07.12.1959
Sameinað þing: 8. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 28 í D-deild Alþingistíðinda. (2497)

22. mál, frestun á fundum Alþingis

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Góðir hlustendur. Stjórnarandstaðan vill ekki frestun á fundum Alþingis. Hefur hún því haldið uppi málþófi til þess að tefja þinghaldið. Þegar rætt hefur verið um framlengingu ýmissa laga, sem undanfarin ár hafa gengið umræðulaust í gegnum þingið, hefur stjórnarandstaðan rætt um algerlega óskyld mál, svo sem brbl. fyrrv. ríkisstj. og annað, sem ekki hefur komið dagskránni við. Ýmis brigzlyrði hafa verið höfð í frammi og talið, að ríkisstj. vildi brjóta lög með því að leggja ekki fram á fyrstu dögum þingsins hin margumræddu brbl. Á dögum vinstri stjórnarinnar dróst í þrjá mánuði að leggja fram brbl., en að þessu sinni var aðeins liðinn hálfur mánuður af þingtímanum, þegar lögin voru lögð fram. Hv. 2. þm. Vestf. sagði hér áðan, að ríkisstj. hefði verið pínd til þess að leggja 1ögin fram. Þetta er vitanlega algerlega rangt, því að ríkisstj. hefur alltaf ætlað sér að fara að lögum hvað þetta mál snertir, svo sem um önnur mál.

Vitað er, að stjórnarflokkarnir hafa ekki samstöðu til þessara laga. Alþfl.-stjórnin stóð að útgáfu þeirra s.l. haust. Sjálfstfl. er andvígur lögunum. Er þetta öllum landsmönnum ljóst eftir umr. og blaðaskrif um málið fyrir alþingiskosningarnar í haust. Stjórnarandstaðan hefur gert sér vonir um, að miklar umr. um þetta mál á Alþ. gætu valdið erfiðleikum í ríkisstj. Er það og víst, að deilur um málið gætu torveldað lausn þess. Nauðsynlegra er að leysa þá erfiðu deilu, sem risin er á milli neytenda og framleiðenda, heldur en að hefja illvígar deilur á Alþ. um málið. Ríkisstj. hefur gert sér fulla grein fyrir því, að deiluna verður að leysa. Hefur því verið markvisst að því unnið að fá sættir á milli Stéttarsambands bænda og framleiðsluráðs landbúnaðarins annars vegar og fulltrúa neytenda hins vegar. Er með þessu unnið að því að gera framleiðsluráðslögin virk. Eru sátta- og umræðufundir þessa daga milli deiluaðila undir forustu Gunnlaugs Briems ráðuneytisstjóra. Deila sú, sem um er að ræða, er til komin vegna þess, að fulltrúar í sex manna n. komu sér ekki saman, þegar reikna skyldi út verðgrundvöll landbúnaðarvara á s.l. sumri. Ekki tókst heldur að ná samkomulagi um útnefningu á manni í yfirdóminn. Hagstofustjóri sýndi hins vegar fram á, að miðað við gamla grundvöllinn átti verð landbúnaðarvara að hækka um 3.18%. Fulltrúar bænda töldu, að breyttar aðstæður og aukinn rekstrarkostnaður búanna leiddi til a.m.k. 5% hækkunar. Fulltrúar neytenda töldu, að verðlagið gæti lækkað verulega, eða allt að 8%. Síðan 1. sept. s.l. hefur verðlagið samkv. brbl. verið óbreytt frá því 1. marz þessa árs. En nýr verðlagsgrundvöllur hefur ekki enn verið fundinn. Er nauðsynlegt, að það dragist ekki lengi úr þessu og deiluaðilar skipi 6 manna n. á ný svo og yfirdóminn, ef til þess kemur, að n. nái ekki samkomulagi. Með samkomulagi því, sem nú er unnið að, verður að tryggja, að bændur fái til sín það verð, sem gert er ráð fyrir í verðlagsgrundvellinum. Í öðru lagi er nauðsynlegt, að dreifingarkostnaðurinn sé á hverjum tíma eðlilegur og ekki hærri en nauðsyn ber til. Eru það sameiginlegir hagsmunir neytenda og bænda, að þannig sé um hnútana búið. Ef deiluaðilar setjast niður með samkomulagsvilja, ákveðnir í því að reikna rétt og láta staðreyndirnar tala, hlýtur deilan að leysast, og báðir aðilar munu þá sætta sig við niðurstöðuna.

