11.05.1960
Sameinað þing: 48. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 75 í D-deild Alþingistíðinda. (2564)

29. mál, veðdeild Búnaðarbankans

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég hygg, að það sé ekki þörf á að staðfesta þingvilja með því að samþykkja fram komna till. frá hv. 1. þm. Norðurl. v. (SkG), og ég hygg, að þótt þessi till. verði samþ., breyti það ekki á neinn hátt afstöðu ríkisstj., því að mér er kunnugt um. að þar er vilji fyrir hendi til þess að útvega veðdeildinni fé, svo fljótt sem mögulegt er, og samþykkt þessarar till. út af fyrir sig skapar ekki neina peninga. Ég er sannfærður um vilja hv. Alþ. í þessu efni. Ég tel ekki þörf á að fá hann staðfestan með þessari till. Ég tel að ef ríkisstj. útvegar veðdeildinni fé, þá geri hún það með vilja meiri hluta Alþingis. ef ekki alls Alþingis, vegna þess að mér dettur ekki í hug að ætla það, að nokkur hv. þm., nokkur maður, sem situr hér á hv. Alþ. hafi ekki gert sér grein fyrir því, hversu fjárþörfin er brýn hjá veðdeildinni. Og eins og ég sagði hér í dag, hefur ríkisstj. hug á því að leysa mál deildarinnar að einhverju leyti á þessu ári. Ég tel hins vegar, að eins og aðaltillagan er, þá sé hún málefnum veðdeildarinnar til styrktar, vegna þess að hún á að leiða til rannsóknar í þessum efnum, á hvern hátt eigi að skapa veðdeildinni starfsaðstöðu, ekki aðeins nú, heldur til frambúðar. Það er þess vegna nægjanlegt að samþykkja till. eins og hún kemur frá hv. fjvn. Hitt er svo annað mál, að ef Alþ. út af fyrir sig lítur svo á, að þetta sé málinu til styrktar, að fá hina skriflegu brtt. samþykkta, er ekkert við því að segja. En ég tel vegna fram kominnar till. ástæðu til að taka það fram að stjórnin hefur fullan hug á að bæta úr ástandi veðdeildarinnar og reyna að útvega henni fé á þessu ári, og ég tel, að sú aðstaða batni ekki á neinn hátt, þótt hin skriflega till. verði samþ., vegna þess að það er fyrir fram vitað, hver vilji hv. Alþingis er.