10.03.1960
Efri deild: 39. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1145 í B-deild Alþingistíðinda. (257)

88. mál, söluskattur

Alfreð Gíslason læknir:

Herra forseti. Þetta frv. til laga um söluskatt var lagt fram á Alþingi í gær siðdegis, svo að hv. alþm. hefur ekki unnizt mikill tími enn til að athuga það ofan í kjölinn. Ég vil taka undir það, sem hv. 5. þm. Norðurl. e. sagði áðan, er hann vítti það háttalag hæstv. ríkisstj. að senda frv. hinum og öðrum aðilum úti um allt land til athugunar og aths., löngu áður en það er lagt fram á þingi. Mér er kunnugt um, að fjmrn. sendi Verzlunarráði Íslands til athugunar drög að frv. til laga um söluskatt það snemma, að verzlunarráðið gat svarað og komið sínum aths. á framfæri í bréf 7. marz, eða tveimur dögum áður en frv. er lagt fram hér á þingi. Ég mun ekki ræða þetta frv. mikið í einstökum atriðum, en fara um það nokkrum almennum orðum.

Eins og kunnugt er, er þetta frv. til laga um söluskatt eitt nýmæla hæstv. ríkisstj., þeirrar er nú situr, og einn liðurinn í aðgerðum hennar gegn almenningi í þessu landi. Koma þess var boðuð fyrir löngu í fjárlagafrv., þar sem nýr skattur á vörusölu og þjónustu innanlands er áætlaður 280 millj. kr. að upphæð, og er sami fagnaðarboðskapur síðan endurtekinn í grg. frv. til l. um efnahagsmál. Þetta frv. kemur því engum með öllu að óvörum, og þó hefur verið beðið eftir því með nokkurri óþreyju. Mönnum var forvitni á að sjá, hvernig tilhögun þessarar skattlagningar yrði háttað í einstökum atriðum, og auk þess var það farið að kvisast, að einhver snurða hefði hlaupið á þráð þessa skattamáls og gerði hæstv. ríkisstj. erfitt fyrir. Var opinberlega um það rætt, að 100 millj. kr. skekkja hefði fundizt í útreikningum sérfræðinganna og kostað bæði tíma og fyrirhöfn að fylla upp í það skarð.

Í hvítri bók hæstv, ríkisstj. er einnig minnzt á söluskatt. Er sagt í þessari „viðreisnarbók“ stjórnarinnar, að hún áformi afnám þess 9% skatts, sem innheimtur hefur verið af iðnaðarframleiðslu og þjónustu, og hún muni þess í stað fá lögfestan nýjan söluskatt. Viðreisnin á þessu sviði er þá sú, að í stað gamals söluskatts kemur nýr söluskattur. Um leið og söluskattur er afnuminn, er nýr og raunar miklu hærri söluskattur lögleiddur.

Allt skraf stjórnarflokkanna um viðreisn í efnahagsmálum er fyrir löngu farið að láta í eyrum sem hrein öfugmæli eða þversögn. Hafi þjóðin fyrir kosningar trúað til hálfs fagurgalanum um leið þessara flokka til bættra lífskjara, er sú trú nú gersamlega horfin og í hennar stað kominn uggur og vonleysi. Þegar með fjárlagfrv. síðara sýndi hæstv. ríkisstjórn framan í sína réttu ásjónu. Enn betur gerði hún það með efnahagsmálafrv. Og ekki batnar myndin við það skattpíningarfrv., sem hér er sýnt. Á leið hæstv. ríkisstj. í efnahagsmálum hleðst nú hver varðan af annarri, er sýnir ótvírætt, hvert stefnir. Það er sýnt og augljóst, að leiðin liggur ekki til viðreisnar og bættra lífskjara, ekki almennings a.m.k., heldur liggur hún í þveröfuga átt, til hnignunar og versnandi afkomu alþýðunnar í landinu.

Í vetur var söluskattur ræddur lítillega hér í hv. Ed. og sérstaklega á það bent, hve óvinsæll einmitt þessi skattur væri og að óvinsæll væri hann að verðskulduðu. Hann er að vísu innheimtur miskunnarlaust hjá neytendum vöru og þjónustu. Innheimtuna annast mikill sægur fyrirtækja og einstaklinga, sem síðan eiga að gera ríkissjóði skil. En það er misjafn sauður í mörgu fé, og þó að neytendur séu látnir greiða hvern eyri þess skatts, er ekki víst, að öllu sé jafnvei til skila haldið, þegar að ríkissjóði kemur. Það hafa þótt mikil vanhöld á þessum skattpeningi og hann talinn ódrýgjast mikið á leiðinni frá neytendum til ríkissjóðs. Hefur vitundin um þetta ekki hvað sízt gert þessa skatttegund óvinsæla öðrum sköttum fremur. En hæstv. ríkisstj. setur ekki slíka smámuni fyrir sig. Í hennar höndum kemst nú þessi rangláti skattur fyrst í algleyming. Áður var hann takmörkunum háður, en nú skal hann gerður algildur að heita má. Með þeirri ráðstöfun kann einhverjum að vera búin viðreisn, en efnahag neytenda í landinu er það áreiðanlega engin viðreisn. Almennur söluskattur er neyzluskattur af verstu tegund. Hann leggst þeim mun þyngra á, sem efnahagur fólks er lakari. Hann er búhnykkur óprúttnum milliliðum, og hann heimtist illa í ríkissjóðinn. Það er einkennilegt og kannske einkennandi, að hæstv. ríkisstj. skuli einmitt hafa sérstakt dálæti á slíkum gjaldstofni.

