11.05.1960
Sameinað þing: 48. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 74 í D-deild Alþingistíðinda. (2563)

29. mál, veðdeild Búnaðarbankans

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Það mun hafa verið 24. febr. í vetur, sem umræða hófst hér í þingi um þessa till. Ég benti á það þá við upphaf umræðunnar, að það væri mjög aðkallandi að gera einhverjar ráðstafanir til þess nú þegar, að veðdeildin fái nokkra fjárupphæð til þess að geta bætt úr brýnustu þörfum fyrir lán, en vitað er, að nú þegar liggja fyrir allmargar umsóknir um veðdeildarlán frá mönnum víðs vegar um land, en veðdeildin hefur ekki vegna fjárskorts getað veitt lán nú um alllangan tíma. Ég óskaði þess. að bæði fim. till. og einnig þn., sem um málið fjallaði, tæki þetta til athugunar.

Nú liggur fyrir nál. frá hv. fjvn., þar sem mælt er með till., eins og hún liggur fyrir. Um till. er vitanlega gott eitt að segja að því leyti, að það er þörf að athuga, með hverjum hætti bætt verður úr fjárþörf veðdeildarinnar í framtíðinni, en þetta leysir ekki þann vanda, sem við er að fást nú í augnablikinu. Það var rætt um stofnlánasjóði Búnaðarbankans á þessum fundi fyrir skammri stundu í tilefni af fsp. sem fram komu, og þar var m.a. minnzt á veðdeild Búnaðarbankans. Það kom fram í svari hæstv. landbrh., að enn hefur deildinni ekki verið útvegað fé. Hins vegar lét ráðherra það uppi, að ríkisstj. hefði hug á að bæta úr fjárþörf veðdeildarinnar.

Ég vil einmitt vegna þessa ástands, sem nú er hjá veðdeildinni og brýn þörf er á að bæta úr, leyfa mér að leggja hér fram skriflega brtt. við þá till., sem fyrir liggur, sem ég — með leyfi hæstv. forseta — vil gera grein fyrir. Till. mín er um það, að við tillgr. bætist ný málsgrein, þannig orðuð: Enn fremur ályktar þingið að skora á ríkisstj. að útvega veðdeildinni nú þegar nokkra fjárupphæð, til þess að unnt sé að bæta úr brýnustu þörfum.

Ég nefni ekki þarna ákveðna upphæð, því að ég er að sjálfsögðu ekki svo kunnugur því, hvað mikið er um umsóknir hjá veðdeildinni. Ég veit, að þær munu vera allmargar. Og þó að ekki væri unnt að útvega í bili nema tiltölulega litla upphæð, fáar milljónir króna, þá gæti það gert mikið gagn til að bæta úr brýnustu þörfum. Mér þykir líklegt vegna ummæla ráðh., sem ég vitnaði til áðan, að hann vilji gera sitt til að bæta úr þessari aðkallandi þörf, og væri þá gott fyrir hæstv. stjórn að hafa viljayfirlýsingu frá Alþ. um, að þetta væri gert.

Vænti ég þess því, að þessari brtt. minni verði vel tekið.