Stjórnarandstaðan á þingi hefur gert sér miklar vonir um, að deilan leysist ekki með samkomulagi. Hefur hún jafnvel gert sér vonir um, að ríkisstj. félli á þessu máli. Framsóknarmenn berjast ekki í þessu máli vegna hagsmuna bændastéttarinnar, heldur til þess að torvelda samkomulagið, í von um það, að erfiðleikar innan ríkisstj. fari vaxandi út af þessu máli. Framsóknarmenn hafa flutt till. um heimild fyrir ríkisstj. til þess að greiða 3.18% á landbúnaðarvörur frá 1. sept. til 15. des. n.k. Till. þessi er sýndartillaga og með öllu óþörf, enda hnýtt aftan í óskylt mál í sambandi við bráðabirgðagreiðslur úr ríkissjóði á næsta ári.

Hv. 3. þm. Norðurl. v., Ólafur Jóhannesson, fullyrti hér áðan, að sjálfstæðismenn ætluðu ekki að standa við loforð sín gagnvart bændum. Framsóknarmenn minna sjálfstæðismenn á yfirlýsingar sínar frá s.l. hausti með því að lesa þær upp. Þetta er þó alger óþarfi. Allir landsmenn vita um skoðanir sjálfstæðismanna og afstöðu til brbl., sem er óbreytt og í samræmi við yfirlýsingar flokksins og miðstjórnar á s.1. hausti. Á þetta þarf þess vegna ekki að minna.

Það er mikið skemmdarstarf unnið með því að magna deilur milli neytenda og framleiðenda, milli sveita og kaupstaða. Ekkert er nauðsynlegra en að auka skilning milli þjóðfélagsþegnanna, auka samstarf og eyða misskilningi. Það hefur borið á því, síðan framsóknarmenn misstu völd og áhrif, að þeir bera fram mál, sem sýnast vera hagsmunamál bænda. Er ekki að efa, að í stjórnarandstöðunni muni þeir reyna að flytja ýmis mál, sem æskilegt væri að koma í framkvæmd, en þeir treystu sér ekki til að framkvæma, meðan þeir höfðu völdin. En í sambandi við flutning slíkra mála er rétt að minnast þess, að mesta áhugamál framsóknarmanna á þingi er, að vinstri stjórnin verði endurreist. Þeir þm., sem uppvísir eru að slíkum hugsunarhætti og vilja taka upp fyrri stefnu vinstri stjórnarinnar í því formi, sem hún áður var. sbr. yfirlýsingar 1. þm. Austf., Eysteins Jónssonar, við setningu Alþingis 20. f.m., verða ekki teknir hátíðlega, þegar þeir telja sig vilja vinna að bættum kjörum almennings í landinu.

Þjóðin veit, að stefna vinstri stjórnarinnar er hrunstefna, sem leiðir til tjóns og kjararýrnunar fyrir almenning í landinu, bæði til sjávar og sveita. Reynslan talar skýru máli hvað þetta snertir, og þarf því tæplega að fara fleiri orðum um það. Vinstri stjórnin lækkaði gengið tvisvar sinnum, en hún hefur aldrei eða fyrrv. stjórnarflokkar viljað viðurkenna það, hvorki kommúnistar né framsóknarmenn. Þess vegna er það, að við búum núna við falskt gengi, og er undraverð sú kokhreysti hjá hv. þm. Lúðvík Jósefssyni áðan, þegar hann virtist hneykslast á því, að gengisbreyting væri ef til vill í vændum, sem þó hefur ekki neitt verið ákveðið um enn.

Verkefni núv. ríkisstj. eru að leiðrétta ýmsar misfellur í þjóðarbúskapnum, sem eru arfur frá vinstri stjórninni. Ekki mun vera unnt á skömmum tíma að lagfæra allar misfellurnar. en reynt verður á markvissan hátt að vinna að þeirri leiðréttingu. Leiðin til úrbóta í vandamálum þjóðfélagsins er ekki greið, eins og nú er komið. Verkefni ríkisstj. eru vandasöm og verða að miðast við það að tryggja framtíðina og leggja grundvöllinn að góðri afkomu alls almennings. Stefna verður að bættum stjórnarháttum og tryggja öllum næga atvinnu og batnandi lífskjör í framtíðinni. Stefna ber að því að tryggja sjálfstæði þjóðarinnar efnalega og pólitískt. Verður það bezt gert með því að auka framleiðsluna og útflutningsverðmætin.