Hæstv. stjórn tilkynnir það með stórum stöfum í hvítu bókinni, að tekjuskattur verði felldir niður, en hún skráir það ekki feitu letri, að hún ætli sér að vinna það margfaldlega upp með álagningu óbeinna skatta óendanlega. Beinir skattar eins og tekjuskattur eru miðaðir við greiðsluþol hvers eins, en með óbeinum sköttum er engum hlíft og sízt þeim, sem fátækir eru.

Samkv. frv. því, sem hér liggur fyrir nú, skal greiða söluskatt með tvennu móti. Fyrst skal greiða 16.5% söluskatt af tollverði allrar innfluttrar vöru að viðbættum aðflutningsgjöldum. Þessi tegund söluskatts er þegar til og nemur 7.7% og hækkar því úr 7.7% upp í 16.5%. Síðan bætist við þetta nýr söluskattur, sem nemur 3% og leggst á útlenda og innlenda vöru selda í smásölu og hvers konar starfsemi eða þjónustu í landinu að heita má. Þetta er nýmælið, nýjasti fagnaðarboðskapur hæstv. ríkisstj., söluskatturinn almenni, sem leggst eins og „líknandi“ hönd yfir allt viðskiptalíf í landinu. Á næstum hvert viðvik, sem unnið er, skulu lögð 3%, og við afhendingu allrar seldrar vöru skal kaupmaðurinn krefja neytandann um 3% aukreitis.

Það skal tekið fram, að af 8.8% viðbótarsöluskattinum af innfluttri vöru á fimmtungur að renna til sveitarfélaga á sama hátt og 1/5 hluti skattsins af innlendum viðskiptum rennur til þeirra. Sú ákvörðun gefur greinilega til kynna, að skekkja hafi á síðustu stundu fundizt í fyrri útreikningum um 56 millj. kr. sveitarfélögum til handa og að sú skekkja hafi verið ríkissjóði og sveitarfélögunum í óhag. Og því er nú lappað upp á frv. á síðustu stundu með þessari 8.8% hækkun.

Frumvarpshöfundur, sem er ríkisstj., er sýnilega mjög hreykinn af þessu verki sínu, frv., einkum ákvæðunum um 3% skattinn. Það er talað um einstigsskatt, neyzlustigsskatt og söluskatt á síðasta stigi viðskipta. Hróðugur skýrir frumvarpshöfundur frá því, að þetta einstigskerfi hafi Norðmenn og Svíar tekið upp eftir ýtarlega athugun þessara mála. En frumvarpshöfundur sleppir því hins vegar, að þetta kerfi sætti harðri gagnrýni með þessum þjóðum og um það urðu miklar og harðar deilur, áður en tókst að þvinga það fram.

Frumvarpshöfundur reynir einnig í grg, að telja fram ýmsa kosti þessa skattkerfis, eins og hæstv. fjmrh. gerði hér í ræðu áðan, en hræddur er ég um, að sú tilraun verki lítið sannfærandi á lesandann og áheyrandann.

Greiðendur þessa skatts eru að sjálfsögðu allir neytendur vöru og þjónustu. Þeir, sem vöruna og þjónustuna selja, eru ekki greiðendur, eins og sagt er á bls. 10 og bls. 11 hér í frv., heldur eru þeir innheimtumenn. Þeir eru margir og eins og gengur misjafnir að gæðum. Er réttilega á þann galla minnzt í grg. Nokkur hluti þessara innheimtumanna og kannske stór hluti þeirra hefur ófullkomið bókhald, og margir þeirra eru auk þess alls ekki bókhaldsskyldir, en samkv. bókhaldinu og engu öðru eiga þeir að standa ríkissjóði skil á skattinum.

En þrátt fyrir alla sjálfsánægjuna ber grg. frv. með sér, að í raun og veru skortir ekki á réttan skilning á því, að þetta verk, frv., sé eða kunni að vera eigi lítið gallað. Þeir ágætu menn, sem málin undirbjuggu, fengu lítinn tíma til að fjalla um þetta margbrotna mál og kvarta undan því. En það var mikið rekið á eftir, eins og í grg. segir. Þess vegna er því heitið, að unnið verði áfram að málinu, og er ekki nema gott um það að segja. En hæstv. ríkisstj. setur fátt fyrir sig og mun ætla að knýja hér fram þetta hálfkaraða frv. með öllum hugsanlegum vafaatriðum þess og öðrum ágöllum.

