18.05.1960
Sameinað þing: 50. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 91 í D-deild Alþingistíðinda. (2587)

23. mál, hagnýting farskipaflotans

Björn Pálsson:

Það er ef til vill ekki ástæða til þess að lengja þessar umr. mjög mikið. Það er farið að lifna dálítið yfir þeim, og þá langar mann til að vera með í gleðskapnum.

Ef menn vilja kenna einhverjum eitthvað, þá verða þeir að vita betur en sá sem þeir ætla að kenna, og þó að hv. Alþ. eða ríkisstj. skipaði nefnd eða Alþingi kysi n. til þess að fara að segja forstjórum skipafélaganna fyrir um, hvernig þeir ættu að haga verkum sínum, þá er ég hræddur um, að þeir þyrftu að vera anzi lengi í tíma hjá þessum mönnum, sem fengizt hafa við þessi mál, til þess að geta farið að leiðbeina þeim. Nú hafa forstjórar skipafélaganna ekki óskað eftir þessari aðstoð. Það eru hæg heimatökin fyrir ríkið að reka skipaafgreiðslu ríkisins á sem hagkvæmastan hátt, og ef ég væri einn forstjóranna, sem ég er nú ekki, sem betur fer. annaðhvort fyrir Eimskipafélagið eða fyrir SÍS-skipin, þá mundi ég vitanlega svara því til, að ég hafi lært svo mikið af rekstri ríkisskipanna, að ég þyrfti ekki að fá meiri tilsögn.

En viðvíkjandi því, að það er halli á ríkisskipunum, þá má benda á það, að þau inna sína þjónustu af hendi fyrir mjög sanngjarnt gjald. Þau dreifa vörunni út um landið, og ég veit, að t.d. Skjaldbreið er venjulega hlaðin. svo að það er ekki því til að dreifa, að þau hafi ekki nóg að gera. Það er einfaldlega það, að ekki er tekið meira gjald fyrir að flytja vöruna en það, að skipin eru rekin með halla. Þetta er þjónusta við fólkið. Við vitum það líka, að samgöngur á landi eru styrktar, svo að skiptir tugum milljóna, með vegalagningu og vegaviðhaldi, og þetta er hliðstætt. Ríkið tekur þátt í að inna þessa þjónustu af hendi fyrir minna gjald en það kostar. Það má vel vera, að Það sé hægt að gera þetta á hagkvæmari hátt. En hitt er ég alveg viss um, að ef verið væri að kjósa einhverja fimm manna nefnd eða skipa nefnd manna, sem hefði miklu minni reynslu og þekkingu á þessum hlutum en þessir menn hafa, þá mundi ekki koma neitt jákvætt út úr því. Það er búið að skipa margar nefndir, og það hefur furðulítinn árangur borið. Þær hafa margar unnið mikið verk og samið heillöng nál., en svo er bara afar lítið gert með þetta og í flestum tilfellum ekki neitt.

Bæði Eimskipafélagið og skip samvinnufélaganna eru hlutafélög, sem eru rekin án afskipta ríkisins og án styrks frá ríkinu. Ríkið hefur því ekkert meira vald til þess að skipta sér af þessum hlutum en ef það færi að segja einhverjum bændum fyrir uppi í Mosfellssveit, hvernig þeir ættu að búa. Það gæti vel verið, að það væri hagkvæmara að segja við einn bónda: Ja, nú skaltu bara hafa kindur góði, — og við annan: Nú skaltu bara hafa kýr, þá þurfið þið ekki nema eina fjósskóflu til að moka flórinn, og þetta verður ódýrara fyrir ykkur en hafa bæði kindur og kýr. — Það má vel vera, að svo væri. En þetta er bara ekki framkvæmanlegt. Bændurnir væru frjálsir að hafa þetta svona. Þó að einhver nefnd ætlaði að fara að segja skipafélögunum fyrir, hvernig þau ættu að haga flutningum, sem hún væri alls ekki fær um, þá væru þau ekki skyld að taka tillit til þess.

Ef við vildum samþykkja eitthvað af viti og eitthvað, sem bæri árangur, þá ættum við nú að mælast til þess við hæstv. forsrh. einhvern tíma, þegar vel lægi á honum, að hann hringdi í þessa virðulegu forstjóra og bæði þá um að láta sér koma vel saman, vera ekki með neinn ríg á milli skipafélaganna og því síður pólitískar erjur og reyna að spara gjaldeyrinn eins og unnt væri. Ég hygg, að það hefði meiri áhrif en að einhver nefnd færi að kalla þessa menn saman, yfirheyra þá og fræðast af þeim og segja þeim svo fyrir verkum á eftir.

Annars er þetta ekkert stórmál, því þó að þessi nefnd verði skipuð, þá er það rétt hjá hv. 10. þm. Reykv., að hún gerir ekkert illt af sér. Hún gerir ekkert af sér nema fá einhverjar krónur úr ríkissjóði, og það er ekki af því, að ég álíti, að hún gerði neitt illt af sér, þó að hún yrði kosin, að ég var á móti því, heldur af því, að ég er sannfærður um, að hún gerir ekkert af sér, hvorki gott né illt.