Koma verður upp nýjum atvinnugreinum og tryggja starfsgrundvöll atvinnuveganna.

Ríkisstj., sem tekur við arfinum frá vinstri stjórninni, þarf að fá tíma til að undirbúa málin. Nú mun einhver spyrja: Hefur ekki Alþfl. með stuðningi Sjálfstfl. stjórnað landinu um eins árs skeið? Hefur ekki tekizt á þessu tímabili að lagfæra ýmislegt af því, sem illa var gert í tíð vinstri stjórnarinnar? Það verður að viðurkennast, að efnahagsmálin eru af eðlilegum ástæðum óleyst og að núverandi ríkisstj. stendur frammi fyrir þeim vanda að leysa úr þeim erfiðleikum, sem vinstri stjórnin gafst upp við að leysa, þegar hún hrökklaðist frá. Eigi að síður má fullyrða, að minnihlutastjórn Alþfl. gegndi mikilvægu hlutverki með því að koma í veg fyrir, að dýrtíðin héldi áfram að hækka, eins og hún hefði gert, ef stefna vinstri stjórnarinnar hefði verið ráðandi. Þegar vinstri stjórnin fór frá, var vísitalan komin upp í 202 stig. Með óbreyttri stefnu hefði vísitalan komizt upp í 270 stig í októbermánuði s.l. Þarf ekki að lýsa, hvaða afleiðingar það hefði haft í för með sér. Það var rétt, sem Hermann Jónasson sagði, þegar hann hljóp af skútunni haustið 1958, að vandinn væri óleysanlegur.

Það, sem gerzt hefur, er það, að verðbólguskrúfan hefur verið stöðvuð til bráðabirgða með niðurgreiðslum og að nokkru með því, sem almenningur lagði af mörkum í sambandi við setningu stöðvunarlaganna 1. marz s.l. En til þess að halda verðlaginu niðri á sama hátt og gert hefur verið vantar á næsta ári um 250 millj. kr., ef búa á við óbreytt kerfi. Er því eðlilegt, að litazt sé um og nýjar leiðir athugaðar. Ríkisstj. telur, að með því að gera hlé á þingstörfum fáist meiri tími til þess að vinna að lausn vandamálanna og undirbúa till. fyrir Alþingi. þegar það kemur saman í janúar n.k. Frestun á fundum Alþingis að þessu sinni er sjálfsögð ráðstöfun. Á undanförnum árum hefur seta Alþ. verið óþarflega löng. Með bættum vinnubrögðum og góðum undirbúningi mála frá hendi ríkisstj. mætti stytta þingtímann a.m.k. um tvo mánuði. Ríkisstj. ber að hafa forustu um sparnað og bætt vinnubrögð í opinberum rekstri. Leggja þarf niður nefndir og ráð, sem hægt er að komast af án. Þess ber að minnast, að þjóðin er fámenn og á mörg verkefni óleyst. Fámenn þjóð stendur ætíð í baráttu um það að halda pólitísku og efnalegu sjálfstæði. Þarf því vel að vanda það, sem gert verður í efnahags- og atvinnumálum þjóðarinnar. Nauðsynlegt er að minnast þess, að þjóðin er eins og ein fjölskylda, þar sem hver verður að leggja sitt fram, ef vel á að fara. Með sameinuðu átaki mun takast að komast út úr þeim vanda, sem nú er við að etja.

Möguleikarnir eru miklir, ef þeir eru nýttir og þjóðin ber gæfu til að vinna markvisst að því að koma atvinnuvegunum á traustan grundvöll. Ríkisstj. mun með till. sínum á Alþ., þegar það kemur saman í janúarmánuði, leitast við að leggja grundvöllinn að svo traustu og fjölbreyttu atvinnulífi sem verða má til þess að tryggja þjóðinni öryggi og bjarta tíma.