24.02.1960
Sameinað þing: 17. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 58 í D-deild Alþingistíðinda. (2534)

24. mál, vinnsla sjávarafurða á Siglufirði

Flm. (Gunnar Jóhannsson):

Herra forseti. Ég ásamt þrem þm., þeim hv. 4. þm. Norðurl. v. (EI), 1. þm. Norðurl, v. (SkG) og 9 landsk. (JÞ), hef leyft mér að flytja þáltill. þá á þskj. 30, sem hér liggur fyrir. Till. er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

Alþ. ályktar að skora á ríkisstj. að láta gera á grundvelli l. nr. 47 7. maí 1946 og l. nr. 60 24. maí 1947 kostnaðaráætlun um byggingu og rekstur verksmiðju á Siglufirði til niðursuðu og niðurlagningar á síld og öðrum síldarafurðum. Áætlun skal lokið fyrir 1. okt. 1960.“

Bygging niðursuðu- og niðurlagningarverksmiðju á Siglufirði er mál, sem búið er að vera á dagskrá í fjöldamörg ár. Þó að merkilegt megi teljast, hefur þetta mál mætt allmikilli andstöðu og ég vil segja skilningsleysi ýmissa áhrifamanna, sem um þessi mál hafa fjallað. Þessi andstaða hefur ekki komið fram í opinberri baráttu á móti málinu, þegar það hefur verið til umr. á Alþ. eða annars staðar, heldur fyrst og fremst í neikvæðri andstöðu, þegar rætt hefur verið um framkvæmdir. Útkoman hefur því orðið sú, að ekkert raunhæft hefur verið gert til framdráttar málinu.

Árið 1946 voru samþ. á Alþ. 1. um niðursuðuverksmiðju. sem reist skyldi á Siglufirði. Eins og grg. ber með sér, var að tilhlutan þáv. atvmrh., Áka Jakobssonar. þáv. þm. Siglf., flutt frv. til l. um byggingu síldarniðursuðuverksmiðju ríkisins. Frv. var flutt af sjútvn. Nd. Í 1. gr. frv. segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:

Ríkisstj. er heimilt að reisa og reka á Siglufirði verksmiðju til þess að sjóða niður og leggja síld í dósir.“

Í 2. gr. segir:

„Tilgangur verksmiðjunnar er að hafa forustu um niðursuðu og niðurlagningu síldar í dósir með það fyrir augum að miðla reynslu og þekkingu á þessu sviði til annarra slíkra verksmiðja, sem reistar kunna að verða á landinu.“

Frv. hlaut hinar beztu undirtektir hjá öllum þorra þáv. alþm. Ég hef lesið yfir allar umr., sem fram fóru um málið á Alþ., og kemur þar í ljós, að því er virðist, mikill áhugi alþm. fyrir framgangi málsins.

Eitt atriði var þó, sem menn deildu um, og það var stjórn væntanlegs fyrirtækis. Nokkrir þm. vildu að stjórn verksmiðjunnar svo og allar framkvæmdir, svo sem bygging verksmiðjunnar og rekstur, yrði falin síldarverksmiðjum ríkisins. Meiri hl. þm. beggja d. var samþykkur till. atvmrh. um, að sérstök stjórn yrði skipuð, sem sæi um byggingu verksmiðjunnar og annaðist um allan rekstur hennar. Þetta sjónarmið varð ofan á. Atvmrh. skipaði þriggja manna stjórn fyrir fyrirhugaða verksmiðju, sem hóf þá þegar nauðsynlegan undirbúning, svo sem útvegun nauðsynlegra véla, útvegun lóðar o.fl. Málið virtist nú vera komið á mjög góðan rekspöl, menn búsettir á Siglufirði voru málinu mjög fylgjandi, bæjarstjórn lét af hendi viðunandi lóð undir fyrirtækið og sýndi í verki mikinn áhuga og velvild til fyrirhugaðs mannvirkis.

Árið 1947 urðu stjórnarskipti í landinu. Nýsköpunarstjórnin lét af störfum, og við tók nú stjórn, sem var samsteypustjórn, að mig minnir þriggja flokka. Eitt fyrsta verk þeirrar stjórnar var að flytja frv. til l. um breyt. á l. um niðursuðuverksmiðjuna, þannig að stjórn fyrirhugaðrar verksmiðju skyldi falin stjórn síldarverksmiðja ríkisins á Siglufirði. Frv. þetta náði fram að ganga, og stjórn niðursuðuverksmiðjunnar var leyst frá störfum. Fyrsta verk stjórnar SR var að afturkalla pantanir á vélum til verksmiðjunnar, sem fyrrv. stjórn hafði gert. Með þeim ráðstöfunum þótti sýnt, hvert stefndi um frekari framkvæmdir, enda kom það á daginn, að það eru þær einu framkvæmdir, sem stjórn síldarverksmiðja ríkisins hefur gert í málinu.

Hvað því hefur valdið, að stjórn SR hefur ekkert gert til þess að koma málinu áleiðis, verður ekki rætt hér að neinu ráði. Sjálfsagt getur margt komið þar til greina, svo sem örðugleikar á útvegun lánsfjár, vöntun hæfra sérfræðinga í niðursuðuiðnaði og síðast, en ekki sízt, ótrú forráðamanna SR á fyrirtækinu og vantrú þeirra á því, að hægt væri að útvega örugga markaði fyrir framleiðsluvörur verksmiðjunnar.

