18.05.1960
Sameinað þing: 50. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 85 í D-deild Alþingistíðinda. (2583)

23. mál, hagnýting farskipaflotans

Eggert G. Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég var dálítið undrandi yfir ræðu hv. síðasta ræðumanns, 4. landsk. þm., og get ekki betur séð en að hann hafi við undirskrift nál. farið algerlega blaðavillt. Eftir þeirri ræðu, sem hann hélt hér nú, mælir hann nánast með því, að málið sé ekki afgreitt, eins og nánast er gert ráð fyrir á þskj. 396, en skrifar hins vegar með fyrirvara undir það, að till. verði samþykkt.

Að öðru leyti tel ég þessa ræðu sérstaka einmitt fyrir hv. þm. og fyrir þá afstöðu, sem hann hefur haft til mála varðandi bæði þau skipafélög, sem hér um ræðir, og þann einkarekstur, sem yfirleitt hefur verið hans hjartans mál að ætti ekki rétt á sér nema a.m.k. að takmörkuðu leyti. Hans tilvitnanir og hans skjól skulu nú helzt vera aðilar, eins og t.d. Verzlunarráð Íslands, sem eitt hefur nú lög að mæla í sambandi við afgreiðslu þessa máls, og til viðbótar ýmis þau skipafélög, sem hann ásamt mér og mörgum öðrum hefur á undanförnum árum tortryggt a.m.k. í sambandi við ýmis önnur atriði og á ég þar t.d. við það, þegar harðar vinnudeilur hafa verið.

Ég vil þó taka það skýrt fram hér, að ástæðan til flutnings tillögunnar í upphafi var alls ekki nein tortryggni í garð þeirra aðila, sem hér eiga hlut að máli. Það voru þær tölulegu staðreyndir, sem fyrir lágu um kostnað af hálfu íslenzka ríkisins við leigu erlendra skipa, sem komu mér til þess að flytja þessa tillögu, og ef á einhvern hátt mætti draga úr þeim kostnaði, þá tel ég, að jafnvel þó að hv. 4. landsk. þm. hafi nú orðið óbeit á því, að nefndir rannsaki mál. þó að einhver smávægileg laun yrðu fyrir það greidd. þá mættu þau störf verða mjög dýr og fyrirferðarmikil á ríkisreikningunum, til þess að það borgaði sig ekki.

Árið 1958, eins og ég greinilega tók fram í minni framsöguræðu fyrir till. í upphafi þingsins, voru yfir 30 millj. kr. greiddar til þessara hluta, og þó að ekki mætti lækka þessa upphæð nema um örfá prósent, þá hefði sú nefnd dyggilega unnið fyrir sér. Í annan stað vil ég svo láta þess getið, að það er ekki ætlazt til þess sérstaklega, sem er þó að vísu á valdi ríkisstj., að sérstök eða dýr nefnd starfi til rannsóknar á þessum málum.

Hv. 4. landsk. þm. sagði, að það yrði að sjálfsögðu að hafa samráð um þetta við skipafélögin. Það er beinlínis gert ráð fyrir því og orðrétt sagt í till. sjálfri, að svo skuli að unnið, og mér virtist, eftir að hann kom hér upp í stólinn og sótti í sig veðrið, að þá væri einungis tínt það fram, sem í raun og veru var vitað fyrir fram að væri álit þeirra aðila, sem væru andvígir því, að slík rannsókn færi fram. Hvað segja menn yfirleitt, þegar þeir eru spurðir að því, hvernig þeir líti sjálfir á, að þeirra eigin störf séu unnin? Við hv. 4. landsk. þm. höfum oft staðið að því saman að spyrja bæði atvinnurekendur og aðra þá, sem fólk hafa í sinni þjónustu, hvort þeir telji sig ekki geta greitt örlítið hærra kaup. Þaðan er yfirleitt sama svarið. Og sama svarið er yfirleitt hjá mönnum, sem eiga sjálfir að setjast niður til þess að dæma sín eigin verk. Það var því ekki við því að búast, að skipafélögin almennt sjálf óskuðu eftir því, að slík rannsókn færi fram. En það er þó hins vegar orðin staðreynd, að a.m.k. tvö þessara félaga, minnsta og yngsta félagið, Hafskip, og Ríkisskip, eru jákvæð í afstöðu sinni til till. og telja hana ekkert skaðræðismál, sem sé á ferðinni.

Það hefur oft í hjartnæmum ræðum verið minnzt á okkar kaupskipaflota og það verðmæta og mikilvæga starf, sem íslenzku sjómennirnir vinni á þessum skipum, og þann mikilvæga þátt, sem þessi skip annist í tilveru hinnar íslenzku þjóðar. Ég vil segja, að þessi óskabörn þjóðarinnar eiga ekki að liggja undir því ámæli, hvorki af einum né öðrum, að hægt sé að reka þau á hagkvæmari hátt fyrir þjóðarbúið en gert er. Skipafélögin fá með samþykkt þessarar till. gullið tækifæri til að sanna, að það, sem þau sjálf hafa sagt um sinn eigin rekstur, sé satt. Og ég álít, að Alþ. megi ekki láta henda sig annað en að gera sitt til þess, að slíkum orðrómi verði hnekkt. Þess vegna tel ég mikla og brýna nauðsyn á, að till. nái fram að ganga, og vil aðeins til að fyrirbyggja misskilning í sambandi við framsöguræðu hv. 3. þm. Norðurl. e. fyrir hönd minni hl. n. taka fram, að það starf, sem á sínum tíma var í þessum málum unnið af einum manni, eins og hann réttilega sagði, það hefur á síðustu árum ekki verið unnið. Það var á tímum hins svonefnda fjárhagsráðs, að þetta starf var upp tekið og af nokkuð mörgum mönnum, sem að þessum störfum vinna, skipaútgerð. Hefur mér verið sagt, að þetta hafi verið ákjósanlegasta fyrirkomulag, sem hægt væri að hugsa sér í þessum málum, og mikið mætti úr bæta, jafnvel með litlu starfsliði og jafnvel án þess að hafa nokkurn sérstakan starfsmann, ef fast samstarf kæmist á milli skipafélaganna um það að haga svo sínum flutningum, að draga mætti úr kostnaði við hin erlendu leiguskip.

Ég vil svo að lokum taka það fram, að ég hafði ekki búizt við því í upphafi míns máls, þegar málið var hér upphaflega lagt fyrir fyrst á Alþ. í fyrravetur og svo aftur nú, að um svo lítið mál í sniðum þyrftu að verða miklar deilur. En það hefur nú sýnt sig, að menn líta oft sínum augum hver á silfrið. Það er svo einnig um þessa till. Ég vil þakka hv. meiri hl. n. og reyndar n. allri fyrir það að afgreiða málið og meiri hl. fyrir að mæla með því. Ég vænti þess eindregið, að till. nái fram að ganga og það megi koma fram, sem satt er og rétt í þessum málum. og umfram allt vænti ég þess, að það mætti nokkuð draga úr greiðslum okkar til erlendra skipaeigenda á flutningi íslenzks varnings að og frá landinu.