11.05.1960
Sameinað þing: 48. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 75 í D-deild Alþingistíðinda. (2566)

29. mál, veðdeild Búnaðarbankans

Frsm. (Jónas G. Rafnar):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð út af ummælum hv. 1. þm. Norðurl. v. (SkG).

Ég held, að hv. þdm. sé kunnugt um það, að fjárhagserfiðleikar veðdeildarinnar séu síður en svo nýlega tilkomnir. Á undanförnum árum hefur veðdeildin því miður ekki verið þess umkomin að leysa vandræði þeirra manna, sem til hennar hafa leitað, en stjórnarvöldin hafa leitazt við að greiða fram úr þessum vandræðum með eins konar bráðabirgðalausnum. Það, sem fyrir okkur flm. vakir með þessari till., er það eitt út af fyrir sig, að reynt verði nú þegar að finna einhverja frambúðarlausn á þessum málum. Þarna er um svo víðtækt mál að ræða, að fram úr því verður ekki ráðið á örskömmum tíma og því full ástæða til þess að skipa sérstaka nefnd, sem mundi þá rannsaka málið á breiðum grundvelli.

Ég hef fátt eitt að segja um till. hv. þm. um það, að ríkisstj. útvegi þegar í stað nokkurt fé til deildarinnar, en ég held þó, að það muni hafa litla þýðingu að samþykkja till. Ég held, að það sé aðalatriðið að fá þessa athugun sem allra fyrst og vona, að eftir þá athugun finnist leiðir til þess að tryggja starfsgrundvöll veðdeildarinnar til frambúðar.