Þá má og benda á, að á árunum eftir að l. um niðursuðuverksmiðjuna voru samþ. voru mikil síldarleysisár, og hefur það að sjálfsögðu haft sín áhrif og að einhverju leyti til þess, að úr framkvæmdum varð ekki.

Nú er það svo, að þegar ráðizt er í nýjar framkvæmdir, sérstaklega þegar um er að ræða uppbyggingu nýs og áður lítt þekkts atvinnuvegar, má búast við allmiklum byrjunarörðugleikum, bæði við framleiðsluna sjálfa og líka við útvegun markaðanna, Niðursuða á síld og niðurlagning síldar í dósir var þá lítt þekktur atvinnurekstur hérlendis, og þær fáu tilraunir, sem gerðar höfðu verið með niðursuðu á síld, höfðu gefizt misjafnlega. Bar þar margt til, svo sem fjárskortur þeirra. sem tilraunirnar gerðu, og þá kannske fyrst og fremst vöntun á hæfum og góðum sérfræðingum í niðursuðuiðnaði. Þá var það og skoðun margra þeirra manna, sem fengust við sölu sjávarafurða erlendis, að það mundi vera miklum örðugleikum bundið að selja niðursuðuvörur út úr landinu, en án þess að hægt sé að selja framleiðsluna á erlendum markaði, er óhugsandi, að hægt sé að reka slíkt fyrirtæki. Innlendur markaður fyrir niðursuðuvörur hlýtur alltaf að vera mjög takmarkaður. Það er því höfuðskilyrði fyrir rekstrarmöguleikum slíks fyrirtækis sem niðursuðuverksmiðju, að hægt sé að selja vöruna úr landi og það á hagstæðu verði. Nú er það vitað, að nágrannaþjóðir okkar, svo sem Norðmenn og Svíar, hafa um fjöldamörg ár haft með höndum niðursuðu og niðurlagningu á síld af ýmsum stærðum og gerðum í allstórum stíl og það með mjög góðum árangri. Vitað er, að við Íslendingar höfum bezta fáanlegt hráefni til slíkrar framleiðslu. Svíar kaupa árlega af okkur allmikið magn kryddsíldar og sykursíldar, sem þeir að miklu leyti leggja niður í dósir sem flök og gaffalbita.

Með því að flytja síldina út sem fullunnin matvæli er óhætt að fullyrða, að verðmæti hennar mundi þrefaldast, miðað við það, sem nú er. Það er því ljóst, að hér er um mjög mikið hagsmunamál að ræða, sem er óverjandi að draga á langinn öllu lengur. Allar líkur benda til þess, að hægt sé að útvega mikla og góða markaði fyrir niðursoðnar sjávaraturðir, svo sem síld, sjólax í olíu og hrogn, en þau eru nú flutt út óunnin, að ég held aðallega til Svíþjóðar, en Svíarnir sjóða þau svo niður og selja þau til annarra landa, svo sem Ameríku og Grikklands, með ágætum hagnaði, eftir því sem sagt er.

Það ætti öllum landsmönnum að vera áhugamál að auka framleiðslu okkar og gera hana fjölbreyttari og breyta okkar góðu hráefnum í fullunnin matvæli. Allar þjóðir heims stefna hröðum skrefum að því að auka og endurbæta iðnað sinn og taka í þjónustu sína hin fullkomnustu tæki. Við Íslendingar verðum að vera vel á verði, ef við eigum ekki að dragast aftur úr á þessu sviði. Við verðum að leggja ótrauðir út á nýjar brautir. Við getum verið stoltir af því að eiga duglegustu og afkastamestu sjómenn í heimi, og við vitum, að í hafinu kringum landið eru ein auðugustu fiskimið heims. Þetta er allt gott og blessað. En í ljósi þessara staðreynda verðum við að hafa það hugfast, að það er engan veginn nægilegt að afla mikils. Við verðum jafnhliða að vinna að því með öllum tiltækilegum ráðum að breyta þessu ágæta hráefni í fullunnin matvæli og senda þau þannig á erlendan markað. Allar þjáðir keppa að því að láta vinna sem mest og bezt úr þeim hráefnum, sem þær framleiða í heimalöndum sínum. Enn þá seljum við úr landi mjög mikið magn af hinu ágætasta hráefni, sem hægt væri að breyta í fullkomin matvæli. Ég tel, að á þessu þurfi að verða breyting og því fyrr, því betra. Með því að flytja út fullunnin matvæli vinnst tvennt: Í fyrsta lagi fæst stórum meiri gjaldeyrir fyrir vöruna þannig flutta fullunna en áður. Í öðru lagi mundi skapast mikil atvinna í landinu með tilkomu hinna nýju iðnaðarfyrirtækja.

Þar sem mestallt verðlag er nú mjög breytt frá því, sem var, þegar lögin frá 1946 og 1947 um síldarniðursuðuverksmiðju ríkisins voru samþ., þótti rétt að flytja þetta mál hér á Alþ. sem þáltill., þar sem skorað sé á ríkisstj. að láta gera kostnaðaráætlun um byggingu og rekstur slíkrar verksmiðju, eins og tillagan gerir ráð fyrir.

Við flm. óskum þess, að mál þetta fái örugga og jákvæða fyrirgreiðslu hjá hv. þm. og hæstv. ríkisstj. Ég vil svo leyfa mér að leggja til við hæstv. forseta, að umr. verði frestað og till. verði vísað til hv. fjvn.