24.02.1960
Sameinað þing: 17. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 72 í D-deild Alþingistíðinda. (2560)

29. mál, veðdeild Búnaðarbankans

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Þessi till. er um það, að rannsökuð verði fjárþörf veðdeildar Búnaðarbankans og síðan gerðar till. um það, hvernig unnt sé að tryggja henni fjármagn, til þess að hún geti starfað með eðlilegum hætti. Um þetta er vitanlega gott eitt að segja, því að það er þörf fyrir fé til veðdeildar Búnaðarbankans, til þess að hún geti gegnt sínu hlutverki.

Hv. 1. flm. hefur gert nokkra grein fyrir því í ræðu sinni, hvað gert hefur verið af hálfu Alþingis og ríkisstjórna að undanförnu til þess að bæta úr fjárþörf veðdeildarinnar. Hann nefndi m.a., að stundum hefur verið ákveðið á Alþ. að láta til veðdeildarinnar nokkrar fjárupphæðir af greiðsluafgangi ríkissjóðs. Þannig var það árin 1954 og 1955, og síðar var ákveðið með lögum frá Alþ., að þau lán, sem veðdeildin hafði þannig fengið frá ríkissjóði, skyldu eftir gefin ásamt vöxtum af þeim.

Það var í samræmi við þetta, sem áður hafði gerzt, sem fulltrúar Framsfl. í fjvn. á síðasta aðalþingi báru fram till. um það, að veðdeildin fengi 5 millj. kr. lánaðar af tekjuafgangi ríkisins árið 1958. Því miður var þessi till. felld á þinginu, og það merkilega var, að tveir af hv. flm. þessarar till., sem hér liggur fyrir. sem nú sýna ásamt fleirum áhuga sinn fyrir þessu máli að útvega veðdeildinni fé, munu í fyrra hafa lagt sitt lið til þess að fella þessa till. um þetta lán til veðdeildarinnar sem ég nefndi. Um það þýðir náttúrlega ekki að sakast, það er komið sem komið er í því efni. En þó að það sé þarft mál að athuga það, með hverjum hætti bætt verður úr fjárþörf veðdeildarinnar í framtíðinni, þyrfti jafnframt og er aðkallandi að gera einhverjar ráðstafanir til þess, að veðdeildin fái nokkra upphæð nú hið allra fyrsta til þess að geta bætt úr brýnustu þörfum umsækjenda. Það er vitað, að það liggja fyrir nú margar umsóknir frá bændum um veðdeildarlán, og margir þeirra hafa þess brýna þörf að fá þar nokkra úrlausn.

Eins og hv. 1. flm. og frsm. till. gat um, hefur stjórn veðdeildarinnar ekki talið sér fært að undanförnu að láta hvern einstakan hafa meira en 35 þús. kr. lán. Þetta er vitanlega ekki há upphæð nú á tímum, en þó er það svo, að þetta hefur gert mikið gagn. Þetta hefur greitt úr vandamálum fyrir ýmsum, sem hafa getað fengið þessi lán, og það væri mjög mikils um það vert, ef tækist að útvega veðdeildinni nú þegar nokkra upphæð, þótt ekki væri nema tiltölulega fáar millj. kr., til þess að hún gæti, eins og hún hefur gert flest undanfarin ár, sinnt nokkru af umsóknunum og bætt úr brýnustu þörfum manna. Ég hefði því viljað beina þeirri áskorun til hv. flm. þessarar till., að þeir reyni að vinna að því við hæstv. ríkisstj. að hún geri ráðstafanir til þess nú hið allra fyrsta að útvega veðdeildinni nokkra fjárupphæð í þessu skyni, og vil ég þá jafnframt beina þessu til hv. fjvn., sem samkvæmt fram kominni till. fær sennilega þetta mál til meðferðar.