05.04.1960
Sameinað þing: 35. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 53 í D-deild Alþingistíðinda. (2517)

18. mál, flugsamgöngur við Siglufjörð

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Í fjarveru þess hv. þm., sem allshn. hafði kjörið frsm., og samkvæmt hans ósk mun ég gera grein fyrir nál. um mál þetta. Till., sem til umræðu er, hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta fram fara athugun á, með hvaða hætti flugsamgöngur verða helzt tryggðar við Siglufjörð. Skal athugun þessari vera lokið, áður en reglulegt Alþingi 1960 kemur saman.“

Allshn. leitaði eftir umsögn flugráðs um þetta mál. Samkvæmt upplýsingum, sem flugráð hefur sent n., hefur flugmálastjórnin fyrir nokkru látið verkfræðing sinn,

Ólaf Pálsson, rannsaka möguleika á byggingu flugbrautar á Siglufirði, og liggur fyrir allýtarlegt álit hans. Hann segir m.a. svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Eins og kunnugt er, er Siglufjörður stuttur, 6 km á lengd, umkringdur af 700 m háum fjöllum með bröttum hlíðum á þrjá vegu. Undirlendið í fjarðarbotninum er lítið, og hlíðar fjallanna ganga í sjó niður. Eru aðstæður þar og skilyrði því slæm til að gera flugbraut, sem hæfir Douglas DC 3, sem notuð er hér í innanlandsflugi, en hún þarf 10–12 hundruð metra langa braut. Virðist vera aðeins um einn möguleika að ræða, en sá möguleiki er að gera 1300 m braut frá veginum við brúna á Fjarðará og út yfir Ráeyri.“

Fylgir allnákvæm lýsing á aðstöðu til þess verks. Áð lokum segir, að kostnaður við þessa framkvæmd sé talinn ekki meiri en 5 millj. kr. Þá skýrir flugráð frá því, að það hafi samþykkt að láta gera á því athugun, hve mikið það muni kosta að fullgera sjúkrabraut á Siglufirði, 400 m langa.

Af þessu er ljóst, að hér eru athuganir í gangi, og má því ætla, að samþykkt þessarar till. muni verða til að lýsa vilja Alþ. til þess, að þessum athugunum verði haldið áfram, unz niðurstöður liggja fyrir um, hvaða möguleikar eru fyrir hendi og hver kostnaður mundi verða.

Jafnframt því að athuga þessa hliðmálsins taldi allshn. sjálfsagt að kynna sér, hvað gert hefði verið varðandi þáltill., sem samþykkt var í maí 1959 um flugsamgöngur, en sú till. er ekki óskyld þessu máli. Hún kom fram hér á þingi og fór fram á athugun, sem átti að byggjast á því, að nú væru framleiddar eða mundu bráðlega verða framleiddar nýjar tegundir flugvéla, er þyrftu mjög stuttar brautir, og gætu því gerbreytzt öll viðhorf okkar til flugvallargerðar. Í bréfi, sem n. barst frá samgmrh., er upplýst, að mál þetta sé enn í athugun hjá flugráði. Er ekki að vænta, að þeirri athugun ljúki fyrr en í fyrsta lagi snemma á komandi sumri, sökum þess að sú eina flugvélategund, sem bezt virðist til innanlandsflugs fallin hér á landi og sparað gæti fé til byggingar flugvalla, er enn ekki fullreynd.

Þetta vildi ég upplýsa um till. þessa og meðferð hennar hjá allshn., en niðurstaða n. er sú, að hún mælir einróma með því, að till. verði samþykkt.