsta verk að brjóta niður þessa venju. Hún heimtar tekjuöflunarfrumvörp samþ. og að sér sé veitt bráðabirgðagreiðsluheimild úr ríkissjóði, síðan skyldi þingið sent heim umsvifalaust án þess að fá nokkra skýrslu um ástand og horfur nema það, sem frétzt hefur utan úr bæ. Allt skyldi þetta gert með margföldum afbrigðum frá þingsköpum. Brátt kom einnig í ljós, að hæstv. ríkisstj. ætlaði sér að neita að leggja fyrir Alþ. til atkvgr., áður en það verði sent heim, brbl. um búvöruverðið, sem falla úr gildi 15. þ.m.

Hæstv. forsrh. mun hafa órað fyrir því, þó að hann léti ekki svo áðan, að stjórnarandstaðan tæki þessum furðulegu vinnubrögðum ekki þegjandi. Þess vegna óskaði hann viðræðna við formenn stjórnarandstöðunnar um málið. Afstaða okkar framsóknarmanna var og er þessi: Ríkisstj. er auðvitað sjálfráð um það, hvaða frest hún þarf enn að taka, til þess að hún treysti sér til að koma fram með till. um hið nýja efnahagskerfi. Þó hefur hæstv. ríkisstj. sagt svo mikið um áform sín, að ýmsum mun vera það kærkomin vitneskja og munu áreiðanlega kunna að nota sér hana vel, meðan fresturinn varir. Þetta atriði verður rætt síðar.

En við gerðum og gerum þá ófrávíkjanlegu kröfu, að áður en þinginu er frestað, sé fullnægt þeirri hefðbundnu þingræðislegu reglu og venju, að fjmrh. gefi þingi og þjóð skýrslu um fjárhagsafkomu og horfur. Enn fremur krefjumst við þess, að brbl. um búvöruverð verði lögð fyrir Alþ. og því veitt tækifæri til að taka fullnaðarafstöðu til þeirra, áður en þau falla úr gildi 15. þ.m. Þetta teljum við lágmarksskyldu ríkisstj., sem vill hafa þingræði í heiðri.

Í rökræðum um málið færir ríkisstj. ekki fram neinar frambærilegar ástæður fyrir þessum óþingræðislegu bolabrögðum. Hún hrekst frá einu í annað. Hún talar um sparnað. Sannað hefur verið, að um engan sparnað er að ræða. Hún talar um aðgerðalaust þing. Sannað er, að þetta er ósatt. Fyrir þinginu liggja mörg aðkallandi mál. þ. á m. þau tvö, sem ég áður hef nefnt og ber að afgreiða, áður en þingi er frestað. Hún segist þurfa vinnufrið. Enginn er á móti því, enda hefði hæstv. ríkisstj. fengið betri vinnufrið með því að komast hjá því að standa í þreytandi þrefi dag og nótt við að brjóta niður þingræðislegar venjur.

Það er ekki undarlegt, þó að spurt sé: Hvers vegna fremur ríkisstj. þetta gerræði? Sumir segja, að stjórnarflokkarnir þori ekki að gefa þjóðinni rétta skýrslu um afkomuhorfur nú, því að svona fljótt eftir kosningar verði þetta of snöggt áfall fyrir kjósendur, sem fyrir kosningar voru látnir trúa því, að stjórnarflokkarnir hefðu stöðvað verðbólguna, eins og ég hef rakið. Þetta kann að vera. Sumir geta sér þess til, að hin ótímabæra frestun sé til þess gerð, að þingið sé ekki til staðar, er bráðabirgðalögin um búvöruverðið falla úr gildi 15. þ.m. Þegar búið sé að senda þingið heim, ætli hæstv. ríkisstj. að gefa út ný brbl. Ef þetta yrði gert, mætti eins gera það hvað eftir annað og í fleiri stórmálum. Það væri ekki þingræði, heldur einræði. Ég trúi ýmsu um þessa stjórn eftir að hafa séð óverjandi brot hennar á hefðbundnum venjum og þingsköpum, en að hún fremji slíkt athæfi, brúi ég ekki, fyrr en ég tek á.

Til þess að geta brotið niður tvær meginreglur þingræðisins, að halda fjárlagaræðuna og leggja fyrir brbl. eðlilega, áður en Alþ. er frestað, eru forsetar þingsins látnir hafa sig til þess að fremja gerræði á gerræði ofan. Fimm frv. er slegið saman í eitt og ræðutími þingmanna þannig styttur niður í 1/5 af því, sem þingsköp löghelga. Ofan á þetta er ræðutíminn skorinn niður. sem ekki hefur átt sér stað í tíu ár. Það er engu líkara en hæstv. ríkisstj. sé að þreifa fyrir sér um það, hve mikið hún geti brotið niður af þingræðinu á sem stytztum tíma. En yfirbragð ráðherranna seinustu daga virðist sýna, að þeir hafi komizt að raun um, að þetta sé ekki eins auðvelt og þeir hafa haldið. Stjórnin afsakar sig með því, að meiri hl. Alþ. samþykki aðgerðirnar. Það gerðu líka nazistar og fasistar, þegar þeir brutu niður þingræði á Ítalíu og Þýzkalandi, notuðu til þess auðsveipan meiri hluta. Allt er þetta athæfi hæstv. ríkisstj. hættulegt þingræðinu, fordæmanlegt og vítavert.

Ill var þín fyrsta ganga. Það eru vissulega sannmæli um þessa ríkisstjórn.