17.02.1960
Sameinað þing: 16. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 52 í D-deild Alþingistíðinda. (2515)

18. mál, flugsamgöngur við Siglufjörð

Jón Pálmason:

Herra forseti. Þessi till., sem hér liggur fyrir á þskj. 18, var flutt á fyrri hluta þessa Alþ. at Einari Ingimundarsyni bæjarfógeta og 4 öðrum hv. þm. úr Norðurlandskjördæmi vestra.

Þessi till. fer fram á það, að hæstv. ríkisstj. láti á þessu ári eða fyrir næsta þing rannsaka það, með hvaða hætti sé helzt hægt að tryggja flugsamgöngur við Siglufjarðarbæ. Það er nú nokkurn veginn augljóst, að svo einangraður staður sem Siglufjörður er oft og mörgum sinnum, er mikil þörf á því, að þangað sé hægt að tryggja flugsamgöngur. Það kemur fyrir meira að segja stundum um hásumarið, að vegurinn yfir Siglufjarðarskarð teppist, og þá er engin samgönguleið við Siglufjörð nema á sjó, að ég ekki tali um það, sem er altítt að vetrinum, að leiðin til Siglufjarðar, landleiðin, er algerlega lokuð. Nú má að vísu segja, að það sé nokkur bót í því einstaka sinnum, að það eru möguleikar til þess að nota sjóflug eða lenda á sjó á þessum stað, eins og víða annars staðar í kringum land, en það er allsendis ófullnægjandi samgönguaðstaða. Og svo illa vill til, eins og allir þeir menn vita, sem komið hafa til Siglufjarðar, að undirlendi í grennd við Siglufjarðarbæ er tiltölulega mjög lítið og því örðugt um flugvallargerð. Þó telja kunnugustu menn, að það sé engan veginn útilokað, að þar sé hægt að gera nokkurn veginn flugvöll fyrir smærri flugvélar, en stærri flugvöll er varla um að ræða.

En hvað sem öllu því líður, gefur það auga leið, að fyrir svo fjölmenna byggð eins og Siglufjörður er, er það mjög þýðingarmikið, að rannsakað sé til hlítar, með hverjum hætti er helzt mögulegt að tryggja þangað samgöngur loftleiðina. Ég vil þess vegna mega vænta þess, að hv. Alþ. taki þessu máli með fullum skilningi og samþ. þessa till., sem hér liggur fyrir. Það er víst ákveðin ein umr. um þessa till., og legg ég til, að umr. till. verði frestað og till. vísað til hv. allshn.