Hæstv. ríkisstj. á þegar að baki sér mikla afrekaskrá að ýmsu leyti. Hún er sem sé alltaf að slá gömul met, bæði eigin met og annarra. Söluskattur af innflutningi var 7% af tollverði að viðbættum aðflutningsgjöldum og áætlaðri álagningu 10%. Þetta gamla met ætlaði hæstv. ríkisstj. að láta standa. Í grg. fyrir fjárlagafrv. síðara segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Ekki er áformað að breyta núgildandi söluskatti af innflutningi, en hann er áætlaður 154 millj. með hliðsjón af reynslu s.l. árs og áhrifum væntanlegra efnahagsaðgerða.“ Þannig var áformað að hækka ekki þennan söluskatt. En hæstv. ríkisstj. getur ekki á sér setið. Þegar um álögur á almenning er að ræða, halda henni engin bönd. Á síðustu stundu augsýnilega, eftir að frv. er fullsamið, lætur hún skeyta aftan við það ákvæði um 8% til viðbótar 7% söluskatti af allri innfluttri vöru, hækkar hann m.ö.o. upp í 15%. Minna mátti nú gagn gera. Sú grein er gerð fyrir þessari hækkun, að skattur þessi geti ekki komið til framkvæmda fyrr en nokkuð er liðið á árið. Sama endurtók hæstv. fjmrh. í ræðu sinni áðan. En ég spyr: Kom nokkrum það á óvart í janúar, var það ekki öllum ljóst í ársbyrjun og meira að segja fyrir áramót, að þessi nýi söluskattur, ef koma ætti, gæti ekki náð til alls ársins 1960? Þetta hlýtur að vera fyrirsláttur. En hitt má vera, að á síðustu stundu hafi fundizt skekkja í fyrri útreikningum, einhvern mínus, sem vinna varð upp. Þetta hækkunarákvæði í halanum á frv. mun kosta neytendur í landinu hátt á annað hundrað millj. kr. En hvað munar almenning um það? Ekki verður hann hvort eð er rúinn meira en að skinninu.

Það er líklega vegna naums undirbúningstíma, að ýmislegt í þessu frv. er næsta óákveðið og að ráðh. eru veittar víðtækari heimildir til frávika en venjulegt er. Ráðh. getur ákveðið frávik frá hinu rómaða kerfi hins síðasta stigs ótakmarkað, sbr. 8. og 20. gr. frv. Ráðh. er heimilt að undanþiggja vörutegundir söluskatti við innflutning að eigin vild og ótakmarkað, sbr. 18. gr. Ráðh. getur einnig ákveðið að undanþiggja söluskatti vörur og þjónustu, ef hann telur sérstakar ástæður fyrir hendi. Og loks er ráðh. gert að ákveða hæð sekta, þegar skattskyldur aðili af ásetningi eða stórfelldu gáleysi skýrir rangt frá um söluskatt, sem hann hefur veitt viðtöku og honum hefur verið trúað fyrir.

Það er ekkert smáræðisvald, sem ráðh. er veitt, hvort sem það er nú gert í þeim tilgangi, að hann bæti úr brestum þessara hraðsömdu væntanlegu laga, eða í því felst tilhneiging til að gera ráðh. sem óháðastan lagabókstafnum yfirleitt.

Ég hef, eins og ég tók fram í upphafi, ekki skoðað þetta frv. niður í kjölinn, til þess hefur ekki verið tími, aðeins lesið það lauslega, en mér kæmi ekki á óvart, að unnt verði að benda á sitthvað áfátt í því af mönnum, sem til þess hafa betri skilyrði en ég.

Að lokum vil ég segja þetta: Hér er um að ræða eitt stærsta og mesta skattpíningarfrv., sem nokkru sinni hefur verið lagt fram á hinu háa Alþingi. Með þeim ráðstöfunum, sem í því felast, eru ríkissjóði áætlaðar nálægt 500 millj. kr. a.m.k. En enginn hefur hugmynd um, hve miklu hærri upphæðin er, sem almenningur í landinu, neytendurnir, verður að borga í samræmi við ákvæði þess. Þessar ráðstafanir eru sannanlega gerðar í flaustri og ekkert hirt um að vanda til verksins, svo er hæstv. ríkisstj. brátt í brók með skattpíninguna. Hvers vænta má af slíku hugarfari, sem hér birtist, og þeim vinnubrögðum, sem viðhöfð eru, er ekki vandséð, það er illt eitt. Enginn veit þó nú, hve miklu illu þetta álögufargan og þetta fljótræði getur komið til leiðar. Úr því verður reynslan ein að skera.